föstudagur, janúar 04, 2008

Janúarbyrjun

Enn einum jólunum að ljúka, enn ein áramótin að baki og enn einn janúar tekinn við. Ég þakka fyrir að fá að vera hér, að sjá og finna tímann fljúga áfram sérstaklega er ég hugsa til þess að í dag, 4.janúar, eru 9 ár síðan Kristbjörg mín dó, 9 ár....hugsa sér.
Ég finn það nú að tíminn læknar og söknuðurinn er öðruvísi en hann er samt alltaf til staðar.
Ég hugsa mikið til hennar og hún berst oft í tal, hvort sem ég er hjá mömmu eða í góðra vina hópi. Þannig lifir minning hennar í hjarta mínu. Ég er líka með mynd af okkur saman og kveiki á kerti nánast á hverju kvöldi, svo hún er aldrei langt undan þessi elska.
Ég fer alltaf að leiðinu hennar þegar ég er í Vestmannaeyjum og fer þá oftast með kerti eða blóm (fer eftir árstíðinni) og einn lítinn hlut (engil eða garðálf eða eitthvað þannig).
Mér þykir gott að koma við hjá henni og setja eitthvað fallegt á leiðið hennar en mér finnst það samt alltaf erfitt og óréttlátt að hún skuli hafa þurft að yfirgefa okkur. Þó þykist ég viss um það að hennar beið afar mikilvægt hlutverk á þeim stað sem hún er í dag, þótt okkur sé kannski ekki ætlað að skilja það.

Ég ákvað að fara í kirkjugarðinn kl.14 á aðfangadag (hef aldrei gert það áður) en þá eru prestarnir í kirkjugarðinum og segja nokkur orð og svo fer fólk að leiði ástvina. Þetta var falleg stund og ég var ánægð með að hafa drifið mig. Ég fór svo að leiðinu hennar og setti kertið mitt þar og stuttu seinna komu þar foreldrar hennar, systkini og frændsystkini. Það var ljúfsárt að standa með þeim þarna við leiðið hennar, ég var ánægð að hitta þau en ég neita því ekki að það var erfiðara en að vera ein hjá henni þar sem ég finn svo til með þeim. Ég gat ekki hætt að hugsa um að svo gæti ég farið heim og verið í faðmi allrar fjölskyldunnar minnar, og á leiðinni frá leiðinu streymdu tárin.

Þrátt fyrir að tíminn lækni og deyfi þá er það samt sem áður á svona stundum, hátíðum og merkistímum sem maður saknar hennar meira, eða öðruvísi.
Ég hugsa líka til þess hvernig vináttu okkar væri háttað í dag ef hún væri hér enn í dag.

Guð geymi þig elsku vinkona.

1 Comments:

At 8:12 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fallegur pistill Íris Dögg.

Já, ætli tíminn græði ekki eitthvað þó hann lækni kannski ekki alveg.
Það er ótrúlegt að liðin séu 9 ár og ég get rétt ímyndað mér að það sé stundum erfitt að hugsa þessar "hvað ef" og "hvernig ætli" spurningar sem eðlilega brenna á manni...

Knús til þín!

 

Skrifa ummæli

<< Home