sunnudagur, júní 24, 2007

The Golden Circle and the Blue/Green Lagoon

Það má með sanni segja að við mæðgur höfum verið í túristaleik um helgina, eða kannski túristagæd leik alla vega. Þannig er mál með vexti að við eigum ítalskan vin sem heitir Marco og hann kom til okkar í fyrra og með honum hinir ítölsku vinir okkar, Cristina, Stefano og Ambra.

Marco á norska kærustu sem heitir Jorunn en hún komst því miður ekki með þeim til okkar í fyrra svo þau, Marco og Jorunn, brugðu á það ráð að skreppa hingað til okkar um helgina!!!!!!
Og það var bara gaman :)

Við Gréta vorum mættar á Keflavíkurflugvöll kl.9 í gærmorgun að sækja þau og við brunuðum svo öll hingað heim, fengum okkur brunch, skiptum um föt, settum nýju myndavélina mína í töskuna og brunuðum svo af stað á Þingvelli. Þar var mikil sól en líka mikill vindur!!!!
Þingvellir eru í miklu uppáhaldi hjá mér, mér finnst gasalega fallegt þar og svo er bara svo mikil saga þar. Við eyddum talsverðum tíma í gær í að labba um Þingvelli og skoða og spjalla og ég elska að fá ítali í heimsókn og geta spjallað ítölsku...virkileg þörf fyrir það..hehehe....

Við skelltum okkur svo líka að Geysi og sáum þann merka hver gjósa allnokkru sinnum og mikið gasalega svakalega ofsalega er gaman að vera þar innan um Kínverja, Japani, Spánverja, Ítali, Frakka, Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir þegar hverinn gýs....það er ómetanlegt og íslenska hjartað slær aukaslag af þjóðarstolti þegar ferðamennirnir stynja og hrópa og vá-a og klappa og hreinlega bresta í grát yfir þessum ógnarkrafti og fegurð íslenskrar náttúru, já þetta er stórmerkileg jörð.
Og svo var það Gullfoss....stór og kraftmikill og sérlega fallegur og Kerið í bakaleiðinni :)

Í dag gerðum við okkur dagamun og skelltum okkur í Bláa Lónið...sem reyndar var Grænt í dag...sá það meira að segja í Fréttunum að þörungarnir hafa það svo gott að vatnið skipti hreinlega bara um lit...en hvort sem það er Blátt eða Grænt er það svona líka endurnærandi og húðin eftir náttúrulega maskann er svo mjúk og endurnærð. Eini gallinn við Bláa Lónið er að ég verð alltaf svo gasalega svöng þar, er varla komin ofan í Lónið þegar ég finn fyrir svona líka svakalegu hungri...en það reddast alltaf....SS pylsa, Kók og Nizza þegar upp úr var komið....ja...hefði kannski verið betra að segja Skyr, salat og hollt snakk....en neibbb....svo gott var það ekki!!!

Úr Lóninu lá leiðin á Keflavíkuflugvöll því Marco og Jorunn fóru aftur í dag :( stutt stopp en miklu afrekað....elska að fá svona gesti, þau eru svo opin og einlæg og finnst allt svo frábært sem er gert fyrir þau, sama hversu lítið og sjálfsagt það er.
Þannig eru sannir og einlægir vinir og það gerir manni ekkert nema gott að umgangast svona fólk....ohhhhhhh.......þarf endilega að komst til þeirra til Trieste......vediamo in futuro......og það magnaðasta er að bestu 2 vikurnar veðurfarslega séð í fyrrasumar voru þessar 2 þegar þessir ítölsku vinir okkar voru hér og gærdagurinn og dagurinn í dag voru ekki sem verstir...er því búin að biðja Marco að koma sem oftast því svo virðist vera sem góða veðrið fylgi honum...þannig að ef þið vitið um lausa stöðu hjá Icelandair/IcelandExpress eða öðru íslensku flugfélagi get ég fengið Marco til að vera um kyrrt og Ísland verður besta sólarlandaeyjan í heiminum...hvað segiði um það??????????
Maður má alltaf láta sig dreyma....ekki satt???
Hafið það gott og hugsið vel um vini ykkar...íslenska og erlenda!!!

fimmtudagur, júní 21, 2007

Gréta Dögg 7 ára

Þann 21.júní 2000 varð jarðskjálfti rétt eftir miðnætti og rétt fyrir klukkan 9 um morguninn vorum við komin upp á fæðingardeild. Ljósmóðirin athugaði með hríðarnar og fannst þær ekkert svo harðar svo hún bjóst við að ég mætti bara fara aftur heim, en ákvað svo að skoða mig betur. Ég var þá bara komin með 7 í útvíkkun og ekkert á leiðinni heim og rétt á eftir missti ég vatnið svo ég var alls ekkert á leiðinni heim.

Á leiðinni upp á spítala hugsaði ég með mér hvað þetta væri ótrúlegt....ljósmóðirin sem var með okkur í mæðraskoðun og á foreldranámskeiðinu hafði sagt við mig að hún hefði svo góða tilfinningu fyrir þessu öllu hjá mér, að ég myndi fara í gegnum þetta allt án nokkurra vandkvæða og þetta myndi reynast mér létt, það væri oft þannig hjá grönnum og háum konum sagði hún. Hún sagðist hafa þannig tilfinningu að ég færi í gegnum þetta lyfjalaust og þegar hún sá dagsetninguna sem sónarinn sagði til um sór hún nánast að barnið kæmi í heiminn á þessum degi, þar sem 21.júní er sumarsólstöður, lengsti dagur ársins og hún vildi meina að staða sólar og tungls og þess háttar hefði áhrif.
Allt þetta reyndist rétt hjá henni, Gréta fæddist 21.júní og allt gekk þetta vandræðalaust fyrir sig.

Nokkru áður en Gréta fæddist hafði ég oft heyrt lag í útvarpinu og var Þórir búinn að reyna að ná í það á netinu en gat það einhverra hluta vegna ekki. Lagið var "Could I have this kiss forever" með Whitney Houston og Enrique Iglesias. Mér fannst lagið svo ofsalega flott og þegar við vorum á fæðingardeildinni settum við útvarpið á og í miðjum hríðum heyrði ég þetta lag og sagði við Þóri að þetta væri lagið...og var þá náttúrulega að meina lagið í útvarpinu en hann greyið var ekki alveg að átta sig á þessu enda upptekinn við að stjana við mig og hélt eflaust að ég væri að meina að hann væri að standa sig!!!! Ég þurfti því að útskýra fyrir honum og ljósmóðurinni að það væri lagið í útvarpinu sem ég væri að tala um!!!
Ljósmóðurinni fannst þetta frekar fyndið, að kona í miðjum hríðum væri að pæla í hvaða lag væri í útvarpinu en þetta er mér sérlega minnisstætt.

Þess vegna fannst mér það ótrúleg tilviljun að í dag þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni og leit á klukkuna og sá að hún var 16.15 ,en Gréta fæddist einmitt klukkan 16.15, að þá hljómaði á Léttbylgjunni þetta sama lag á þessum sama tíma!!!!!!!!!!

Ég greip símann og hringdi í Grétuna mína og sagði henni að hlusta á lagið, en við eigum það í tölvunni og ég spila það oft og rifja upp þennan stórkostlega dag fyrir 7 árum þegar yndislega dóttir mín fæddist.

Elsku Grétan mín, til hamingju með daginn og takk fyrir að vera besta stelpan í öllum heiminum :)

Elska þig milljón trilljón billjón endalaust :)

miðvikudagur, júní 20, 2007

Útskriftardagurinn sjálfur

Laugardagurinn 16.júní 2007 verður mér eftirminnilegur þótt ég hafi látið svona eins og ég lét!!

Dagurinn var tekinn snemma, vaknað kl.8...brunað til Óla bróður í "sléttun" og við mæðgur vorum svo heppnar að Laufey var mætt og hafði "ekkert" að gera svo hún gat fléttað Grétu svona líka gasalega fínt!!
Skelltum okkur svo þaðan í Kópavoginn þar sem Helga sæta málaði mig aðeins og svo var brunað heim, skipt um föt og skartið sett upp!!!
Mamma og pabbi röltu svo hér yfir og ég fór í Laugardalshöllina, þau komu svo stuttu seinna með Grétu.
Brautskráningin gekk eins og í sögu og þakka ég þeim fjölmörgu sem gerðu það sem ég ætlaði mér að gera, að vera fjarverandi...því það var töluverður fjöldi fjarverandi og því gekk þessi upptalning á nöfnum ansi vel fyrir sig hehehe
Atriðin voru skemmtileg og hátíðleg og ekkert nema gott um það að segja.

Við mæðgur brunuðum svo aftur í Kópavoginn í myndatöku og svo var bara kaffiboð hér síðdegis. Ég fékk ótrúlega margt fallegt í útskriftargjöf, m.a. nýja digital myndavél, skartgripi, blóm og gjafabréf...þúsund þakkir allir saman fyrir að fagna með mér og vera best í heimi!!

Humarhalarnir á Humarhúsinu voru svona líka gasalega góðir og ég er enn með hvítlauskbragðið í munninum....á meðan pabbi er enn með óbragðið af hrefnukjötinu í munninum...muahhhhh

Við vorum alveg búnar á því og sofnaðar fyrir kl 23.00 á laugardagskvöldið, sáttar og sælar :)

miðvikudagur, júní 13, 2007

Öfganna á milli???

Huhumm...þegar ég átti að skrá mig í Lokaverkefni í Kennó fór ég að hugsa um útskriftardaginn. Mér fannst þetta ekkert merkilegur dagur, ég ætlaði mér ekki einu sinni að mæta í útskriftina heldur bara láta senda mér plöggin mín í pósti.
Við ræddum þetta, við stelpurnar og þær áttu ekki til orð yfir þessum fíflalátum í mér en þetta var (og er) mín skoðun á málinu og ég sagði þeim það:

Ég nenni ómögulega að hanga þarna í Laugardalshöll í 2 klst til að hlusta á einhvern rektor sem ég þekki ekkert og þekkir mig ekkert rausa um hve stoltur hann sé af því að brautskrá svona föngulegan hóp og bla bla bla. Hvað þá síður að hlusta á fleiri hundruð nöfn þulin upp af ólíkum brautarstjórum sem hafa jafnvel ekki kennt manni neitt og þekkja engin deili á manni þar sem ég hef eytt 4 árum í fjarnám!!
Ég ætla ekki að eyða peningum í föt til að láta þau krumpast á meðan ég bíð eftir að nafnið mitt sé nefnt og það sem er verst af öllu....að ég ræð ekki hjá hverjum ég sit...það fer mest af öllu í taugarnar á mér...en auðvitað skil ég að það verði að vera skipulag á þessu öllu saman og allt það...en samt!!!!
Ég myndi vilja sitja hjá fjölskyldunni minni þar sem það er henni að þakka að ég á þennan dag, ekki samnemendum mínum eða kennurum.

Ég hef unnið vel flest hópverkefni með frábærum stelpum, þeim Sollu og Villu og þeim fannst þetta algerlega út í hött hjá mér, auðvitað væri þetta merkilegur dagur og ótrúlega mikil vinna sem liggur að baki þessum áfanga og ég ætti ekki að gera lítið úr því. Og þær ætluðuð sko ekki að hlusta á þetta bull í mér því þær myndu koma og draga mig út á hárinu ef ég ætlaði að halda þessari vitleysu áfram!!
Þetta væri sko einn fyrir alla og allir fyrir einn!! Enda höfum við verið sérlega duglegar við að peppa hvor aðra upp þessi 4 ár sem námið hefur staðið yfir og á ég þeim margt að þakka!!!

Þannig að....staðan í dag er þessi...
  • ég er að láta sérsauma á mig dress fyrir útskriftina :)
  • ég fékk skó frá London :)
  • er búin að fá lit og plokkun/lit og klippingu :)
  • förðun og greiðsla :)
  • veisla :)
  • við Gréta ætlum í myndatöku
  • fjölskyldan fer öll saman út að borða

Þannig að daginn sem ég ætlaði ekki að gera neitt er ég búin að plana út í ystu æsar!!!

Mikið er rætt um virðingu fyrir því starfi sem ég hef valið mér og ef ég ber ekki virðingu fyrir því og þeirri menntun sem ég hef náð mér í þá veit ég ekki hver ætti að gera það....svo ég mæti stolt og upprifin í mína eigin útskrift (en er samt sömu skoðunar og hér að ofan).

Ég er ekkert nema hræsnin!!!!!

þriðjudagur, júní 12, 2007

Til eyja með rellu frá Rvk


Pabbi bauð okkur Grétu að fljúga með sér til eyja sl. föstudagskvöld sem við og gerðum auk annars flugmanns.
Veðrið var eins og best verður á kosið, algert logn og bjart. Því var virkilega gaman að fljúga með pínulítilli rellu (4-5 manna vél) og geta séð landið svona vel.
Ég er svoddan skræfa, er svo gasalega lífhrædd og greyið pabbi heldur að ég treysti honum ekki...en það er ekki það...þetta er bara lífhræðsla, hræðsla um að eitthvað hræðilegt muni gerast...svona er ég og hef alltaf verið og verð eflaust alltaf, sama hvað ég reyni að losa mig við þessar óþarfa áhyggjur!!
Ég tók nokkra kippi í skýja-þokubakkanum sem við flugum í...alltof lengi að mínu mati...og svo var dálítið misvinda á brautarendanum og svolítill hristingur og hjartað í mér tók kipp en Gréta sat bara alveg kyrr, leit svo á mig og sagði: SKRÆFA!!!!
Eins gott að barnið erfir ekki þennan aumingjaskap móður sinnar!!
Og hún bætti um betur þegar við komum í flugstöðina og mamma sagði að ég væri alger hetja að þora þessu og spurði svo hvort ég hefði verið hrædd en ég neitaði því og þá heyrist í Grétu: jú víst mamma, þú varst skíthrædd!!!!!!

Dvölin í eyjum var notaleg að vanda, humari í hádegismat, grillað lambakjöt í kvöldmat, videokvöld, settar niður kartöflur og við pabbi röltum svo Skansfjöruhringinn...mikið gasalega er gott að vera í eyjum í svona kyrru veðri, sé að LOGN er það sem skiptir mestu máli. Það var svo gott að fara Skansinn í logni og úða.

Kom svo heim með Herjólfi á sunnudagskvöld en Gréta mín er enn í eyjum, hjá ömmu og öðrum ættingjum og vinum og hefur það svona líka gott. Hún og mamma koma svo á fimmtudag til að hjálpa til við að undirbúa útskriftarveisluna okkar Grétu!!

fimmtudagur, júní 07, 2007

Útskriftir

Gréta mín "útskrifaðist" úr 1.bekk með stæl í morgun, vitnisburðurinn alveg til fyrirmyndar og verkefnin hennar stórglæsileg.

Ég er svo stolt af litlu/stóru stelpunni minni og finnst hún orðin svo stór og veraldarvön eftir fyrsta árið í grunnskóla. Hún er alveg fluglæs, farin að tala og skrifa eins og fullorðin og orðin fær um að bjarga sér að svo mörgu leyti sjálf.

Sjálf er ég að útskrifast úr KHÍ þann 16.júní og hef verið að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera af því tilefni, hvort ég eigi að hafa veislu eða eitthvað og núna er Gréta að velta fyrir sér hvað eigi að gera í tilefni af því að hún er búin með 1.bekk :) auðvitað þarf að gera eitthvað fyrir hana þannig að útskriftarkaffiveislan sem ég ætlaði að hafa í tilefni af minni útskrift er núna orðin að allsherjar 1.bekkjar-leikskólakennaraútskrift og það verður bara gaman!!

Hef nú alveg ákveðnar skoðanir á þessari útskrift minni og læt þær flakka næst...