sunnudagur, október 29, 2006

Ester og Einar 100 ára :)

Mín skrapp til eyja í hádeginu í gær og kom aftur í hádeginu í dag...allt til að vera viðstödd 100 ára afmæli elsku frænku minnar og mannsins hennar.
Ester er systir hennar mömmu og ég fæddist á 19 ára afmælisdaginn hennar. Við erum af mörgum taldar líkar...svo ég vitni nú bara í ræðuna mína í gær "... við erum báðar hávaxnar, grannar, brúnhærðar, brúneygðar, barmamiklar blaðurskjóður..."

Ester og Einar byrjuðu saman þegar þau voru bara 15 ára og áttu barn 16 ára....og eiga í dag 4 börn og 4 barnabörn....stærðfræðikennarinn, dóttir þeirra, fékk það út að þau hafi verið saman meira en 60% af ævinni og bara 30% sem þau sjálf...ef ég fer alveg með rétt mál....spáiðið í það!!!!!

Í gær voru Diddinn og Baddinn veislustjórar og stóðu sig með stakri prýði eins og þeirra er von og vísa, Kristborg hélt smá tölu, mamma var með braginn Systraþel og naut þar aðstoðar við millikaflann "umbarassa", ég var með ræðu og við Diddi með rapp, auk þess sem Diddinn og Baddinn voru búnir að gera myndband sem var svo drepfyndið að ég hélt ég yrði ekki eldri. Auk þess sem Ester og Einar voru verðlaunuð, í karla og kvennaflokki sem Besta mamma í heimi og Besti pabbi í heimi.

Semsagt vel heppnuð ferð og frábært afmæli sem ég hefði ekki viljað missa af....hehehehe...hræsni...þar sem ég lagði ekki í Herjólf á föstudagskvöldið vegna ÓVEÐURS svo ég splæsti bara í flug fram og til baka.....var nefnilega á námskeiði og hitti þar eina konu úr eyjum og ég var að segja að ég gæti ekki farið í þessu óveðri og hún leit á mig og sagði að ég myndi pottþétt fara ef þetta væri jarðarförin hennar og ég bara já auðvitað, sama hvernig veðrið væri og þá sagði hún..já einmitt...betra er afmæli en jarðarför, maður á að hittast og gleðjast í lifanda lífi....sannarlega orð að sönnu!!!!

Elsku Ester og Einar....til hamingju með daginn, lífið og hvort annað og takk fyrir frábæra veislu!!

Myndir úr afmælinu eru í albúminu!!!!

föstudagur, október 27, 2006

Fundin??

Ok...fyrst vil ég biðja þá sem lásu síðasta bloggið mitt og fylltust hræðslu afsökunar :(
Ég verð að játa að ég gerði mér ekki grein fyrir því að fólk tæki mark á þessum orðum mínum af einhverri alvöru þó öllu gríni fylgi nokkur alvara. Fyrirgefðu pabbi minn (vissi ekki að þú værir farinn að lesa bloggið mitt!!!)
Ég er ekki þunglynd, ekki í neinu rugli, ekki klofinn persónuleiki og þaðan af síður í sjálfsmorðshugleiðingum.
Það er í rauninni allt í stakasta lagi nema ég er svo mikið utan við mig og eitthvað ekki að fylgjast með.

Fyrir þá sem ekki þekkja mig nógu vel þá er ég týpan sem geng alltaf strax frá öllu, loka alltaf skáphurðum þegar ég er búin að ganga frá þvottinum/sækja mér föt, og klósettið maður minn...loka því alltaf. Ég geng alltaf frá strax eftir matinn og vaska upp, fer alltaf út með ruslið þegar það er fullt... jafnvel þótt það sé hávaða rok og myrkur....NEMA HVAÐ undanfarið hef ég bara ekkert verið að spá í neitt af þessu, ég kem að skáphurðunum opnum upp á gátt en samt var ÉG síðust að nota skápinn, klósettið er opið, ég nenni ekki að vaska upp svo það safnast aðeins í vaskinn. Ég meina ég er sjónvarpsfíkill og ég elska að horfa á sjónvarp en fyrstu árin mín í skólanum "fórnaði" ég mörgum sjónvarpsþáttum þar sem ég var að LÆRA...en núna þá horfði ég meira að segja á þætti sem mér finnast hundleiðinlegir bara til að þurfa ekki að læra....það er bara þetta sem er að mér!!!!!!!!!! Tittlingaskítur??????

NEMA HVAÐ...í gær sat ég og lærði í marga klukkutíma og náði að komast vel af stað í þeim verkefnum sem liggja fyrir og vann mikið upp AUK ÞESS sem ég eldaði, vaskaði upp OG ÞURRKAÐI!!!!!!

Svo kannski er hin gamla Íris að koma til baka....ég verð nefnilega að játa að þrátt fyrir að hún sé skrýtin á marga vegu þá kann ég betur við hana!!

Hinum lesendum mínum þakka ég uppörvandi orð...veit ég á marga góða að...so don´t worry...be happy!!!!!!

miðvikudagur, október 25, 2006

Tapað/Fundið

Tapast hefur rúmlega þrítug jákvæð, reglusöm, afar geðgóð, samviskusöm og skynsöm kona.

Fundist hefur í staðinn jafngömul kona sem virkar þó nokkuð yngri, er pirruð, geðvond, kærulaus og langt frá því að vera hvort heldur samviskusöm né skynsöm.

Ef einhver hefur eitthvað til þeirrar týndu spurt eða heyrt er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að segja henni að drullast aftur þangað sem hún var og koma hinni týpunni frá völdum áður en það verður um seinan!!!!

miðvikudagur, október 18, 2006

Á sama tíma

Er ekki ótrúlegt hvað hlutirnir hittasta alltaf á sama tíma??

Í síðustu viku var fundur í skólanum hjá Grétu á miðvikudagskvöldi og svo var foreldrafundur hjá mér í leikskólanum á fimmtudagskvöldið.
Í gærkveldi var ég í "aumingjamat" og í kvöld var ég svo á öðrum fundi í skólanum hjá Grétu...og er það algerlega mér að kenna þar sem ég náði að gerast bekkjarfulltrúi í bekknum hennar....hugsaði með mér að illu væri best af lokið og eflaust betra að gera þetta í 1.bekk þar sem þetta er mun auðveldara en þegar þau eldast.
Á morgun er svo starfsmannafundur í vinnunni minni svo enn og aftur þarf ég að koma blessuðu barninu mínu fyrir.

Síðustu helgina í október erum við svo að fara til Eyja þar sem Ester og Einar eiga samtals 100 ára afmæli en einmitt þá helgi vorum við mæðgur boðnar í geggjaðasta hrekkjarvökupartý ever en verðum því miður að afþakka það góða boð :(

Óli bróðir hringdi í okkur í gær og vildi endilega bjóða okkur út að borða í vikunni en....öll kvöld fullbókuð svo það verður að bíða betri tíma!!!

Svona vill þetta oft verða...maður situr heima mörg kvöld í röð, jafnvel í margar vikur og svo bara búmm.....allt að gerast!!!
En það er bara gaman...að fara út, hitta annað fólk, komast í annað umhverfi og svona...ekkert athugavert við það. Hvar væri ég án pabba og ömmu Þórey sem koma mér til bjargar og passa Grétu??? Takk takk elskurnar!!!

laugardagur, október 14, 2006

Umferðarstjarfi

Ekki veit ég hvað það er en ég fæ svo oft störu þegar ég er að keyra að mér er hætt að lítast á blikuna...kannski er það allt þetta áreiti....umferðarljósin, auglýsingarskilti, ótrúlega sterk ljós á bílum og svo bara allir þessir bílar sem eru á götum borgarinnar.

Ótrúlega undarlegt finnst mér...það er bannað að vera með litaðar rúður í bílum en það mega vera flennistór auglýsinga-flettispjöld, t.d við Kringluna, sem fanga athygli bílstjóra sem og annarra farþega.
Ljósin á bílunum eru orðin mun sterkari en þau voru og ekki lengur fylgst með því í bifreiðarskoðun. Þá eru sum umferðarljósin, sérstaklega græni liturinn alltof sterkur sum staðar þar sem eru ný ljós/gatnamót.

Allt þetta kann að valda þessum umferðarstjarfa mínum...nema að ég sé bara orðin svona gömul og með lélega sjón!!!

föstudagur, október 13, 2006

Líf-hrædd

Ég er mjög jarðbundin manneskja, og það sem meira er...ég er gasalega lífhrædd...ég er sjúklega hrædd við dauðann og þá sérstaklega eftir að ég átti Grétu. Ég ætla að nefna fáein dæmi en bið ykkur um að úrskurða mig ekki alveg geggjaða þar sem ég hef lesið fræðigreinar um fólk sem á meira bágt en ég...auk þess sem margir af mínum lesendum eru mömmur þá skal ég hundur heita ef einhver þeirra hefur ekki hugsað eitthvað í líkingu við það sem hér kemur...hehehe!!

Þegar ég var ófrísk fórum við ósjaldan í bíltúr, mér fannst svo gott og gaman að rúnta um borgina og fá mér ís, Gréta er sko fædd í júní, og bara sjá mannlífið og svona. Eftir að Gréta fæddist vildi ég helst ekki fara í bíl nema það væri nauðsynlegt, við værum að fara eitthvað ákveðið, ekki bara á rúntinn, af ótta við að eitthvað kæmi fyrir.

Þegar ég fór með hana í Herjólf í fyrsta sinn var hún bara tæplega 2ja mánaða og ég var síðust af biðlista að fá koju og þar sat ég og ímyndaði mér að Herjólfur myndi farast bara af því ég væri að fara í tilefnislausa ferð til Vestmannaeyja, bara vera hjá mömmu í viku eða meira!!
Svona leið mér líka þegar ég fór með hana í fyrstu flugferðina og þegar ég fór með hana til Ítalíu.
Maður er náttúrulega klikk....ekkert annað.
En ég er nú að lagast, hún er búin að fara nokkrar ferðir með pabba í Herjólfi til eyja og ekki dottið í sjóinn eða neitt...auk þess hefur hún líka farið með Didda bæði í Herjólf og flug til eyja og allt gengið vel :)

En þetta er allavega móðurtilfinningin, held ég, en sem betur fer varð ég ekki þunglynd og þessar hugsanir staldra stutt við...sem betur fer...og þetta eldist aðeins af manni.

Þess vegna dáist ég að Hörpu vinkonu minni sem elti manninn sinn, hann Jón Gunnar, til Dubai þar sem hann er að fljúga og þar eru þau núna með öll 3 börnin að upplifa eitthvað alveg nýtt. Hann er náttúrulega að vinna þannig að hún er oft ein með börnin á ókunnum slóðum og það kostar dug og þor. Ég veit ekki hvort ég myndi þora þessu.
Var einmitt spurð að því í dag af hverju ég rifi mig ekki upp og færi til Ítalíu. Góð spurning...ég svaraði bara hreinskilnislega: ég þori það ekki, ekki ein með Grétu.
Þau millilentu á Heathrow og upplifðu glundroða þar vegna sprengjuhótunar, sem reyndist svo ekkert, en ég er ansi hrædd um að mitt litla hjarta hefði slegið sitt síðasta ef ég hefði verið þar!!

Ég tek því litla sem enga áhættu í lífinu, fer mínar öruggu leiðir og þori t.d ekki í river-rafting, fallhlífarstökk, sjóskíði eða einhver fáránleg tæki í Tívolíi!!!!
Kannski óspennandi líf en líf engu að síður!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

miðvikudagur, október 11, 2006

Kisan mín hún Píla

Haldiði ekki bara að ég hafi setið yfir skólabókunum í fyrrakvöld og með kveikt á sjónvarpinu og rétt missti af byrjuninni af einhverju atriði í Kastljós en heyri svo að það er verið að tala um að einhver hafi horfið fyrir 5 árum, svo ég fer að leggja við hlustir. Þegar nokkuð er liðið á viðtalið kemur í ljós að þetta var köttur sem fór sínar eigin leiðir og yfirgaf húsbóndann sinn í lengri tíma og fann sér annan stað. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um hana Pílu mína.

Þegar ég var 10 ára heimsótti ég föðursystur mína og var læðan hennar nýbúin að gjóta og mig langaði svo í kettling, og hún sagði að ég mætti velja einn. Ég valdi mér bröndótta læðu sem var bara sæt!!! Ég hringdi í mömmu og pabba úr sveitinni og spurði hvort ég mætti ekki örugglega fá kettling og þau sögðu bæði nei en ég kom samt heim með kettlinginn og það var sem við manninn mælt...þau elskuðu hana næstum meira en mig!!!! Fyrst fékk ég sko að heyra það að ég skyldi sko sjá um köttinn sjálf og þessi vanalega tuð-ræða sem flestir þekkja...en áður en ég vissi af var mamma farin að sjóða fisk oft á dag og pabbi farinn að leika við köttinn og strjúka honum og svona.

Tíminn leið og kötturinn minn, hún Píla, varð hinn mesti myndarköttur, og hafði svona líka sterkan karakter. Hún fylgdi okkur Didda alltaf í skólann, labbaði á eftir okkur og beið svo á sama stað á hverjum morgni og horfði á eftir okkur þangað til við vorum komin að skólanum, þá sneri hún við.

Einu sinni var hringt í mömmu frá Sparisjóðnum og hún vinsamlegast beðin um að koma og sækja köttinn þar sem hann lá á miðju Sparisjóðsgólfinu og sólaði sig!! Hún var líka beðin um að sækja köttinn í Kaupfélagið!!

Hún var svo mjúk og svo þægilegt að kúra hjá henni, hún lá alltaf alveg upp við mann, eftir manni endilöngum og það var ekki hægt að finan fyrir kulda þegar hún var hjá manni. Oftar en ekki lá hún til fóta og þá var mér ekki jafn kalt á fótunum og mér annars er.

Píla varð einu sinni kettlingafull og þá bjó ég um hana í kassa og setti meira að segja uppáhaldsteppið mitt í kassann..en allt kom fyrir ekki. Elva frænka hafði gist hjá mér um nóttina og þegar ég vakna finn ég að það er allt blautt í rúminu og hélt strax að Elva hefði pissað undir...en nei nei þá var það bara Píla mín sem var búin að koma fjórum af fimm kettlingunum sínum í heiminn, í rúminu mínu, á sænginni minni!!!!!!

Hún krafsaði alltaf í hurðina þegar hún vildi komast inn eða út, og stundum þegar það var vont veður opnaði maður hurðina, hún setti loppuna út en sneri svo við, algjör snilli!!!

Það var líka svo fyndið að fylgjast með henni þegar hún var orðin of öldruð (að eigin mati) til að leika sér, maður otaði kannski að henni einhverju dóti og hún lék með það í svona 30 sek, þá var eins og hún skammaðist sín eitthvað fyrir það og hún skreið undir sófa, sem var alltaf frekar fyndið.

En þetta er yndislegasta kisa sem ég hef vitað um og ég held að pabbi fyrirgefi mér það seint að ég skyldi hafa komið með hana heim, gert alla háða henni og látið það svo koma í hans hlut að láta lóga henni (þar sem hún var orðin svo gömul og veik).

mánudagur, október 09, 2006

9.okt 2006

Í dag hefði Kristbjörg mín orðið 31 árs ef hún væri enn hjá okkur.

Á þessum degi loga enn fleiri kerti en vanalega við myndina af okkur í glugganum hjá mér, og mamma fór, eins og alla aðra afmælisdagana síðan Kristbjörg dó, í kirkjugarðinn fyrir mig.

Mér finnst svo stutt síðan við vorum öll saman vinirnir í kirkjugarðinum að leggja haustkrans á leiðið, þegar hún hefði orðið þrítug, og ég bloggaði um það.
Hér er ég aftur komin, aftur kominn október og lífið gengur sinn vanagang. Ég verð samt að segja að það líður varla sá dagur sem ég ekki hugsa um hana, og þegar við komum saman 2-3 úr vinahópnum verður okkur tíðrætt um hana, svo yndisleg var hún og eftirminnileg.
Sem betur fer er ekki hægt að taka minningar frá manni því þá væri líf mitt svo tómlegt.

Það er svo ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og þegar fólk nöldrar yfir aldrinum og hvað það er nú að verða gamalt segi ég alltaf að maður eigi að þakka fyrir hvern afmælisdag sem maður á því maður er þá á lífi og meðal sinna nánustu.

Blessuð sé minning elsku Kristbjargar minnar.

laugardagur, október 07, 2006

Lægð

Það verður nú bara að segjast eins og er að ég hef verið í einhverri undarlegri lægð upp á síðkastið, ég er svo áhugalaus um allt að það er ekki lengur fyndið, ég hreinlega nenni ekki neinu og er bara eitthvað svo undarlega ólík sjálfri mér. Vona nú að ég fari að ná að hrista þetta af mér....er búin að vera svo ótrúlega áhugalaus hvað námið varðar og er svo óánægð með sjálfa mig með það...er nefnilega mjög samviskusöm og skipulögð og þetta er næst síðasta önnin svo þetta er sko alls ekki rétti tíminn til að vera í einhverju rugli. PIRR PIRR
Allt spilar þetta samt saman...maður er bara líka orðinn þreyttur, í 3 ár hefur maður eytt að jafnaði 4 -5 klst á hverju kvöldi að lesa sænskar, enskar, norskar og ef maður er heppinn íslenskar fræðigreinar.

Svo er alltaf undirmannað í vinnunni og manni tekst aldrei að klára allt sem manni langar til að gera, þarf að gera allt í hollum og stela sér tíma og þá fer ég nú bara í vont skap....þrátt fyrir mitt góða og vinsæla og jákvæða jafnaðargeð!!!
Þegar maður er kominn í svona "víta"hring þá verður maður eitthvað svo uppgefinn og fer að hugsa um til hvers maður sé nú að þessu öllu saman!!!
Ætti maður kannski bara að gefa skít í þetta allt og snúa sér að einhverju öðru?? Er maður eitthvað betur settur með það?? Er ekki grasið alltaf grænna hinumegin??
Ótrúlegt hvað maður er klikk...þegar maður er í námi vill maður helst ekki vera það og svo þegar maður er ekki í námi þá saknar maður þess stundum svolítið!!!
Af hverju vill maður oft það sem maður ekki hefur?????

EN....nú hlýtur að fara að fara að líða að því að maður fari að fara að koma sér af stað og klára þetta með sóma eins mér er einni lagið....úff hvað er erfitt að vera í svona lægð...það fer mér bara alls ekki en ég kem mér einhvern veginn ekki út!!!!!!!!! Hjálp!!!!!

þriðjudagur, október 03, 2006

Eins og mamma??

Ji...ég sit hér við tölvuna og er að læra og átta mig allt í einu á því að ég er með kveikt á útvarpinu í eldhúsinu, að sækja tónlist á netinu og að horfa á fréttirnar á stöð 2...hjálp ég er að verða eins og mamma!!!!!!!!!!!!!!!!!

sunnudagur, október 01, 2006

Heiðmörk og hráskinka

Þvílík veðurblíða sem hefur verið undanfarna daga...þótt maður finni nú alveg að það sé að kólna og haustið sé komið. Í gær var svo ákaflega fallegt veður og því þótti manni alveg nauðsynlegt að komast eitthvert út í náttúruna, Þingvellir áttu að verða fyrir valinu enda fádæma fallegt þar þegar litasinfónía haustsins er í hámarki. En sökum skorts á sól þar varð Heiðmörk fyrir valinu. Þangað skunduðum við mæðgur ásamt Hörpu og Birgittu og börnum og nutum þar veðurblíðunnar. Krakkarnir hæstánægðir í pollabuxum og stígvélum með bolta, sippubönd, sápukúlur, badmintonspaða og ég veit ekki hvað og hvað!! Við kjellurnar hæstánægðar með bakkeslið hennar Birgittu, heitt súkkulaði og rjómi, brauð með hangikjöti/osti/túnfisksalati, og svo 600 gramma nammipokinn hennar Hörpu í eftirrétt!!! Það gerist ekki huggulegra!!!!!!!!!!!!!!
Ekta íslensk útilega nema það vantaði bara tjaldið!!
Þarna vorum við í rúma 3 tíma og þvílíkt sem það var huggulegt, blankalogn, sólskin, ró og friður (svo mikill að fullorðnir gátu meira að segja pissað úti!!!).
Ekki létum við þessa samveru gott heita því eftir Heiðmörk var brunað í Rósarimann þar sem börnin fengu pylsur en við kjellurnar fengum okkur ítalska hráskinku (nammi namm), ekta ítalskan parmisan ost, melónu, klettasalat, kirsuberjatómata og ristaðar furuhnetur og þessu var skolað niður með einu rauðvínsglasi...eða tveimur...já svei mér þá ef við Birgitta erum ekki bara að verða fullorðnar!!!

Í morgun skelltum við mægður okkur í sunnudagaskólann í blíðunnni og svo var brunað í Grafarvoginn og þaðan með Hörpu og co. á Selfoss. Við Gréta fórum til Svönu Lilju og Fanneyjar þar sem við vorum ekki enn búnar að hitta Svönu Lilju frá því hún kom heim frá Ítalíu (fyrir 3 mánuðum síðan!!). Þar skoðuðum við myndir og spjölluðum við þær systur og fórum svo með þeim að skoða nýjasta frændann, litla (hálf)bróður þeirra, en hann er bara 3ja vikna og algert krútt....ji hvað það væri stundum gaman að eiga eitt svona lítið en.....Gréta mín nægir mér alveg!!!!!

Ótrúlega hugguleg helgi í góðum félagsskap...sem er meðal þess sem maður metur mest í lífinu!!!