Nú árið er liðið...
...í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.
Svona hljóðar textinn og mamma fer alltaf að gráta þegar þetta hljómar í sjónvarpinu og árið hverfur af skjánum og nýtt ár birtist. Ég ætla ekkert að gera grín að henni mömmu fyrir það að gráta því ég hef oftar en ekki gert það sjálf. EN svo undarlega vill til að ég gerði það ekki núna, held að það hafi verið vegna þess að ég var frekar fegin að það væri liðið...seinni hluti ársins var viðburðarríkur og mikið um að vera hjá mér og ég er reynslunni ríkari og gerði margt sem ég hef aldrei gert áður. Sumt vil ég aldrei gera aftur, sumt vildi ég geta tekið til baka, sumt vildi ég hafa gert öðruvísi og enn annað væri ég til í að endurtaka á hverjum degi. Andlega hliðin var samt meira niður á við þrátt fyrir viðburðarríkan seinni hluta árs og spilar þar inn andleg þreyta, námsleiði, einmanaleiki, óvissa og alltof mikið að neikvæðum hugsunum.
Ég hef einhvern veginn haft allt á hornum mér að ástæðulausu og verið frekar neikvæð og áttaði mig enn betur á því þegar ég var búin í prófunum og komin í jólafrí og hafði meira en nægan tíma til að hugsa. Og ég er búin að næra hugann með lestri frábærra bóka og samtölum við yndislegt fólk, og þegar maður á vinkonur sem maður getur hringt í seint að nóttu eða eldsnemma að morgni og losað um á maður bara nokkuð gott. Og ég er að átta mig á þessu öllu saman.
Fyrir mörgum árum, þegar ég var nýkomin heim frá Ítalíu og allt var breytt, vinkonur mínar komnar með kærasta, farnar að búa og eignast börn og ég bara allslaus að koma heim varð ég líka svolítið ringluð. Þá átti ég gott samtal við frænda minn sem sagði mér að þegar manni finnst allt vera að hrynja og allt vera öðruvísi en það var þá er það bara merki um þroska. Því vona ég að árið 2007 geri mér kleift að losa mig við þessa neikvæðu strauma, finna jákvæðnina og jafnvægið í lífinu. Að halda áfram að þroskast.
Og ég hef svo sannarlega margt að hlakka til , lokaverkefni á næsta leiti, útskrift í júní, ferming í fjölskyldunni, brúðkaup í vinahópnum og margt margt annað.
Það sem ég óska mér helst er að ég, Gréta og okkar nánasta fólk haldi heilsu og lukkan leiki áfram við okkur. Við höfum fyrir svo margt að þakka, við erum heilsuhraustar, eigum hvor aðra og marga marga aðra að, húsaskjól, mat, vinnu, bíl og svona mætti lengi telja svo ég fæ samviskubit yfir því að hafa verið í eymd og volæði án þess að nokkuð ami að mér og mínum.
Svo árið 2007 er árið sem ég ríf mig aftur upp og tek mig á, á líkama og sál.
1 Comments:
Gleðilegt ár elsku vinkona og flott að heyra að þú ert öll að koma til baka. Við eigum öll okkar slæmu tíma en það er um að gera að læra af þeim og vinna sig úr því.
Framtíðin brosir við þér , ekki spurning góðir hlutir gerast fyrir gott fólk.
Kveðja Lilja í Köben
Skrifa ummæli
<< Home