þriðjudagur, janúar 30, 2007

Æ...þetta er sárt...

...ó já...þetta er svo ótrúlega sárt....en ef andlega hliðin mín er svona sár hvernig ætli strákunum okkar líði????? Ohhhhhhhhhhhhh....hvað þetta var hrikalegt.....Snorri svona líka sjóðandi heitur, 15 mörk úr 18 skotum....geri aðrir betur.....en allt kom fyrir ekki....nokkuð mikið um "klaufavillur" sem voru dýrkeyptar en samt voru strákarnir svo ótrúlega góðir...ótrúlega svekkjandi þetta síðasta skot okkar og alltof mikill tími eftir.....ég var komin uppí rúm með sængina yfir höfuð, búin að labba fram og til baka um alla íbúðina, þrífa vaskinn inni á baði, hoppa, öskra og berja í dyrakarma og svona...úfffff þvílík átök!!!!!!!!!!!!!

En samt sem áður er ég stolt af strákunum okkar og nú verða þeir bara að ná 5.sæti, það er ekki hægt annað en gleðjast yfir því...ég meina fimmta besta handboltaþjóð í heimi.....
Koma svo....ÁFRAM ÍSLAND!!!!!!!!!!

mánudagur, janúar 29, 2007

Fræðsla, menning og næturlífið

Merkilegt hvað allt þarf alltaf að gerast á sama tíma....t.d í síðustu viku þurfti ég að fá pössun fyrir Grétu 3 kvöld í röð!!!!!!!!!!!

Sem betur fer var eitt af þeim kvöldum henni í hag en á fimmtudagskvöldið var fór ég á fyrirlestur hjá Hugo Þórissyni sálfræðingi. Fyrirlesturinn var um samskipti foreldra og barna, ég les stundum heimasíðuna hans og hlusta stundum á hann í Ísland í bítið og hef gaman af. Auðvitað er margt sem hann er að segja bara almenn skynsemi og margt annað er spark í rassinn, en bókin sem hann byggir á er mjög góð og gerir manni bara gott að lesa hana, og það sem er best við allt þetta er að maður velur svo bara úr það sem maður telur að henti manni og barninu manns best!!!

Á föstudagskvöldið fór ég með Óla bróður og nokkrum vinnufélögum hans í Iðnó að sjá leikritið Best í heimi og það var hin besta skemmtun. Þetta sýnir svolítið hvernig við íslendingar tökum á móti útlendingum og hvernig útlendingar sjá Ísland. Leikendurnir voru fjórir útlendingar sem tala frábæra íslensku og það var afar skemmtilegt að upplifa hinar ýmsu aðstæður í gegnum þeirra túlkun!!!

Á laugardagskvöldið skellti ég mér með Ingunni og Birgittu á Pizza Hut og svo fórum við í afmæli hjá félaga okkar en það var haldið á Sólón...skemmtum okkur konunglega þar, þangað til svona um kl.01 en þá vorum við að verða eldri borgarar þar inni svo við skelltum okkur aðeins í bæinn og fórum á nokkra staði en fundum okkur hvergi...svo mín var bara komin heim og uppí rúm kl 03.00...ótrúlega huggó bara....

...og enn og aftur sannast það að ber er hver að baki nema sér bróður eigi og það er gott að eiga góða að, Diddi passaði á fimmtudagskvöldið, amma Þórey á föstudagskvöldið og Óli bróðir á laugardagskvöldið...takk elskurnar fyrir aðstoðina!!!!!!!

sunnudagur, janúar 28, 2007

Setningar úr bókmenntum

Eins og ég hef áður sagt hef ég ótrúlega gaman af því að lesa bækur og einu sinni las ég bara spennusögur en sl. 2 ár hef ég lagst yfir allskonar öðruvísi bækur og minnkað mikið að lesa svona afþreyingarbækur, en um jólin og núna í janúar er ég búin að lesa nokkrar. Það tekur mig yfirleitt bara nokkur kvöld að lesa eina bók þar sem ég les yfirleitt nokkrar bls áður en ég fer að sofa. Mér finnst mjög gott að slaka þannig á og hugsaði alltaf sem svo að þessar bókmenntir væru ekki svo flóknar og þetta er náttúrulega ekki eins og að lesa skólabækur, þar sem maður þarf að hafa hugann við og leggja á minnið. Þarna líður textinn bara áfram og maður þarf ekki að einbeita sér á sama hátt. Því hef ég oftast litið á bókmenntir sem ákveðna hvíld.
Oftast hef ég bara lesið þær og margar sem ég hef lesið skilja ekkert eftir sig en aðrar gera það þó....en eftir að hafa lesið Alkemistann og aðrar bækur Paolo Coelho sem og Munkinn sem seldi sportbílinn sinn, Flugdrekahlauparann og Svo fögur bein hef ég í meira mæli tekið eftir setningum í "venjulegum" bókum.
Ég las t.d bókina Farþeginn eftir Árna Þórarinsson og þar var eftirfarandi setning sem ég tók sérlega eftir og er minnisstæð:
"Hitt er jafn víst að þótt þú hafir ekki átt sjö dagana sæla, hvorki í lífi né starfi, skaltu ekki hætta að taka áhættu. Hún þarf bara að vera yfirveguð. Sá maður sem sem aldrei gefur færi á sér hættir að lifa lífinu til fulls. Láttu það ekki henda þig..." (bls 66).

Mér þykir því alltaf gaman að heyra af góðum bókum svo endilega látið mig vita þegar þið dettið niður á góðar bækur. Þær sem bíða núna lesningar hjá mér eru meðal annnars: Samskipti kennara og barna/Samskipti foreldra og barna, Hámarks Árangur, Lífsgleði njóttu og Leitin að tilgangi lífsins.
Hvort þessar verða lesnar fyrir sumarið veit ég ekki, annars fara þær með í sólina sem ég vonast til að komast í eftir útskrift!!

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Desert :)

Jiiii...á náttúrulega bara besta barn í heimi :)
Ég eldaði pasta í matinn og við borðuðum það með bestu lyst. Síðan segist Gréta ætla að gera desert handa okkur svo ég sest bara inn í stofu og hún dundar sér eitthvað í eldhúsinu og færir mér svo Hagendas ís í skál með Twix-súkkulaðisósu.......algerlega óvænt og hitti beint í mark :)

mánudagur, janúar 22, 2007

JÆTS...

Úfffff....taugaspenna, geðshræring, grátur, hlátur og þjóðarstolt!!!

ÍSLAND BEZT Í HEIMI!!!!!!

Æ Æ Æ :(

Æ hvað var sárt að horfa á handboltann í gær :(

Í fyrradag sat ég hér ein heima og horfði á Ísland - Ástralía og þegar staðan var orðin 6-0 fór um mig einhver óþægilegur hrollur. Þótt mitt lið væri að vinna fannst mér ekki þægilegt að horfa á þetta, mér finnst leiðinlegt þegar liðum er rústað í svona stórri keppni, kannski af því Ísland er lítil þjóð og við erum vön að tapa!! Allavega þá vorkenndi ég áströlum og vorkenndi þeim ennþá frekar eftir leikinn við Frakka þar sem þeir náðu bara að skora 10 mörk!!!!!!!!!!!!!!!!!

Leikur Íslands í gær var hins vegar sorglegur, en maður hélt nú í vonina og í hálfleik var ég sátt þar sem við vorum yfir og byrjuðum með boltann....en guðminngóður....eftir því sem leið á seinni hálfleik fór mér að líða verr og verr...ég fór að fá sama hroll og daginn áður en nú var það vegna þess hversu klaufalega liðið mitt spilaði..og það var sárt.
Þessi leikur hefði ekki þurft að fara svona og það er það sem svíður mest!!!
Að tapa með 3 mörkum er ekki rúst eða neitt til að skammast sín fyrir en það sem er sorglegast er að allir voru skíthræddir við þennan leik og mikil pressa og álag EN þrátt fyrir allar klaufalegu villurnar sem við gerðum töpuðum við bara með 3 mörkum!!!!
Sem segir manni það að ef við hefðum náð toppleik hefðum við unnið!!!
Og það sem það fór í taugarnar á mér í lýsingunni í gær, þegar Úkraína var í sókn og bara eitthvað að dunda sér þarna fyrir utan og Geir Magnússon segir að það sé engin ógn í þessu, þá þruma þeir á markið og skora....talandi um ÞRUMU ÚR HEIÐSKÍRU LOFTI!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Þá þarf bara að taka Frakkana í nefið í kvöld.....við getum það nú alveg.....huhummmmm :)
KOMA SVO......ÁFRAM ÍSLAND (sko...stelpan búin að finna jákvæðnina og bjartsýnina)

Það var þó bót í máli í gær að Óli bróðir bauð mér, Grétu og Didda í mat og jidúddamía hvað við fengum geggjaðan mat...og brjálæðislegan eftirrétt......Mmmmmm...takk fyrir okkur elskan!!

laugardagur, janúar 20, 2007

HM í handbolta :)

Jæja þá er loksins komið að því að HM í handbolta byrjar....ég er svaka spennt eins og alltaf þegar svona stórmót eru.

Árið 1987 minnir mig, fór ég fyrir tilstuðlan gamallar vinkonu minnar úr eyjum, hennar Sigurbáru, á handboltaæfingu hjá íþróttafélaginu Þór í Vestmanneyjum og fannst bara aldeilis gaman. Ég æfði handbolta í nokkur ár og hafði gaman af, var samt aldrei neitt sérlega góð, komst bara í hópinn en aldrei í liðið en fékk þó verðlaun fyrir mestu framfarir í 4.flokki :)
Það er mjög mikilvægt að ég tel að fara í einhverjar tómstundir þegar maður er barn/unglingur, ég bý allavega að því að hafa lært á blokkflautu og gítar, æft handbolta og fótbolta og prófað badminton og borðtennis :)

Allavega, þarna í kringum 1987 kviknaði áhugi minn á handbolta og ég fór að fara á alla karlaleikina hjá ÍBV og fylgdist lengi vel með og svo var það auðvitað landsliðið í handbolta....guðminngóður....ég veit ekki hvort maður á að segja frá allri geðveikinni hjá manni í kringum það!!!!
Fyrir þá sem ekki vita þá var KRISTJÁN ARASON mitt IDOL í handboltanum, jiiiiii..hvað mér fannst hann mikið æði!! Og enn í dag gerir fjölskyldan grín að mér...og ég kalla hann alltaf Stjána minn!!!!!!! Og Sara vinkona hélt ekki vatni yfir Júlíusi Jónassyni og ef mig minnir rétt var Alfreð Gísla uppáhald Laufeyjar!!!!!
En ég semsagt varð brjálæðislega mikill aðdáandi og safnaði blaðagreinum og myndum og hélt úrklippubók og það sem meira var....já bíðiði bara...hehehehe....þá átti ég stílabækur sem ég skrifaði alltaf leikmannahópinn í og svo skráði ég allt, hver skoraði, hver var rekinn útaf, hver var bestur og hvað markmennirnir vörðu mörg skot...og til þess að telja varin skot notaði ég lottómiða...þeir eru jú númeraðir og það var svo þægilegt að merkja bara við á lottómiðanum hversu mörg skot voru varin!!! Svo gerði ég bara strik þegar var skorað og gerði v fyrir ofan strikið er það var úr víti....ég er svo asskoti skipulögð þið skiljið!!!!!!!!!!!!!
Ég átti orðið ansi margar svona stílabækur!!!!!!!! Og maður vaknaði á nóttunni til að horfa á leiki og ég man einu sinni þegar útsendingin í sjónvarpinu klikkaði og við urðum að hlusta á útvarpið eldsnemma morguns og Ísland tapaði og það sem ég grenjaði!!!!!!
Þessi brjálaða árátta kom kannski til af því að þegar ég var unglingur langaði mig að verða íþróttafréttaritari...hefði kannski átt að skella mér í það?????

En ég er allavega að gera mig klára fyrir HM og hlakka bara til að fylgjast með strákunum okkar. Það er svo fyndið hvað maður fyllist miklu þjóðarstolti, og ég er svo viðkvæm að ég fæ alltaf gæsahúð og kökk í hálsinn þegar þjóðsöngurinn okkar er spilaður og tilfinningarnar sveiflast í allar áttir eftir því hvernig leikurinn fer!!!

En allavega....góða skemmtun og ÁFRAM ÍSLAND!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Spilakassar/Happaþrennur

Ég var að horfa á Ísland í bítið í morgun og þar var verið að ræða við formann og varaformann samtaka spilafíkla. Mér fannst ótrúlegt að sjá að á BSÍ er spilasalur sem er opinn frá 7.30-20.30 og samkvæmt þeim sem vinna þar (eins og kom fram í Ísland í bítið) þá er fólk að stunda þessa spilakassa allan daginn og ráfar jafnvel á milli spilasala.

Ég kann ekkert á þessa kassa og nenni ekki að eyða tíma og pening í þetta, ég man hins vegar mjög vel eftir kössunum sem voru hér í "gamla daga" og þeir voru sko auðveldari og ég man að mér fannst mjög gaman að spila í þeim í Tóta Turn og í gamla Herjólfi.
Ég er náttúrulega mjög skrýtin týpa, en ég man þegar ég var unglingur og var að skreppa í Tóta Turn, þá voru oft eldri menn að spila þar og ég fann oft til með þeim, þrátt fyrir að þekkja þá ekki neitt og vita ekkert um þá. Mér fannst samt alltaf eins og þeir hlytu að eiga eitthvað erfitt, og hvað veit maður, kannski voru þeir spilafíklar, en kannski voru þeir líka bara að eyða klinkinu sínu eins og maður gerði oft sjálfur.

Ég heyrði það líka í fréttunum um daginn að það eru ekki bara spilakassar og fjárhættuspil á netinu sem er varasamt, heldur líka Happaþrennurnar!!!
Ég gat nú ekki annað en brosað þegar ég heyrði þetta hún amma Bogga var eflaust Happaþrennufíkill...en bara á lágu stigi. Oft þegar ég kom á Skúlagötuna til afa og ömmu þá lét amma mig hafa pening og bað mig að skjótast út í sjoppu og kaupa Happaþrennur, og oft fyrir kannski 1000 kall (sem þótti mikið meira í þá daga en núna!!). Mér fannst þetta oft alger vitleysa en mér fannst samt alltaf mjög gaman að skafa, þetta er spennandi því er ekki að neita.

En svo var Gréta svolítið mikið hjá mömmu í haust og þær voru í íbúðinni sem pabbi býr í í Garðabæ og fóru oft á Garðatorg. Þá var mamma af og til að gefa Grétu 100 kall og Gréta fór með hann í Happaþrennusjálfsalann og keypti sér Happaþrennur. Það var svo eins og spólað hefði verið til baka um 17 ár...og ég og amma MÍN værum í búðinni!!!!!!!!!!! Bara skondið!!
En við mæðgurnar erum ekki orðnar háðar Happaþrennum, ég hef leyft Grétu að kaupa þetta 2x eftir þetta og svo hefur hún ekki beðið um þetta aftur.

Svo við erum alla vega ekki haldnar spilafíkn....

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Hvað hefur mótað mig??

Eftir svolítið vesen á mér er ég loks búin að taka endanlega ákvörðun um valfagið þessa önnina :)Þar sem vettvangstengda valið og lokaverkefnið okkar fjallar um ólíka menningu og bakgrunn ákvað ég að skella mér í fagið Börn, trúarbrögð og siðfræði.

Það var virkilega áhugavert að vera í skólanum í dag, við fengum "úthlutað" leikskóla til að vinna þróunarverkefnið okkar, sem og leiðsagnarkennara og æfingakennara. Við hittum leiðsagnarkennarann okkar í dag og erum bara himinánægðar með hana, hress og áköf og til í þetta með okkur af fullum krafti, fylltumst bara eldmóði og hlökkum til að byrja á fullu :)

Fór svo í tíma í Börn, trúarbrögð og siðfræði og þar var mjög skemmtileg umræða, fámennur en fjölbreyttur hópur og meðal annar var glæru skellt upp sem innihélt eftirfarandi punkta og mátti maður nefna hvaða punktar helst eða hvernig þessi atriði hafa mótað mann á einhvern hátt. Þessi þættir hafa allir áhrif á það hvað og hver ég er:
  • Fjölskyldustærð/gerð/saga - Já það mótaði mig að vera fyrsta barn pabba míns og vera fyrsta stelpan í fjölskyldunni. Einnig að hafa alist upp í sveitinni hjá ömmu og afa fyrstu 5 ár ævinnar. Og að eiga tvö bræður!!
  • Þjóðerni - pottþétt mótar það mann að vera íslendingur og ég er ákaflega stolt af því að vera það.
  • Landfræðileg staðsetning - Það að alast upp á þremur mismunandi stöðum á Íslandi (Í Flóanum, Hvanneyri og Vestmannaeyjum) og fara svo um og upp úr tvítugt frá 5000 manna eyjunni minni Heimaey til Cremona sem er 100.000 manna bær á Ítalíu (en á Ítalíu búa tæplega 60 milljónir manna!!) hefur svo sannarlega áhrif á það hvað og hver ég er í dag!!! Það olli því meðal annars að ég settist ekki að í Eyjum heldur flutti til Reykjavíkur, komst að því þarna að Vestmannaeyjar eru því miður ekki nafli alheimsins...en það er Reykjavík svo sem ekki heldur :)
  • Etnískur hópur - ég tel mig aldrei með etnískum hópi, ég segi aldrei að ég sé kristin íslendingur, þá helst að ég segi að ég sé einstæð móðir í námi??
  • Trúarbrögð-ég er skírð af því amma mín, Svana í Halakoti, var trúuð kona og það var hún sem kenndi mér fyrstu bænirnar og fyrstu versin og þegar hún var orðin mikið veik bað hún pabba um að leyfa presti að koma og blessa okkur. Pabbi gat ekki annað svo ég var að verða 5 ára þegar ég var skírð, allt ömmu að þakka. Ég fermdist reyndar bara til að "klára" það sem amma hafði byrjað á. Og svo skemmtilega vildi til að ég fermdist á afmælisdaginn hennar (en hún var þá dáin) og í fermingargjöf fékk ég úr sem hún hafði fengið í afmælisgjöf!! Ég fór í sunnudagaskólann þegar ég var lítil og endurtók leikinn með dóttur minni, svo það hefur einnig mótað mig að einhverju leyti.
  • Fötlun/sjúkdómar/heilbrigði-Það að vera heilbrigður og allir mínir nánustu gerir mig auðmjúka og um leið skammast ég mín fyrir að taka það sem sjálfsögðum hlut. Önnur amma mín dó úr krabbameini, hin úr astma og mamma fékk krabbamein en slapp sem betur fer nokkuð vel. Maður gleymir oft að þakka fyrir það en þegar maður heyrir af veikindum og erfiðleikum sér maður hvað maður á í raun gott og þakkar fyrir það.
  • Stærð samfélags- mótar mann pottþétt, á Hvanneyri sem og í Vestmannaeyjum er umhverfið frekar verndað og allir þekkja alla og mikil nánd er í samfélaginu. Stundum er það gott en stundum er það óþægilegt.
  • Félags-og efnahagsleg staða-mótar mann einnig. Það er munur á því að alast upp sem ríkur eða fátækur og oft held ég að maður meti hlutina betur ef maður hefur ekki verið vaðandi í peningum.
  • Kyn-Já....kyn hefur mótandi áhrif og ég er enn að mótast, konur eru í sífelldri baráttu um kjör og jafnrétti...
  • Annað? Öll sú reynsla sem maður upplifir og allt sem maður gerir hefur mótandi áhrif á mann, þeir vinnustaðir sem maður starfar á, það fólk sem maður kynnist, að eignast barn, að skilja, að ferðast og bara allt annað sem maður tekur sér fyrir hendur!!

Þessar pælingar og þessa þætti er eflaust gaman að skoða af og til, að sjá hvaða áhrif gömul reynsla og ný hefur áhrif á mann og hvernig maður nýtir sér það sem manni er gefið og þess sem maður aflar sér!!!

Endilega prófiði!!!!!

mánudagur, janúar 15, 2007

Lokaönnin :)

Góðir hálsar...á morgun hefst áttunda misserið mitt í Kennó en það er jafnframt það SÍÐASTA!!!
Nú er að sjá fyrir endann á þessu 4ra ára námi :)

Við ætlum að vera 3 saman í lokaverkefninu og erum komnar þokkalega af stað og í gær hittumst við hér og gerðum áætlun og þess háttar fyrir fundinn með leiðsögukennaranum okkar....erum alveg að brainstorma!!
Það var afar áhugavert og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni!! Enda er þetta efni sem við höfum valið okkur sjálfar og við erum orðnar vanar að vinna saman og erum með eindæmum skemmtilegar svo það er bara gaman framundan :) mikið Pepsi Max og nammi....hehehe
Þessi önn verður eflaust sú skemmtilegasta þar sem þetta eru allt fög sem við höfum valið að taka eða megum hafa frjálsar hendur í....það er það sem er best!!!

Ég lít til baka og núna finnst mér þetta ekkert hafa verið svo langur tími, en það er meira en að segja það að vera í 100% vinnu (og deildarstjórastöðu sl.ár), 75% námi og einstæð móðir!!
Ein sagði við mig um daginn að hún væri bara hissa á hvað ég væri!!
Jú jú, ég hef átt mínar góðu og slæmu stundir, reyndar aldrei eins slæmar eins og sl.önn en nú er þessu að ljúka og ég hef tekið gleði mína á ný og fundið aftur námsgleðina :) kem tvíefld til baka núna og tek þetta með trompi!!!!!!!!
Ég kíkti yfir ferilinn minn áðan þegar ég var að skipta um valfag og hef ekki yfir neinu að kvarta, hef bara staðið mig með sóma og er bara stolt af þessum árangri!!

Svo ég hlakka bara til þessarar innilotu....enda sú næstsíðasta :)

laugardagur, janúar 13, 2007

1.apríl???????????

Jii...hélt ég hefði sofnað og vaknað aftur 1.apríl þegar ég heyrði í Íslandi í bítið að David Beckham hefði gert samning við Los Angeles Galaxy.....þokkalega er eldmóðurinn horfinn og peningar spila mun stærra hlutverk...reyndar eru íþróttir að hætta að vera spennandi þar sem upphæðirnar eru orðnar svo klikkaðar og allir að spila fyrir pening en ekki ánægjunnar vegna.
Er ekki orðið skondið að Tom Cruise sé farinn að ráðleggja fótboltaköppum hvar þeir eiga að spila?? Hvað er að verða um fótboltann segi ég nú bara??? Og það sem meira er...hvað segja Diddinn og Baddinn við þessum fréttum????????????? HAHAHAHAHHA!!!!

En það er víst ekki 1.apríl, heldur 13.janúar...og snjór yfir öllu....mér finnst samt alltaf jafn fyndið að hlusta á fréttirnar þegar verið er að segja frá þungri færð í Reykjavík...fólk sé bara 1-1 1/2 tíma að komast frá Hafnarfirði til Reykjavíkur...og hvað með það?? Fólk sem býr í sveit úti á landi og á fjörðunum kemst oft ekki spönn frá rassi allan veturinn og við hér í hraðanum og æsingnum að tapa okkur yfir að komast ekki frá stað A að stað B á innan við klukkutíma!!! Og sumir eru svoooo mikið að flýta sér að þeir setjast bara inn í bílinn sinn sem er á kafi í snjó, setja rúðuþurrkurnar á og keyra af stað....það er ekkert verið að hafa fyrir því að skafa hliðarrúðurnar, afturrúðurnar og hvað þá alveg af framrúðunni...neibb, bara drífa sig inn í bíl og drífa sig af stað....er alveg hissa á að nafnið DRÍFA sé ekki vinsælasta barnanafnið miðað við hvað íslendingar eru að alltaf að drífa sig!!!!!!!!!

Ég ætti allavega að fá skafara-viðurkenninguna....ég er svakalegur skafari og fer ekki af stað fyrr en ég er búin að skafa af ÖLLUM bílnum (enda búin að koma of seint í vinnuna alla vikuna!!!)...var einu sinni stoppuð af löggunni í eyjum af því að vinkonur mínar, sem voru vel í því, skófu af bílnum eina nóttina svo ég gæti keyrt þær heim og þær gleymdu að skafa af númeraplötunni og löggan hafði ekkert þarfara að gera þessa nóttina en elta mig og benda mér á það :)
Nei nei...mér finnst afar óþægilegt að skafa ekki af öllum bílnum og fá kannski bara snjóskriðu af þakinu yfir framrúðuna!!!
Annars finnst mér gott og gaman að hafa snjóinn og allt það EN ég þoli ekki að keyra í þessari færð, ég er enginn snjóaksturssnillingur og finnst óþægilegt að hafa ekki 100% stjórn á bílnum....eins og ég vil hafa á öllu í mínu lífi!!!!

Jæja...HM í handbolta að byrja eftir viku....hlakka geggjað til....en meira um það síðar...alveg í sérbloggi sko...

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Rúm og rúðuþurrkur :)

Það er sumt sem maður er laginn við og annað sem maður er ekki laginn við eins og maður hefur mikið vit á sumu og ekki hundsvit á öðru.

Ég keypti mér nýtt rúm í fyrradag og það kom hingað í gær og er alveg hreint geggjað gott!!
Ég er alveg handlagin, og skrúfaði gamla rúmið sjálf í sundur og setti nýja rúmið saman alveg ein og sér og er bara stolt af mér fyrir það.

Hitt er annað mál að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum voru orðnar frekar lélegar, eiginlega bara ónýtar og í gær sá ég varla út svo ég brá mér á bensínstöð og ég verð að segja það að ég hreinlega elska þessa eldri menn sem vinna á bensínstöðvunum og hreinlega redda málunum!!
Þarna stóð ég og skoðaði rúðuþurrkurnar og vissi ekkert í minn haus þegar einn vinalegur kall kom og bjargaði mér...svo nú sé ég ótrúlega vel út..og sem betur fer í allri snjókomunni í dag!!!!

En þar sem ég stóð á bensínstöðinni varð mér hugsað til þess þegar ég fór með Birgittu vinkonu (sem ég kalla oft handlaginn heimilisföður þar sem hún Á borvél og kann á hana) í sumarbústað og við stoppuðum í Borgarnesi og hún steig út úr bílnum og reif upp húddið og ég galaði á hana hvort það væri ekki allt í lagi og hún svaraði að það væri allt í lagi en hún væri bara að gera dálítið sem ég myndi aldrei gera, setja rúðupiss á bílinn!!!!!!!!!

Ó já...ég er sko týpan sem fer alltaf þjónustumegin á bensínstöðvar og ætla ekki að hætta því!!!!

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Vetrarloftið

Mikið var gott að komast aðeins í útiveru í gær eftir að hafa legið inni í leti og ómennsku nánast öll jólin!! Það var svo gott að fara í kuldagallann, ullarsokkana, kuldaskóna, húfuna, trefilinn og vettlingana og skella sér út í ferska og hreina íslenska loftið. Það einhvern veginn hreinsaði af mér fýluna og letina og gerði mér bara gott, lognið og birtan...bara endurnærandi.
Þannig að þegar ég kom heim gekk ég frá því litla jólaksrauti sem ég hafði sett upp, tók svo helminginn af heimilinu mínu í gegn...enda kominn tími á að gera eitthvað róttækt hér...huhumm...og raðaði jólakortamyndunum í albúm!!
Tók mig líka til og breytti og bætti í stofunni og holinu og gerði svo enn betur í dag þegar ég fór og keypti mér rúm!!!!!! Hlakka ekkert smá til að fara að sofa annað kvöld....Mmmmmm.....en í gær fór ég upp í um 23.30 sem telst bara nokkuð snemmt hjá mér....og ég ætlaði bara aðeins að lesa...en það var svolítið meira en aðeins þar sem klukkan var 01.17 þegar ég leit næst á klukkuna!!!!!

Fór í foreldraviðtal í skólanum hjá Grétu í morgun, það tók u.þ.b. 5 mínútur þar sem dóttir mín er fyrirmyndarnemandi, fluglæs og gengur svona líka vel í stærðfræði...hefur það frá mömmu sinni og Óla frænda án nokkurs vafa...híhíhí

Fórum svo með Óla á mörgæsar-teiknimyndina Fráir fætur og þvílík snilld....þetta er alveg hreint frábær mynd, ekki óvipuð mörgæsarmyndinni Ferðalag keisaramörgæsanna...mæli hiklaust með þeim báðum.
Skelltum okkur svo á Subway á heimleiðinni og þegar heim var komið var gamla rúmið skrúfað í sundur og allt gert tilbúið fyrir nýja rúmið!!!!

Jæja..ætla að fara að skríða á gömlu lúnu dýnuna í síðasta skipti....og kíkja aðeins í bók!!!!

föstudagur, janúar 05, 2007

Vestmannaeyjar enn og aftur

Jæja...til marks um jákvæðni mína og nýjungar sem nýja árið ber í skauti sér ætla ég barasta að segja ykkur það að ég er að fara með Herjólfi á eftir og kem aftur heim á sunnudaginn. Semsagt 7 janúar 2007 verð ég búin að fara 3x með Herjólfi á nýja árinu!!!!!
Þetta kalla ég að vera jákvæð og taka á málunum!!!

Er búin að undirbúa ferðina vel og eyða svona 7 klst síðan ég kom heim frá eyjum í að "importa" geisladiska í i-tunes og hlaða því inn á i-podinn sem ég fékk í jólagjöf...hlakka bara svolítið til að fara í koju (jamm....fékk koju..jibbý) og hlusta á i-podinn minn!!!

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Nú árið er liðið...

...í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.

Svona hljóðar textinn og mamma fer alltaf að gráta þegar þetta hljómar í sjónvarpinu og árið hverfur af skjánum og nýtt ár birtist. Ég ætla ekkert að gera grín að henni mömmu fyrir það að gráta því ég hef oftar en ekki gert það sjálf. EN svo undarlega vill til að ég gerði það ekki núna, held að það hafi verið vegna þess að ég var frekar fegin að það væri liðið...seinni hluti ársins var viðburðarríkur og mikið um að vera hjá mér og ég er reynslunni ríkari og gerði margt sem ég hef aldrei gert áður. Sumt vil ég aldrei gera aftur, sumt vildi ég geta tekið til baka, sumt vildi ég hafa gert öðruvísi og enn annað væri ég til í að endurtaka á hverjum degi. Andlega hliðin var samt meira niður á við þrátt fyrir viðburðarríkan seinni hluta árs og spilar þar inn andleg þreyta, námsleiði, einmanaleiki, óvissa og alltof mikið að neikvæðum hugsunum.
Ég hef einhvern veginn haft allt á hornum mér að ástæðulausu og verið frekar neikvæð og áttaði mig enn betur á því þegar ég var búin í prófunum og komin í jólafrí og hafði meira en nægan tíma til að hugsa. Og ég er búin að næra hugann með lestri frábærra bóka og samtölum við yndislegt fólk, og þegar maður á vinkonur sem maður getur hringt í seint að nóttu eða eldsnemma að morgni og losað um á maður bara nokkuð gott. Og ég er að átta mig á þessu öllu saman.

Fyrir mörgum árum, þegar ég var nýkomin heim frá Ítalíu og allt var breytt, vinkonur mínar komnar með kærasta, farnar að búa og eignast börn og ég bara allslaus að koma heim varð ég líka svolítið ringluð. Þá átti ég gott samtal við frænda minn sem sagði mér að þegar manni finnst allt vera að hrynja og allt vera öðruvísi en það var þá er það bara merki um þroska. Því vona ég að árið 2007 geri mér kleift að losa mig við þessa neikvæðu strauma, finna jákvæðnina og jafnvægið í lífinu. Að halda áfram að þroskast.
Og ég hef svo sannarlega margt að hlakka til , lokaverkefni á næsta leiti, útskrift í júní, ferming í fjölskyldunni, brúðkaup í vinahópnum og margt margt annað.
Það sem ég óska mér helst er að ég, Gréta og okkar nánasta fólk haldi heilsu og lukkan leiki áfram við okkur. Við höfum fyrir svo margt að þakka, við erum heilsuhraustar, eigum hvor aðra og marga marga aðra að, húsaskjól, mat, vinnu, bíl og svona mætti lengi telja svo ég fæ samviskubit yfir því að hafa verið í eymd og volæði án þess að nokkuð ami að mér og mínum.

Svo árið 2007 er árið sem ég ríf mig aftur upp og tek mig á, á líkama og sál.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Hvar voru jólin haldin??

GLEÐILEGT ÁR ÖLLSÖMUL OG TAKK FYRIR SKEMMTILEG OG GÓÐ KOMMENT Á ÁRINU 2006.

Jæja...við mæðgur létum bræður mína ráða ferðinni og Herjólfur var það í veltingi og skemmtilegheitum á Þorláksmessu. Við skelltum í okkur sjóveikistöflu 30 mín. fyrir brottför og ég lá á gólfinu í barna-videó-horninu en Diddi var með Grétu í fanginu í sjónvarpssalnum....ekki dugði sjóveikistaflan alveg fyrir hana þar sem hún gubbaði 2x, en bara lítið.
ENNNNN...þetta var allt þess virði þar sem við gátum eytt jólunum ÖLL saman....gaman gaman.

Við erum búnar að hafa það svoooo gott, eiginlega alltof gott. Búnar að lesa mikið, horfa á tv og dvd, borða góðan mat, spila, sofa og hitta vini og ættingja á eyjunni fögru.

Ég kom svo heim í dag en Gréta fær aðeins lengra frí þar sem við ætlum að vera á þrettándanum...jamm... Herjólfur er það aftur á föstudaginn og svo enn aftur á sunnudaginn!!! Játs maður er ekki í lagi :(

Jæja elskurnar...vona að þið hafið það gott og nýja árið verði ykkur farsælt og gott!!!