föstudagur, október 28, 2005

Ánægð með mig :)

Svona eru hlutirnir nú stundum lengi að velkjast um í hausnum á manni áður en þeir verða að veruleika.....en þannig er mál með vexti að í bloggi mínu þann 10. apríl 2005 var ég að skrifa um gamla fólkið og um það að þegar ég var yngri ætlaði ég að vinna við það að heimsækja gamalt og einmana fólk þegar ég yrði eldri. Síðan vissi ég ekkert að þessi þjónusta væri í boði en rakst svo á auglýsingu frá Rauða Krossinum um sjálfboðaliða sem gera einmitt þetta (ásamt mörgu öðru og þörfu hjálparstarfi).

Ég átti sem sagt alltaf bara eftir að láta verða af því að skrá mig.....og fyrir nokkru síðan fór ég með Didda bróður og Bjarna í bíó og sá þá auglýsingu frá Rauða Krossinum og fór að tala um þetta við Didda. Nokkrum dögum síðar kom heyrði ég svo í honum og hann spyr hvort ég sé búin að skrá mig og ég neita því en þá hafði hann sko skráð sig, sagði að ég hefði opnað augu hans með þessu tali mínu og nú væri lag!!!
Ég gat ekki verið minni manneskja, þetta var nú eldgömul hugmynd frá mér....gamall draumur næstum því, svo nú er ég búin að skrá mig og bíð eftir að fá frekari upplýsingar. Veit að það er námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða 8.nóvember og vonast til að komast á það bara.......hvet ykkur til að skoða vef Rauða Krossins og skora á ykkur og ykkar að láta gott af ykkur leiða með einum eða öðrum hætti...þá líður manni svo vel í hjartanu og sálinni :)

fimmtudagur, október 27, 2005

Veðurfréttir

Brrrrrrr......það er nú orðið frekar kalt úti núna... og eru þeir ekki að spá kaldasta og harðasta vetri í Evrópu í fleiri fleiri ár??

Veðurfréttirnar eru sérstakt fyrirbæri í íslenskum fjölmiðlum finnst mér....sjá þetta á æsifréttastöðinni Stöð 2....veðurfréttir eru þrískiptar....fyrst kemur Siggi Stormur og segir brandara um veðrið og gerir þetta eitthvað voða spennandi...svo koma Fréttir...og svo aftur veðurfréttir og svo fréttayfirlit og svo Veðurfréttayfirlit.....eins og maður sé eitthvað tregur.......auk þess sem minnst er á veðrið og klukkuna nánast á milli allra laga í útvarpinu!!!
Þrátt fyrir þetta virðist þetta ekki skila sér til fólksins því oftar en ekki þegar spáir brjáluðu veðri þarf að leita að einhverjum vélsleðavitleysing sem fór af stað, illa búinn og grunlaus um veðrið sem var búið að spá!!!!

Ekki er nýja veðurfréttakortið á RUV neitt skárra....úff...hvað er þetta....allt orðið svo tæknilegt og svo kunna veðurfréttaþulirnir ekkert á þetta og þvælast bara fyrir kortinu eins og áttavilltar hænur......ja hérna hér.....best að sleppa því bara að horfa á þetta og fylgast bara með á vedur.is eða textavarpinu!!!!!

En talandi um vetur og kulda þá er bara eins gott að fara að koma nöglunum undir Yarisinn, kaupa nýja sköfu með skafti og kústi og allt það. Það festist svo svakalega frostið á rúðunni á Yarisnum...þarf að prófa svona sprey sem lætur þetta bráðna fyrr....eða hvað...kannast einhver við það???
Og eini gallinn við Yarisinn á veturna er að það frís svo svakalega úðan að innan...samt virðist hann ekki óþéttur.....en hann er fljótur að hitna þessi elska og það er nú kostur!!

mánudagur, október 24, 2005

Vinahelgin

Ó já....síðasta helgi var alveg hreint frábær...Gréta fór með Didda bróður og Bjarna frænda til Eyja með fyrri ferðinni á föstudaginn því leikskólinn hennar var lokaður og ég var í innilotu í skólanum...við pabbi fórum svo með seinni ferðinni.

Elfa og Þóra úr gamla vinahópnum mínum, Eljaraglettum, voru búnar að skipuleggja vinahelgi í Eyjum og var það nokkuð stíft prógramm og bara gaman. Við hittumst með börnin í sundi kl 13.30...þ.e.a.s þær sem voru ekki heima að þrífa eftir eiginmennina (ha Arnar..tékka á tappanum drykkjarjógúrti ÁÐUR en maður hristir það) og áttum þar góðar stundir í sundi og heita pottinum.

Síðan var rúllað í bakarí og hungrið seðjað....þaðan var svo haldið í kirkjugarðinn og lagður haustkrans og engill að leiði elskulegrar vinkonu okkar Kristbjargar.
Eftir það var rúllað heim með börnin en við hin héldum áfram að pottast....skelltum okkur í pottinn á Hótel Þórshamri....sundbolakeppni um ljótasta sundbolinn (sem var fenginn að láni hjá ömmum og frænkum...huhumm) var haldin og við stelpurnar gerðum okkar besta en Finnsi toppaði allt með að mæta í gegnsæjum sundbol og vann auðvitað!!!

Eftir pottinn var brunað heim þar sem allir sjænuðu sig til og svo hittumst við á Fjólunni og borðuðum góðan mat....vel útilátið og bragðgott og þjónustan mjög góð.

Þaðan var svo brunað í partý á Búhamar 11....æskuheimili Elfu Ágústu....rifjuðum upp gamla tíma og spiluðum góða tónlist (Sálin og U2 aðallega) ....stelpurnar fengu hárgreiðslu hjá Þóru snillingi og eftir miðnætti varð Arnar 32 ára gamall....allt að gerast!!!

Um 01.00 var það svo Sálarball í Höllinni.....þótt Sálin sé alltaf best þá var þetta ball það besta í langan tíma....eflaust hefur félagsskapurinn eitthvað með það að gera....maður fór bara aftur um mörg mörg ár....tók í nefið og allt...úbbssss.....hitti gamla skólafélaga og bekkjarsystkin.....það var bara "allt eins og það á að vera" og mikið gaman. Fyndið að þarna voru 3 kynslóðir....allt frá 18 ára unglingum upp í ömmur og afa.....(Ester frænka og Einar....heheheh).

Sálin er náttúrulega bara best....þvílíkur kraftur í þeim og stemmning alltaf.....þeir klikka bara ekki!!

Dóru Hönnu, Sighvatar og Hörpu var reyndar sárt saknað en...þau voru með okkur í anda og við með þeim (sem og síma og e-meilum....heheheh)

Takk fyrir frábæra helgi :)

miðvikudagur, október 19, 2005

Hópefli...

..ótrúlegt hvað það hefur mikil áhrif á mann að vera í hóp af fólki sem er að gera það sama og maður sjálfur!!

Byrjaði í seinni innilotunni í skólanum í morgun....er búin að vera frekar kærulaus og værukær þessa önn, sem er afar ólíkt mér, og hef verið að leita skýringa á hvernig stendur á þessu. Síðasta önn var mjög skemmtileg, nóg að gera, mikið af hópverkefnum og svona og árangurinn góður. Núna hins vegar eru þessi fáu verkefni sem við eigum að gera einstaklingsverkefni og það situr hver og einn heima hjá sér með bækurnar og fyrir framan tölvuna og stússast einn og sér í þessu. Við höfum okkar spjallsvæði en það er ekki eins og að hittast "face to face". Enda glatt á hjalla í morgun...nema hvað að margir eru einmitt í sama gír og ég......kæurlausir og með allt á síðustu stundu....Þannig að mín niðurstaða er sú að þeimur meiri verkefnavinna þeimur betri árangur....það skilur líka miklu miklu meira eftir sig heldur en einhver páfagaukalærdómur rétt fyrir próf....skil ekki af hverju próf eru ekki bara úreld og verkefni látin gilda meira!!!

Eitt annað í sambandi við þetta, lesefnið er líka ekki svo áhugavert.....undarlegt miðað við hvað íslenskt mál og þá sérstaklega ritað mál hefur verið lengi til að mikill meirihluti námsefnisins er á norsku..og ekki hlaupið að því að fá norskar orðabækur er okkur svo sagt??? Eigum við virkilega að trúa því að það séu ekki til nægilega góðar heimildir um t.d. máltöku barna og þróun ritunar og lesturs á íslensku?? Hvar eru okkar fræðimenn? Og hvernig getur fólk alið upp börn og kennt þeim að lesa og tala ef ekki er hægt að nálgast neitt lesefni? Allt í lagi að hafa erlent efni með en kannski ekki í miklum meirihluta....sérstaklega þar sem alltaf er nú verið að tala um að íslenskan eigi undir högg að sækja og íslendingar séu varla talandi orðið...ekki skrýtið þar sem námefni okkar er allt á erlendum tungumálum!!!!
Maður verður sko orðinn altalandi á fræðimanna-norsku eftir 4 ár í leikskólakennaranáminu!!!

Úff.....fer mér ekki vel að vera svona neikvæð...á morgun er það myndmennt...glerja leir, búa til pappírsmassa og fleira....þá léttist nú lundin :)

sunnudagur, október 09, 2005

Kristbjörg mín


Í dag, 9.október 2005 hefði elskuleg vinkona mín, hún Kristbjörg Oddný orðið þrítug. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það séu rúmlega 6 1/2 ár frá því að hún yfirgaf okkur, einungis 23 að aldri. Yndisleg móðir, vinkona, unnusta og dugnaðarforkur í alla staði sem aldrei barmaði sér, ekki einu sinni þegar hún var í mörgum vinnum og var að sjá fyrir fjölskyldu.

Leiðir okkar lágu fyrst saman á róluvellinum sem er rétt heima hjá Ester frænku (og rétt hjá æskuheimili Kristbjargar), eða svo sagði Kristbjörg alltaf og ekki þýddi að þrátta við hana því hún mundi sko allan andsk.... Hún sagði mér það að við hefðum hist þar þegar ég var tiltölulega nýflutt til Vestmannaeyja (þá 10 ára gömul) og að ég hefði spurt hana hvort við ættum að vera vinkonur!!! Þetta þykir mér alltaf svo skemmtileg saga og óska þess alltaf að muna eftir þessum degi.
Ekki urðum við samt vinkonur upp frá þessu en það var greinilegt að frá okkar fyrstu kynnum var okkur ætluð vinátta og seinna lágu leiðir okkar aftur saman og við urðum bestu vinkonur. Við áttum margt sameiginlegt, það átti sko eftir að koma í ljós, við drukkum ekki, vorum ótrúlega samviskusamar og saklausar og með NÚLL álit á okkur sjálfum :), fíluðum Bryan Adams, Sálina, SSSól og marga aðra!!!

Kristbjörg var ótrúlega góð vinkona og við áttum yndislegar stundir saman, en eins og gengur og gerist þegar vinkonur byrja á föstu þá féllum við því miður í þá gryfju að missa svolítið af hvor annarri. Báðar vorum við ósáttar við það og ég er þeim degi fegnust er við ræddum þau mál í eitt skipti fyrir öll. Eftir það vorum við báðar sáttar og sælar og vinskapur okkar betri og fallegri en nokkru sinni fyrr. En það var of skammt eftir.....kallið hennar kom og eftir sátum við og skildum hvorki í þennan heim né annan. Hvernig getur þetta gerst, að ung kona í blóma lífsins ali barn og sé svo tekin frá því, eldri barni sínu, unnusta, fjölskyldu og vinum á svipstundu???
Enn þann dag í dag reynist mér erfitt að sætta mig við þennan endir, og ég spyr í sífellu hvað henni hafi verið ætlað.

Á afmælisdegi Kristbjargar hafa foreldrar mínir alltaf farið með kerti eða blóm fyrir mína hönd að leiði Kristbjargar, og dagurinn í dag var engin undantekning, ein bleik rós. Í dag loguðu líka mörg kerti við myndina af okkur elskan!!!

Ég vil benda ykkur á síðuna http://www.vinir.is/ en það er heimasíða vinahópsins. Þar er myndasýning sem Sighvatur okkar hefur sett saman auk þess sem hægt er að lesa minningargreinar og annað um okkar ástkæru vinkonu.

Minningin um Kristbjörgu lifir í hjörtum okkar að eilífu.

Leikhús. leikhús, leikhús...

...OOhhhh ég hreinlega elska að fara í leikhús...og er bara nokkuð dugleg við það, hvort sem það eru barnasýningar eða fullorðinssýningar!!

Afi minn í Halakoti var í leikfélagi og pabbi minn var oft að leika á sínum yngri árum. Man ég þó sérstaklega eftir Músagildrunni, sem var sett upp þegar við áttum heima á Hvanneyri.
Minn leikhús-áhugi kviknaði svo fyrir alvöru svolitlu eftir að við fluttum til Eyja. Fyrsta leikritið sem ég sá þar og man það eins og það hefði gerst í gær var Oklahoma. Við pabbi fórum og þurftum að sitja á stólum við hliðina á bekkjunum því það var fullt.
Síðan fór Geiri Scheving að plata pabba til að leika og þá fóru hlutirnir að gerast. Ég fékk oft að fara með pabba á æfingar og svo var ég að hlýða honum yfir textann heima og svona. Síðan fór ég að vinna í leikhúsinu, afhenda blóm á frumsýningum, vísa til sætis, vinna í sjoppunni og vinna í miðasölunni og svona....og ég sá oftast allar sýningarnar!!! Ég ætlaði alltaf bara að vera í miðasölunni og fara svo heim en endaði oftast á því að horfa á alla sýninguna!! Svona er ég ennþá, ef ég sé gott leikrit þá væri ég til í að sjá það aftur og aftur!!!

Ég man að mér þótti oft svo óþægilegt að horfa á pabba, var alltaf svo hrædd um að hann myndi gleyma því sem hann átti að segja :)

Ég og Óli bróðir höfum verið leikhúsfélagar í nokkur ár og farið að sjá hin ýmsu stykki....meðal annarra eru Blóðbræður sem var sýnt hér fyrir ansi mörgum árum en það er mér enn í fersku minni....það er mitt uppáhaldsleikrit....þrátt fyrir að hafa fengið hörmulega dóma!!! Felix Bergsson og Magnús í Gusgus voru frábærir í þessu stykki....ohhh!!

Síðan er það Veislan (eftir dönsku myndinni Festen). Þá sátum við við veisluborðið og vorum við hliðina á Hilmi Snæ....je minn eini...og hann fór allt í einu bara að gráta...með okkur alveg ofan í sér....hvernig í ósköpunum fer þetta leikarlið að þessu??? Að fara bara að grenja upp úr þurru með áhorfendur bara alveg ofan í sér??? Ég dáist að þessu fólki!!!

Með fulla vasa af grjóti var það fyndnasta....Hilmir Snær og Stefán Karl léku þar örugglega 12 hlutverk hvor, brugðu sér í allra kvikinda líki og skiptu um hlutverk eins og við drekkum vatn...og það var alveg frábært að sjá þá. Á sýningunni sem ég fór á var maður sem fékk aðsvif og konan hans kallaði á miðri sýningu hvort það væri læknir í salnum og Hilmir Snær og Stefán Karl stoppuðu strax og kölluðu út í sal hvort þar væri læknir, ljósin kviknuðu, sætavísurnar mættu á staðinn, hlúð var að manninum og svo settist hann bara aftur greyið og baðst afsökunar. Hilmir Snær og Stefán Karl margspurðu hann hvort allt væri í lagi og hvort þeir ættu að bíða lengur og maðurinn neitaði því. Þá bara slokknuðu ljósin, þeir litu á hvorn annan og svo bara byrjuðu þeir....bara eins og sett hefði verið á pásu....meiriháttar snillar!!!

Edith Piaf var/er alger snilld, ég væri til í að sjá það aftur og aftur....hún Brynhildur er alveg hreint út sagt frábær...lögin svo skemmtileg og falleg tónlist..... ef þið hafið ekki séð það þá myndi ég sko skella mér....ekki missa af því!!!

Brim, sá ég í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og je minn eini, ég hef ekki hlegið svona mikið síðan ég veit ekki hvenær...kannski síðan ég horfði á Porky´s myndirnar hér í denn (muniði eftir þeim by the way...hehehehe). Það er (held ég) verið að fara að sýna Brim í Þjóðleikhúsinu í vetur og í guðanna bænum.....EKKI láta það framhjá ykkur fara!!!

Rómeó og Júlía var rosalega flott sýning.....hraði, spenna, ást, hatur....bara allur pakkinn!!!

Ég var einmitt að koma úr Hafnarfjarðarleikhúsinu þar sem ég sá Himnaríki. Meiriháttar skemmtileg sýning...ofsalega fyndin!! Það er líka svo skemmtilegt að sýningin er í rauninni sýnd tvisvar sinnum. Þetta eru tveir salir og við byrjuðum á að sjá það sem gerðist á veröndinni við sumarbústaðinn og eftir hlé skiptum við um sal og sáum það sem var að gerast inni í bústaðnum...frekar skemmtilegt og öðruvísi!!!

Hér hef ég nú stiklað á stóru varðandi það sem ég hef séð og þótt skemmtilegt...hef séð margt annað, man það ekki í augnablikinu.....en svo eru það barnasýningarnar...þær eru líka ófáar en ég mæli sérstaklega með leikritinu Klaufar og kóngsdætur, það er ótrúlega flott og skemmtilegt!!!

Mér finnst þetta svo skemmtilegt.....að klæða sig upp (þoli ekki þegar fólk kemur druslulegt í leikhús) og fara í leikhús....að sjá fólk setja sig í hin ýmsu hlutverk, fara eiginlega bara í annan heim og lófaklappið í lokin, ég fæ oft kökk í hálsinn og tár í augun......meira að segja á barnaleikritum!!!!

fimmtudagur, október 06, 2005

Rafmagnsleysi...

..ji langt síðan ég hef upplifað rafmagnsleysi...það er svo sjaldgjæft í nútímanum!!

Við mæðgur vorum á heimleið eftir kóræfingu og þá var andrúmsloftið eitthvað svo undarlegt og mig fór nú að gruna að það væri hreinlega bara rafmagnslaust þar sem öll umferðarljós á leiðinni frá Langholtskirkju og heim voru slökkt svo og götuljósin og fékk það svo staðfest þegar ég kom að Nóatúni og þar var allt slökkt líka. Frábært!!
Svo við mæðgur fórum bara heim að lesa og teikna og kveiktum á kertum og höfðum það virkilega notalegt....vantaði bara fárviðrið; vind, snjó og fjúk....ohhhh......það er svo huggulegt, sérstaklega þegar maður þarf ekki nauðsynlega að fara út!!!!

Skemmtilega óvænt ánægja!!!

þriðjudagur, október 04, 2005

Annríki

Það er ótrúlegt hvað er alltaf mikið að gera þegar mamma mín kemur í bæinn!! En eins og er með þetta "lið" utan af landi (hahahaha) þá þarf það náttúrulega að sleppa fram af sér beislinu þegar það kemur í bæinn og ekki mikill tími til annars. Sjá til dæmis svokölluðu vini manns úr eyjum, aldrei hafa þeir tíma til að kíkja við hjá manni þegar þeir eiga ferð í höfuðborgina, er ég samt sem áður á sama svæði og Kringlan og því ekki mikið mál að renna við...en það er önnur saga.

Mamma þarf að sjálfsögðu að komast í Bónus, RL (=Rúmfatalagerinn), IKEA, Blómaval, heimsækja afa og Ingu, fara í klippingu og lit til Óla, elda mat handa okkur systkinunum (ekki nauðsynlegt en alltaf vel þegið!!) og Bjarna (hehehe) auk þess að sinna barnabarninu. Það felst meðal annars í því að leyfa Grétu að snyrta hana, fara með henni í sunnudagaskólann, horfa á Stundina okkar með henni, vera í mömmó og margt fleira.

Mér verður oft hugsað til þess að þegar ég kem til eyja þá er það alger afslöppun fyrir mig, ég geri varla neitt. Og svo þegar mamma greyið kemur hingað þá er hún að elda og brasa, alltaf með svuntuna og slakar aldrei á......úff....og nú um helgina þá tókum við meira að segja slátur!!!!
Þess á milli er mamma með prjónana á milli handanna og bókstaflega framleiðir peysur og fleira.

Svo segist hún ekki skilja hvernig við getum búið hér í Reykjavík, allsstaðar biðraðir, umferðaröngþveiti og bílastæðavesen. Svo þegar ég fer til eyja skil ég ekkert í því hvar allt fólkið sé, það er varla hræða á ferð og alalr búðir hálftómar :)

Já svona er heimurinn skrýtinn!!!