fimmtudagur, janúar 31, 2008

Það er svo skrýtið

Að sitja inni á bar og sjá ekki neitt,
segi ég öllum, mér finnist ei leitt.
En raunin er sú, ef ráðum við í,
að reyndar við höfum ei gaman að því.
Það er einmanaleikinn, sem á mig og þig,
vera innan um fólk - þörfin örmagnar sig.
Ég augum lít fólkið - ályktun dreg.
Bara einmana mannverur, rétt eins og ég.
Það er nú svo skrýtið, er á það ég lít,
sú örvænting stóbrotin, segja ég hlýt,
þegar finn ég það út, ef fast ég brýt hugann
um ferðalag okkar á þessari storð,
alveg er sama hve ánægður dvel
í allsnægtum - mér verður ekkert um sel.
Hamingjan drukknar sem dægurflugan
í draumum um meira á allsnægtarborð.
Lag: Magnús Eiríksson
Texti: Vilhjálmur Vilhjálmsson

laugardagur, janúar 26, 2008

1430 blaðsíður

Ég sagði það hér þegar Bókatíðindi birtust, og ég var svona lauslega búin að renna í gegnum það og merkja við þær bækur sem ég var pottþétt á að vilja lesa, að þetta væru 35 bækur og mér reiknaðist til að það yrðu þá að meðaltali 3 bækur á mánuði (en það voru sko bara bækur úr Bókatíðindum....burtséð frá ítölskum bókum sem ég á enn eftir að lesa sem og skólabækurnar!!)
Ég held svei mér þá að ég megi auka við og bæta á listann því nú er janúar bara að verða búinn og 5 bækur liggja í valnum, alls 1430 blaðsíður!!!!!

Búin að lesa Ösku, Harðskafa, Nornina frá Portobello og Þúsund bjartar sólir.

Að auki læddist inn bókin sem mamma og pabbi gáfu Grétu í jólagjöf en hún heitir Loforðið og fékk barnabókaverðlaun. Ég grét og grét þegar ég las hana en ég las helminginn á laugardagsmorgni og restina um kvöldið. Bókin fjallar um tvær 11 ára vinkonur sem voru nánast óaðskiljanlegar en í upphafi bókarinnar er önnur þeirra dáin. Bókin segir síðan frá öllu, kistulagningu, jarðarför, tilfinningum, hugsunum, söknuði og eftirsjá þeirrar sem lifir og hvernig henni tekst að halda áfram eftir slíkan missi. En hún segir jafnframt frá hugsunum, tilfinningum og ótta þeirrar sem deyr af völdum hræðilegs sjúkdóms.
Bókin er alls ekki bara barnabók og ég mæli með henni ef þið hafið ekkert annað að gera og þurfið að losna við smá tár!!!!

Bækurnar á náttborðinu eru Fröken Bovary og Miskunnsemi Guðs, ásamt ítölsku bókinni
Il Mistero di Via Gatteri!!!

Góðar lestrarstundir ;)

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Þarna þekki ég þá ;)

sko...vissi ég ekki...það hlaut að koma að því að strákarnir okkar myndu taka sig saman í andlitinu og sýna hvað í þeim býr. Hrikalega voru samt síðustu 20 mínúturnar hrikalega lengi að líða...hélt að klukkan væri bara eitthvað biluð...þorði ekki að fagna eða neitt á meðan, hélt nánast niðri í mér andanum síðustu 15 mínúturnar.


Allavega hafði ÉG ekki trú á öðru, þetta er kannski full seint í rassinn gripið EN með sigri á morgun og hagstæðum úrslitum..hehheehe...nei nei...ég er allavega fegin að strákarnir sýndu sitt rétta andlit og gott að sjá þá brosa út í annað og glotta yfir góðum mörkum.
Frábært að sjá Snorra Stein hreinlega blómstra og skorar allsstaðar af vellinum, það hlaut að koma að því Snorri!!!
Óli ekki með nógu góð skot en bætti það með því að fiska víti og náttúrulega með sínar stórkostlegu sendingar, hann er alger snillingur!!
Hreiðar eins og klettur í markinu, Sigfús tröllið í vörninni og Guðjón með gullvængina...hehehehe.
Játs nú er kátt í höllinni, við gætum náð í topp 10!!!!!!
Yndislegt að hlusta á Adolf Inga og Ólaf lýsa leiknum, hlusta á hvað strákarnir okkar eru nú magnaðir og stórkostlegir ;)

En að öðru.....

...Gréta er búin að vera tala um að hana langi að fara að æfa fótbolta og í gær drifum við okkur að fygjast með æfingu hjá 7.flokki kvenna hjá Þrótti og stelpan bara alveg ákveðin í að fara að æfa fótbolta. Ég er náttúrulega hoppandi glöð yfir því, enda æfði ég sjálf bæði hand-og fótbolta á mínum yngri árum. Nú... í dag fórum við því á stúfana og keyptum innanhússkó, legghlífar, stuttbuxur og háa sokka og Gréta var svona líka ánægð með þetta og montin.

Ég hins vegar dauðöfunda hana að eiga þetta allt eftir, ég vildi óska að ég hefði verið ákveðnari sem unglingur þá hefði ég kannski enst lengur í boltanum...þótt ég væri náttúrulega hætt í dag heheheh... en mér þótti ákaflega gaman að æfa og hef enn mjög gaman af því og væri alveg til í að vera á svona oldgirls æfingum þar sem mér þykir þetta miklu miklu skemmtilegra en fara í ræktina. Æ upplifi þetta bara í gegnum barnið ;)
Geri mér samt grein fyrir því að ég var og er betri áhorfandi en leikmaður :( en það verður einhver að vera í því :)


Ég hef gaman af því að taka fótbolta og leika mér og vona að Gréta endist eitthvað í boltanum. Hlakka til að vera gólandi á hliðarlínunni, fara í ferðalög, þvo búninga, finna til í töskuna og svona....það eina sem ég hlakka ekki til er fjáröflunardæmin.....finnst þau hreinlega ekki skemmtileg...en....maður verður víst líka stundum að gera það sem manni finnst ekki gaman!!

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Reykjavíkur-ruglið

Reykjavík hlýtur að eiga aldeilis nóg af peningum þar sem hún verður með 2 borgarstjóra á biðlaunum, og einn á fullum launum, eitthvað hlýtur það að kosta þar sem laun borgarstjóra eru ekkert slor.
Maður spyr sig hvort það sé ekki einhver leið til að stöðva þennan skrípaleik? Er enginn sem getur gripið inn í og bjargað saklausum íbúum borgarinnar frá þessum bjánum??? Eða er okkur bara ekki viðbjargandi?

En jæja...nenni ekki að rausa meira um þetta....það er annar skrípaleikur sem bíður...nefnilega handboltinn....ætla rétt að vona að það verði þýskur skrípaleikur, nóg er nú komið af íslenskum skrípaleik í bili, og Ísland nái að sýna sitt rétta brosmilda andlit og halda því!!!
Nettur fiðringur kominn í magann, smá skjálfti og spenna.....KOMA SVO ÍSLAND!!!!!

mánudagur, janúar 21, 2008

Skrípaleikur

Hvað verður það næst?????????
Ég á ekki til eitt einasta orð.....ætli það verði borgarstjóraskipti í Reykjavík á 100 daga fresti??
Ég er ákaflega fegin að eiga ekki vini og vandamenn í pólítík því ég efast hreinlega um að menn komist heilir frá þeim störfum.
Mér virðist sem menn selji sálu sína þeim sem býður hæst, hoppa á milli eftir því hver býður best og hvað ég græði á því, menn skipa í nefndir og ráð og borga himinhá laun fyrir það eitt og hvað gerist?????? Akkúrat ekki neitt nema það að þetta fólk hefur greiðan aðgang að fjölmiðlum og gerir ekki annað þar en sanna það að pólítík er mannskemmandi, sjá þetta Framsóknargrín sem sjónvarpsstöðvarnar og blöðin bjóða okkur upp á þessa dagana, hversu langt á þetta að ganga og hversu lengi á að bjóða okkur þetta?? Voru keypt föt eða voru ekki keypt föt? Hvað kostuðu fötin....ji ég get ekki sofið vegna þessara mála!!!!!!!!!!!!!!!
Við hljótum að komast í heimspressuna og Spaugstofan hlýtur að koma sterk inn á laugardag!!!
Baktjaldarmakk og ekkert annað er það sem pólítík er, ojbara og fussumsvei.
Allir viðurkenna að þetta sé farsakennt og allir taka þátt í þessu og enginn veit neitt....

Við Gréta vorum heima í dag þar sem hún var með gubbupest og ég horfði á endursýningu á Sunnudagskvöldi með Evu Maríu og þar hitti Ármann Jakobsson naglann á höfuðið þegar hann talaði um að hafa lagst undir feld til að ákveða hvort hann vildi fara á þing og komst að sömu niðurstöðu og ég eftir að hafa fylgst með þessum skrípaleik í dag.....það kemst enginn heill út úr pólítikinni.

Sem betur fer var komið í veg fyrir annan skrípaleik í dag með að jarða Fisher í Laugardælum en ekki á Þingvöllum, þá hefði ég nú ekki átt til orð...það er fallegt í Laugardælum og þar liggja amma mín og afi, blessuð sé minning þeirra!

sunnudagur, janúar 20, 2008

Hvað er að???????????

Æjjjjjj.....fyrir nokkrum dögum var ég með öran hjartslátt, gæsahúð og líkaminn allur uppspenntur en það var sko vegna þess að EM 2008 var að byrja. Ég elska að fylgjast með strákunum okkar og hef ákaflega gaman að því að horfa á handboltann.
Ég hækka sjónvarpið í botn og þegar Ísland lék við Svíþjóð fannst mér stákarnir koma einbeittir til leiks, ég fékk gæsahúð og kökk í hálsinn af þjóðarstolti þegar þjóðsöngurinn var spilaður og maður sá og heyrði stuðninginn sem strákarnir fengu. Svo byrjaði leikurinn og kökkurinn og gæsahúðin vegna spennunnar og gleðinnar breyttist í kökk og gæsahúð vegna vorkunnar.
Jesús minn.....hvað er að gerast í liðinu??
Strákarnir virðast ekki hafa mikið sjálfstraust, sem ég skil ekki, vegna þess að þarna eru leikmenn sem eru allir atvinnumenn, flestir hafa verið lengi í landsliðinu, farið á allmörg stórmót, og nokkrir hafa verið valdir í heimsliðið svo það er ekki eins og þetta séu einhverjir nýliðar sem eru blautir bak við eyrun.

En við erum svo sem ekki þekkt fyrir að fara létt með leikina okkar á stórmótum, mér finnst við oftar en ekki komast áfram á kostnað annarra, þurfum oft að stóla á hagstæð úrslit í öðrum leikjum og svona...þannig að einhver heppni þarf oftast að vera með í för, vildi samt óska að hún væri með okkur í leikjunum sjálfum :(

Maður veltir því fyrir sér hvað sé í gangi hjá strákunum því þó mér þyki leitt að segja það þá er eins og þeir virðist ekki vera með hugann við efnið, hvað því veldur þætti mér gaman að vita.
Það er ótrúlegt að sjá leik þeirra því þeir geta svo miklu miklu meira en þeir sýna.
Ætli Séra Pálmi Matthíasson sé ekki með í för eða einhver sem getur rifið þá upp úr þessum djúpa dal????
Alfreð hlýtur að hafa eina góða spólu með í neyð og ég bara trúi því ekki að við komum heim með skottið á milli lappanna eftir þetta mót, þótt það virðist stefna í það.

En það er ekki öll nótt úti enn og sigurinn í gær og óhagstæð úrslit Slóvaka gera okkur kleift að komast í milliriðil en þar komumst við pottþétt ekki upp með að spila svona leik og í hreinskilni sagt þá ættum við ekki skilið að komast neitt áfram ef við ætlum að halda áfram að spila svona....þannig að nú er ekkert annað í stöðunni en að taka sig saman í andlitinu og nota stuðninginn í höllinni, stuðninginn héðan heima og koma tvíefldir til baka í milliriðilinn.....gefumst aldrei upp þótt móti blási segir í laginu og ég hef enn trú á strákunum okkar.....koma svo Ísland!!!!!!!

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Ég er frík

Ok...ég veit að ég get stundum verið stórfurðuleg, ég tek upp á skrýtnum hlutum stundum eins og að telja hluti sem skipta akkúrat engu máli...og ég sem er ekki einu sinni sleip í stærðfræði.
Einu sinni var ég á leið til Akureyrar og mér leiddist og ég fór að telja stikur!!!!!!
Svo á ég það til að telja stafi í orðum og hætti ekki fyrr en ég fæ ákveðna tölu....svo lá ég einu sinni í hvíldinni í vinnunni og þar sem ég lá varð mér litið til lofts og þar eru plötur með svona rifum í og ég taldi allar rifurnar, lagði þær saman og margfaldaði!!!!!!!!!!!!!
Kom svo fram og hét því að segja aldrei neinum frá þessu!!!!
Nema hvað...um jólin lá ég uppi í rúmi þegar Gréta kemur og kúrir hjá mér. Allt í einu sé ég hvar hún fer að benda og telja og hvað haldiði???????????
Barnið er að telja plöturnar í loftinu hjá ömmu sinni og afa!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Ó já, sjaldan fellur eplið langt frá eikinni!!!

En....mér datt þessi della í gær, þar sem ég er haldin annarri ruglun en hún er sú að fara frekar þá leið þar sem ég get verið meira á ferðinni en þá leið þar sem ég þarf meira að bíða.....skiljiði???
Þegar ég fer heim úr vinnunni á ég það til að fara hinar ýmsu krókaleiðir, ekki endilega til að stytta mér leið heldur er minni bið...heldur en fara t.d. bara Miklubrautina og vera jafnlengi en þar þarf ég að bíða svo mikið....alltaf bíll við bíl.....en allavega...ég er svo búin að finna mér góða leið til að komast heim úr vinnunni og fer hana daglega og yfirleitt er engin umferð þar og eins og fáir viti af þessari leið NEMA í gær. Þá var allt á kafi í snjó og snjókoma og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að komast fljótt og vel heim en þá voru bara allir að fara mína leið...og ég þurfti sem sagt að bíða....og þar sem ég beið fylgdist ég með bílunum í kringum mig og ég get sagt ykkur það að af 20 bílum voru 6 sem voru búnir að skafa BARA af framrúðunni (ekki hliðarrúðunum, afturrúðunni, hliðarspeglunum eða ljósunum) og 4 sem voru búnir að skafa vel af bílnum sínum, restin var svona la la!!

Ég heyrði svo í morgun að það hefðu orðið í kringum 50 umferðaróhöpp í borginni og mér finnst það bara ekkert skrýtið, ef fólk nennir ekki að skafa af bílnum til að sjá betur út þá er ekki nema von að það lendi í óhöppum.
Mér finnst persónulega að það eigi að sekta fólk fyrir að skafa ekki almennilega af bílnum sínum!!

En nóg um ruglið...EM er að byrja og ég ræð mér ekki fyrir kæti...ÁFRAM ÍSLAND OG STRÁKARNIR OKKAR!!!!!!!!!!!!!!!!!

mánudagur, janúar 14, 2008

1 stk dverghamstur, takk fyrir!!

Þá kom að því....dóttir mín er smeyk við hunda og ketti en fékk tvo fiska þegar hún var 5 ára en þeir dóu.

Í haust fékk hún svo þá flugu í höfuðið að vilja endilega fá dverghamstur, og í fyrstu hélt ég nú ekki en hugsaði svo með mér að hún mætti nú alveg fá eitthvað lítið dýr sem hún hefði gaman af og sem væri ekki of erfitt fyrir hana að eiga og sjá um, hvað þá fyrir mig!!!!!!!!!!!!

Svo ég fór og kynnti mér dverghamstra og þeir eru svona líka þægilegir tíhíhí.....eru bara í búrinu og engin læti í þeim og lítil sem engin lykt.

Ég sagði svo Grétu að hún mætti fá dverghamstur er hún myndi geta safnað sjálf fyrir honum og búrinu. Stelpan er búin að vera svona líka dugleg að safna peningum svo sl. laugardag var hún komin með nóg og þá var bara að standa við stóru orðin...við örkuðum í Dýraríkið og sáum þar krúttlegan 2ja mánaða dverghamstur sem er svo ogguponsupínulítill og svona líka gasalega sætur!!! Gréta féll strax fyrir honum og ég meira að segja líka!!!

Nú, við versluðum búr og því fylgdi allt tilheyrandi; matardallur, hús og bómull til að setja í húsið, og hlaupahjól. Svo urðum við að kaupa sag í botninn, kalkstein, vítamínstein, mat og vítamíndropa í vatnið hans.
Gréta skírði hann svo MOLA en við vitum samt ekki kynið fyrr en hann verður 6 mánaða!!!

Gréta mín er með frekar lítið hjarta og þorir ekki enn að halda á krílinu og kippist við allar hreyfingar hans en henni finnst ákaflega gaman að fylgjast með honum. Fyrsta sólarhringinn hans hér áttum við að láta hann sem mest í friði, máttum fylgjast með honum en ekki vera að taka hann upp og passa að hræða hann ekki.

Stelpan í Dýraríkinu sagði okkur líka að dverghamstrar væru meira á ferðinni á nóttunni en á daginn og það hefur sko komið á daginn. Gréta var alltaf að kíkja á hann fyrsta kvöldið hans en hann var alltaf inni í húsinu og sást lítið og svona hefur þetta verið síðan hann kom. En á hverju kvöldi, þegar hún er sofnuð fer hann á kreik og hleypur eins og óður í hlaupahjólinu sínu :( greyið hún, missir alltaf af því. Í kvöld fór hún frekar seint að sofa og ég heyrði að hann var að hlaupa og hún stökk inn í herbergi, nokkrar ferðir, en hann hætti alltaf þegar hún kom!!!!!!!!

En það kemur að því að hann gerir þetta fyrir hana...hehehhehe....

Þannig að við erum bara komnar með lítinn sætan dverghamstur í fjölskylduna og hann er bara alger dúlla!!!

laugardagur, janúar 12, 2008

Púðinn fallegi




Í dag fékk ég þennan glæsilega púða sem Gréta mín gerði í Textíl í skólanum, svona líka ofsalega flottur hjá henni :)

Mikið sem maður er stoltur af barninu sínu, hún valdi ensku í vali í haust og er bara búin að læra helling af orðum auk þess sem ég reyni að kenna henni ný orð á ítölsku. Svo er hún afskaplega dugleg að lesa, skrifa, teikna, reikna og hún er bara svo vakandi og vel með á nótunum. Henni gengur vel í skólanum og á vini sem hún leikur við. Maður getur varla beðið um meira þar sem maður hefur sjálfur orðið vitni að því hvernig sumt í skólakerfinu virkar þegar eitthvað bjátar að hjá börnum...úfffff segi ég nú bara.

Mér datt þetta allt í hug í dag þegar ég horfði á endursýninguna á þættinum með Stephen Fry og geðhvarfasýkina og enn og aftur þakka ég fyrir að Gréta sé heilbrigð. Ótrúlegt að sjá og heyra með bræðurna tvo sem komu fram í þættinum og sjá magnið af lyfjunum sem þeir þurfa að taka, það tekur móður þeirra um klst á hverjum degi að gera lyfjaskammtin þeirra fyrir daginn. En ég er reyndar sammála því sem Stephen sagði að það hlýtur að vera betra að taka öll þessi lyf ef þau hjálpa manni heldur en vera eins og þeir eru án lyfjanna, ég meina sjá eldri manninn sem vill ekki auka lyfjaskammtinn og gekk í veg fyrir vöruflutningabíl, það var hrikalegt að sjá fótleggina á honum.

Það sem mér finnst samt ótrúlegast við svona þætti og eins við blogg og frásagnir þeirra sem glíma við allskonar veikindi og sjúkdóma er að margir þeirra segjast oft ekki viljað hafa misst af þessari reynslu, þetta kennir þeim öllum eitthvað og þessi maður í þættinum einmitt var búinn að missa allt en sagðist samt ekki vilja hafa verið án þessa sjúkdóms.....ég get ekki skilið það og mun ekki skilja það nema lenda í þessum aðstæðum sjálf.
Ég held að það séu sérstakar persónur sem lenda í svona aðstæðum, eða kannski eru það einmitt aðstæðurnar, veikindin eða sjúkdómarnir sem gera fólk að því sem það er, svona sérstakt?
Ég veit það er ekki fallegt að segja svona en ég er fegin á meðan það er ekki ég, held ég sé alls ekki nógu sterk til að takast á við alvarleg veikindi/sjúkdóm.

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Back to school ;)

Jæja...þá er komið að því að fara aftur í skólann eftir stutt hlé frá námi en langt hlé frá þessu námi ;)
Í fyrramálið byrja ég aftur í ítölsku í HÍ eftir 8 ára hlé...huhumm.....fæ allar 32, 5 einingarnar mínar metnar og á þá bara 27,5 einingar eftir í 60 einingar...það er ekkert svo mikið!!!! Þarf svo að skoða 30 einingar í viðbót og þá er BA prófið í höfn...held ég??????????

Ég er gasalega spennt og hlakka ofsalega mikið til að byrja aftur og ekki skemmir að það er sami kennari sem kennir mér núna og kenndi mér 1999-2000 og hann er gasa hress og skemmtilegur. Svo er bara að vona að það sé jafn skemmtilegt fólk og ég sem er í þessum kúrsum hahahahaha. Haustið 1999 var Ingunn með mér og það var sko ekki leiðinlegt skal ég segja ykkur, en ég hlakka samt til að fara ein og óstudd og kynnast nýju fólki og læra meira.
Ég tek bara tvö fög, Ítalskt mál og málnotkun 4 og Ritun 2, gaman gaman...gott að byrja rólega, tvö fög og bara 1x í viku!!!

Ég er samt svo skrýtin og vil oft það sem ég ekki get fengið, akkúrat núna er ég svo spennt fyrir náminu og hlakka svo til að ég myndi helst vilja fara á fullt í ítölskuna í HÍ og klára þetta...en maður lifir víst ekki á loftinu einu saman og ég vildi óska að ég gæti fengið launin mín en samt verið í námi, væri það ekki dásamlegt, að fá borgað (þurfa ekki námslán og/eða yfirdrátt) fyrir að vera í námi?????
En ég á svo skemmtilega vinnufélaga að ég veit að ég myndi sakna þeirra voðalega ef ég hætti og færi á fullt í nám.
Ég er því núna í svona haltu mér-slepptu mér ástandi þar sem það eru spennandi tímar framundan í vinnunni, eitthvað sem ég myndi alls ekki vilja missa af.....úfffff....af hverju finnst manni grasið oft grænna hinu megin???

Hef því í huga þessi fleygu orð.....You can´t always get what you want....vitandi samt að ég fæ það sem ég vil með einhverju móti og góðir hlutir gerast hægt!!! Þolinmæði og skipulag eru lykilorð í þessu samhengi :)

En jæja...er farin að sofa.....mikilvægur fyrsti skóladagur á morgun...hehhheheehe.....buona notte!

laugardagur, janúar 05, 2008

Árið 2007 - uppgjör ;)

Árið 2007 var mér alveg hreint hið ágætasta, betra en 2006 fannst mér, ég var glöð að sjá árið 2006 hverfa og nýtt taka við þar sem ég var eitthvað deprimeruð í lok árs 2006. Ég var reyndar líka eitthvað niðurlút í lok 2007 en samt öðruvísi....æææææ...þetta meikar engan sens.
Alla vega sá ég smá eftir gamla árinu þegar það hvarf af skjánum en ég hlakka líka til ársins 2008, held það verði merkilegt og skemmtilegt....er hrifnari af sléttum tölum!!!!!!!

Alla vega...árið 2007 var fínt og ég gerði margt skemmtilegt á því ári, ég byrjaði í ræktinni eftir ansi langt frí og skemmti mér bara ágætlega enda í frábærum félagsskap Ingunnar ;).

Nú svo gerði ég svakalega skemmtilegt lokaverkefni í KHÍ með alveg hreint frábærum stelpum, þeim Villu og Sollu og svo útskrifuðumst við með stæl í júní. Ég sótti um í Mastersnám í menntunarfræðum í Kennó, fékk inn en hætti við. Sótti um ítölsku í HÍ og fékk inn og byrja á fimmtudaginn.....hlakka bara mikið mikið til!!!!

Árið 2007 fór ég í nokkrar fermingar, eitt gæsapartý, eitt brúðkaup og eitt brúðkaupspartý (á Ítalíu).

Tvær utanlandsferðir voru farnar á árinu, ég, Gréta og Óli bróðir fórum til Tenerife í 2 vikur og höfðum það gasalega svakalega gott og svo skruppum við Ingunn til Ítalíu í 10 daga þar sem ég hitti marga vini og lét Tarot spána frá því í Róm 2007 rætast ;)
Ítalska fjölskyldan mín kom til mín og var hjá mér í 2 vikur og við ferðuðumst um landið og Marco og Jorunn komu í sólarhringsferð til okkar.
Dóra Hanna, Sighvatur og synir komu líka heim í sumar og hittumst við aðeins og mér þykir alltaf svo vænt um það!!
Kristborg frænka kom heim frá Svíþjóð í ferminguna hennar Söru, alltaf gott að sjá hana líka.

Nú, ég las slatta af bókum sl. ár en ætla að bæta um betur og lesa allavega 35 bækur á þessu ári plús kannski nokkrar skólabækur!!!

Menningarlífið mitt var ágætt, skellti mér á nokkra tónleika m.a. Josh Groban, Andrea Bocelli, Eivör og Stórsveit Reykjavíkur, Léttsveit Reykjavíkur, Jólagestir Björgvins Halldórssonar og Kvennakóratónleikar í Hallgrímskirkju svo einhverjir séu nefndir.
Skrapp nokkrum sinnum í bíó en var frekar slök í leikhúsferðum og ætla að bæta úr því á nýju ári vegna þess að það er það skemmtilegasta sem ég geri.

Við mæðgur fluttum í aðra íbúð í október og erum bara búnar að koma okkur þokkalega vel fyrir.

Og til að toppa þetta alltsaman fékk ég dásamlegan prins í afmælisgjöf frá Hörpu og Jóni Gunnari

Svo ég hef ekki undan neinu að kvarta, er við hestaheilsu, á yndislega dóttur og góða fjölskyldu og vini og þakka Guði og góðum vættum fyrir það ;)
Hlakka því bara til að taka því sem árið 2008 færir mér ;)

föstudagur, janúar 04, 2008

Janúarbyrjun

Enn einum jólunum að ljúka, enn ein áramótin að baki og enn einn janúar tekinn við. Ég þakka fyrir að fá að vera hér, að sjá og finna tímann fljúga áfram sérstaklega er ég hugsa til þess að í dag, 4.janúar, eru 9 ár síðan Kristbjörg mín dó, 9 ár....hugsa sér.
Ég finn það nú að tíminn læknar og söknuðurinn er öðruvísi en hann er samt alltaf til staðar.
Ég hugsa mikið til hennar og hún berst oft í tal, hvort sem ég er hjá mömmu eða í góðra vina hópi. Þannig lifir minning hennar í hjarta mínu. Ég er líka með mynd af okkur saman og kveiki á kerti nánast á hverju kvöldi, svo hún er aldrei langt undan þessi elska.
Ég fer alltaf að leiðinu hennar þegar ég er í Vestmannaeyjum og fer þá oftast með kerti eða blóm (fer eftir árstíðinni) og einn lítinn hlut (engil eða garðálf eða eitthvað þannig).
Mér þykir gott að koma við hjá henni og setja eitthvað fallegt á leiðið hennar en mér finnst það samt alltaf erfitt og óréttlátt að hún skuli hafa þurft að yfirgefa okkur. Þó þykist ég viss um það að hennar beið afar mikilvægt hlutverk á þeim stað sem hún er í dag, þótt okkur sé kannski ekki ætlað að skilja það.

Ég ákvað að fara í kirkjugarðinn kl.14 á aðfangadag (hef aldrei gert það áður) en þá eru prestarnir í kirkjugarðinum og segja nokkur orð og svo fer fólk að leiði ástvina. Þetta var falleg stund og ég var ánægð með að hafa drifið mig. Ég fór svo að leiðinu hennar og setti kertið mitt þar og stuttu seinna komu þar foreldrar hennar, systkini og frændsystkini. Það var ljúfsárt að standa með þeim þarna við leiðið hennar, ég var ánægð að hitta þau en ég neita því ekki að það var erfiðara en að vera ein hjá henni þar sem ég finn svo til með þeim. Ég gat ekki hætt að hugsa um að svo gæti ég farið heim og verið í faðmi allrar fjölskyldunnar minnar, og á leiðinni frá leiðinu streymdu tárin.

Þrátt fyrir að tíminn lækni og deyfi þá er það samt sem áður á svona stundum, hátíðum og merkistímum sem maður saknar hennar meira, eða öðruvísi.
Ég hugsa líka til þess hvernig vináttu okkar væri háttað í dag ef hún væri hér enn í dag.

Guð geymi þig elsku vinkona.