fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Dúllumúsin mín




Var aðeins að leita í tölvunni og fann þá myndir af Grétu frá 2002-2003....jidúdda mía hvað mér finnst eitthvað langt síðan hún var svona lítil!!!
Ætla að deila með ykkur þessum þremur myndum sem voru og eru auðvitað enn meðal uppáhaldsmyndanna minn af dúllumúsinni minni!!
Hún er náttúrulega flottust og bestust þessi elska og ég þakka þeim sem öllu ræður að við skulum vera mæðgur. Hún er svo dugleg og klár og fyndin og frábær og ég elska hana endalaust mikið.

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Fjölskyldufótboltaæfing

Í dag var fjölskyldufótboltaæfing hjá Grétu og hennar flokki. Þá (m)áttu foreldrar, systkini og/eða vinir koma með á fótboltaæfinguna og Gréta bauð Ástu vinkonu sinni að koma með.
Við fórum því þrjár saman og það var ansi fjölmennt á æfingunni, mikið gaman og mikill spenningur hjá stelpunum.
Við byrjuðum á Stórfiskaleik og svo var svona keðjuleikur, bara svona eins og þegar ég var í leikfimi hér í denn!!
Nú svo var bara skipt í 3 lið og við Gréta lentum saman í liði :) og svo var bara spilað. Þvílík stemmning og svaka stuð....sérstaklega hjá fullorðna fólkinu heheheheehe...nokkuð um glæsileg tilþrif og sumir tóku þetta alvarlegar en aðrir!!!
Nokkrar stelpur fóru grátandi af velli en enginn slasaðist alvarlega ;)
Efir æfinguna var gantast með hvort ekki væri hægt að fá salinn eftir æfingu stelpnanna svo við foreldrarnir gætum æft og spilað...hehehe...það væri nú sjón að sjá!!!

Þetta var gasalega gaman og ég öfunda Grétu að eiga þetta allt eftir...ef hún endist eitthvað í boltanum...hún er pínu eins og mamma sín...ekki alveg nógu frek og ákveðin...en það kemur kannski...og vonandi bara á vellinum...hehehheehe

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Allt að verða vitlaust...

...nóg að gera og nóg um að vera!!

Starfsmannafundur á morgun, afmæli eftir það, námskeið á föstudag, Akureyri eftir það!!!

Heiða "sys" er þrítug í dag...til hamingju með það elskan mín :=0
Við Óli bróðir ætlum að fagna þessum áfanga með henni fyrir norðan!!
Ekki leiðinlegt að skreppa norður og þiggja góðar veitingar að hætti HB...ó nei. Ætlum líka að skella okkur út að borða, kíkja á Helga frænda og tékka á menningunni fyrir norðan meðal annars með því að bregða okkur í leikhús á Fló á skinni...ji hvað ég hlakka til, við Óli höfum þokkalega ekki verið að standa okkur í leikhúsferðum þennan veturinn...iss piss.

Annars er ég á fullu að læra ítölskuna, próf á þriðjudaginn..ú la la auk þess sem ég er að setja saman texta, gera glærur og fá kvíðakast yfir því að þurfa að tala á málþinginu sem við i leikskólanum erum að standa fyrir á föstudaginn næsta, þann 29.febrúar....en meira um það seinna!!

Ciao!!

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Á heilann

Úffff...ég er svo svakaleg þegar ég fæ eitthvað á heilann....sérstaklega tónlist...þá spila ég lagið bara aftur og aftur og aftur....fyrir tveimur árum keyrðum við á Ísafjörð og þá var bara einn geisladiskur með í för og það var diskur með lögum Vilhjálms Vilhjálmssonar í flutningi ýmissa listamanna. Mér fellur sá diskur ekki sérlega vel í geð, kýs frekar að hlusta á Vilhjálm flytja lögin sín.
En...það var eitt lag sem mér féll sérlega vel í geð í flutningi Stefáns Hilmarssonar og lagið er Það er svo skrýtið og ég hef verið með þetta lag á heilanum svona af og til. Ég keypti mér því 3ja diska safnið hans Vilhjálms um daginn og hef hlustað á þetta lag aftur og aftur og aftur og þess vegna var nú textinn við lagið hér á blogginu mínu um daginn ;)

Nú...svo um daginn heyrði ég lagið sem Einar Ágúst syngur og er geisivinsælt þessa dagana og heyrist mjög oft á Bylgjunni um kl. 6:49 á morgnana (veit ekki alveg hver íslenski titillinn er..held það sé Er ást er annars vegar....enski titillinn er alla vega Right next to the right one) og einn morguninn var ég á leið í vinnuna þegar lagið hljómar og mér finnst þetta svo fallegt lag og hafði aldrei heyrt það áður og fer að velta því fyrir mér hvort hann hafi samið lag og texta sjálfur. En konan í útvarpinu virtist lesa hugsanir mínar því hún var svo indæl að segja frá því þegar laginu lauk að Einar Ágúst færi vel með íslenska útgáfu af þessu danska lagi. DÖHHHH

Nú, á kaffistofunni minni eru margir sérfræðingar og google og youtube koma okkur oftar en ekki til bjargar á ögurstundu því þar vangaveltur voru uppi um hver væri danski flytjandinn og hvert var heiti dönsku þáttanna þar sem þetta lag hljómaði svo oft!!!!
Ég var eins og kjáni, þar sem ég hlusta nú töluvert á útvarp en hafði aldrei, hvorki fyrr né síðar heyrt þetta lag, og meira að segja hefur Celine Dion flutt það!!!!!!!!!!!!!!!

En alla vega....þetta lag á hug minn og hjarta þessa dagana og ég mæli með því að þið farið á youtube og hlustið á það í flutningi TIM CHRISTENSEN á tónleikum og njótið í botn....aftur og aftur og aftur!!!!!!

Var að reyna að setja myndbandið inn en gafst upp......
hér er slóðin....http://youtube.com/watch?v=daEmhWe0euA og lagið er úr dönsku þáttunum Nikolaj og Julia....fyrir þá sem eru að kafna úr forvitni...muahhhhhhhhhhh
Góðar stundir!!!!!!!!!!!!!!!

Flugdrekahlauparinn-bókin & myndin


Flugdrekahlauparinn. Ég las þessa bók fyrir 2 árum á Mallorca. Ég hafði mikið heyrt um hana og allir sögðu að ég yrði að lesa hana. Svo ég gerði það og sé sko ekki eftir því. Þarna lá ég á sólbekknum við sundlaugarbakkann og táraðist, dæsti, stundi og pirraðist í gríð og erg og mamma og Óli vissu ekki hvaðan á þau stóðu veðrið, og voru alltaf að spyrja af hverju ég léti svona. Nokkrum dögum eftir að ég kláraði hana mátti heyra Óla stynja, dæsa og pirrast yfir bókinni ;)
Mér fannst bókin ótrúlega vel skrifuð og ekki oft sem maður les bækur sem fjalla um vináttu tveggja drengja, átakanlega saga sem fer með mann allan tilfinningaskalann.
Fyrir jólin kom út önnur bók eftir sama höfund, Þúsund bjartar sólir, og í auglýsingunum var sagt að hún væri betri en Flugdrekahlauparinn. Þar er ég gjörsamlega ósammála og kannski vegna þess að hún fjallar um tvær konur og hversu illa maðurinn þeirra fer með þær, átakanlega saga, því er ekki að neita, en þetta er saga sem maður hefur heyrt svo oft áður ólíkt sögunni um drengina tvo.
En nú er búið að gera mynd um Flugdrekahlauparann og ég fór að sjá hana í fyrradag.
Bókin er auðvitað betri og vissulega var ég búin að ímynda mér sumt öðruvísi, en ég var samt sátt við myndina. Allmörg tár féllu og í lokin var maður rauðeygður og búinn að sjúga ansi mikið upp í nefið.
Mæli hiklaust með myndinni, sérstaklega ef maður er búinn að lesa bókina!!

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Vetrarfrí

Gréta er í vetrarfríi í dag og á morgun og þetta er í fjórða sinn sem hún er í vetrarfríi frá því hún byrjaði í skóla. Ég er hlynnt því að börnin fái smá hvíld frá skólanum EN mér finnst að það þurfi að vera betur úthugsað til að börnin fái það frí sem er verið að veita þeim og geti verið með sínum nánustu.
Gréta hefur alltaf þurft að vakna og fara með mér í vinnuna og vissulega er ég heppin að því leyti að það er ekkert vandamál fyrir mig að fá að hafa hana með mér þar og henni þykir það gaman. Það eru hins vegar ekki allir í þeirri stöðu og þetta er ekki heldur frí fyrir hana. Það er ekki heldur frí að þurfa að vekja hana og koma henni í pössun.
Mér hefur alltaf þótt fúlt að leyfa henni ekki að njóta þess að vera í fríi og geta ekki verið með henni en í dag ákvað ég að taka mér frí í vinnunni og leyfa henni að njóta þess að vera í fríi og vera með mér.
Við höfðum það mjög notalegt og skemmtilegt, sváfum til kl.10, fengum okkur te og beyglu í morgunmat og skriðum svo upp í sófa að horfa á Bólu. Gréta mín naut þess svakalega að kúra með múttu og þegar við vorum hálfnaðar með spóluna tók hún utan um mig og sagðist elska svona daga!!!!!!!
Ég ákvað að gera bara það sem hún vildi og það sem henni þætti skemmtilegt í dag, og skipulagði smá óvissuferð fyrir okkur. Við fórum fyrst í Perluna því okkur hefur lengi langað á Sögusafnið þar og skelltum okkur því þangað, en fórum hratt í gegn því Gréta varð skíthrædd á fyrsta stoppi svo við kíktum þá bara aðeins á stóra skómarkaðinn og Gréta fékk að velja milli skópars og bakpoka og valdi bakpokann að lokum...bleikan og fínan!!!
Nú síðan lá leiðin í keilu og hún var himinlifandi með það. Við tókum einn leik í keilu og tvo í þythokkí og skemmtum okkur konunglega. Hún fékk síðan þrjár tilraunir til að veiða sér bangsa en þær mistókust allar. Þaðan lá svo leiðin í Hafnarfjörð þar sem við kíktum á Didda bróður og nýja vinnustaðinn hans.
Gréta fór svo til pabba síns og fór með honum á Selfoss þar sem hún ætlar að vera hjá honum og Birnu í nótt og njóta þess að vera með pabba sínum í vetrarfríi á morgun :)
Ég gleðst yfir því að hún fái loks almennilegt vetrarfrí og mér finnst hreinlega að það eigi bara að vera í lögum að maður fái vetrarfrí með börnunum sínum, allavega þar til þau eru orðin nógu stór til að vera ein heima...og þó...þá þarfnast þau manns kannski enn meira???????

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Æla spæla

OOOOHHHHHHH hvað það er ógeðslegt að vera með ælupest.............

Gréta var með ælupest fyrir hálfum mánuði og ældi á 40 mín fresti allan daginn, greyið skinnið, ég vorkenndi henni ekkert smá. Hún vildi ekkert borða þrátt fyrir að ég væri alltaf að atast í henni og bjóða henni ristað brauð með engri skorpu, hún neitaði alltaf en ég jagaðist í henni allan liðlangan daginn (ætli hún hafi ekki bara gubbað út af mér???...muahhhh).
Hún var dugleg að drekka kók og vatn og bláan Poweraid, en fyrir ykkur sem ekki vita það þá er það algjör töfralausn við magakveisu og gubbupest.

Í gær var svo Bolludagur og ég fékk mér að sjálfsögðu (bakarís)bollu í kaffinu í vinnunni. Eftir vinnu fór ég heim og við Gréta skelltum okkur í Leikbæ til að klára að kaupa grímubúning og þegar við vorum komnar þangað varð mér skyndilega svona heiftarlega illt í maganum. Ég byrjaði að hitna og svitna og leið nú ekki betur þegar ég áttaði mig á því að ég varð líka að fara í Hagkaup. Nú við brunuðum svo heim og ég fór beint upp í sófa með þessar líka skruðningar í maganum en Gréta fór upp til ömmu og afa að undirbúa bolluveislu.
Ég fékk síðan þessa frábæru gubbupest og ældi eins og múkki og var því heima í dag :(
mikið óskaplega sem mér leiðist þetta og segi bara eins og Gréta: ég vildi að ég væri öðruvísi veik, ég þoli ekki að gubba.

En ég þakka um leið fyrir að þetta gengur fljótt yfir og er ekki alvarlegt.

Annars átti Gréta mín besta momentið í gær. Ég rauk inn á bað til að gubba og þessi elska kom á eftir mér og spurði hvort ég væri að gubba og þegar hún sá það klappaði hún mér á bakið og strauk mér. Svo þegar ég var búin, leit hún á mig og sagði með kaldhæðni í röddinni: viltu ekki fá þér eitthvað að borða?
Ég leit illilega á hana og sagði nei, og þá sagði hún: Nei einmitt, nú veistu að maður vill ekki fá neitt að borða þegar maður er með gubbupest!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Oh hvað ég skal muna það næst elskan að tuða ekki í þér í miðri gubbupest að fá þér ristað brauð með engri skorpu!!!!!!!!!!