fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hómópatinn, Hraðinn, og Hitinn!!!!

Jæja, þá er hómópataheimsóknin að baki!!

Je minn eini hvað þetta var geggjað! Ég var semsagt í 1 1/2 tíma hjá hómópatanum í dag, tengd við tölvu sem sagði hitt og þetta um mig, og fann hitt og þetta út!! Ég átti ekki til orð yfir sumu, eins og t.d þegar hún lét mig setja hægri höndina út og svo setti hún hin ýmsu efni í krukku/poka og setti við kinnina á mér og ýtti svo á hendina á mér...ef það voru efni sem ég þoli ekki þá gat ég ekki veitt viðnám!!! Hversu skrýtið sem það hljómar!!

En við komumst semsagt að því að ég á að halda mig frá MJÓLK (og mjólkurvörum), SALTI, Camenbert (sem ég borða hvort eð er ekki!!), appelsínum og appelsínusafa!! Síðan þoli ég ekki umhverfismengun...og gras!!! Þetta með mjólkina verður mér erfitt....egin mjólk, ekkert jógúrt, skyr né súrmjólk!! Hvað á ég að setja á Cheerios-ið?? Eða drekka með ristuðu brauðsneiðinni??
Hehehehe....strax byrjuð í sjálfsvorkuninni!!!!!

Þannig að næstu 3 vikurnar ætla ég að reyna að sneiða eins mikið og ég get framhjá þessum vörum og skrá það sem ég borða og hvaða (ef einhver) áhrif það hefur á mig!!! Ásamt því að nota "Remedíurnar" (pillurnar) sem ég fékk.....það verður spennandi að sjá hvað verður því ég á að koma aftur eftir 3 vikur!!!! Spennandi tímar framundan!!!!

Hraðinn...

... mér finnst svo fyndið þegar er verið að ræða um hraðann í samfélaginu...ég sem hélt að hver og einn réði sér sjálfur og stjórnaði sínu lífi?? Ég segi alla vega fyrir mig...að ég skil ekki alveg undan hverju allir eru að kvarta...við veljum okkur sjálf ákveðinn lífstíl og líf okkar mótast af því. Í dag þegar hómópatinn var að spyrja mig spjörunum úr fór ég að velta þessu betur fyrir mér...ég hugsa þetta þannig að ég er í burtu frá dóttur minni í 8 1/2 tíma á dag og get svo ekki farið að fara með hana í pössun (þótt hún sé á staðnum) á meðan ég t.d fer í leikfimi af því síðan á ég eftir að læra og gera hitt og þetta á heimilinu!!

Ég er frekar róleg og jarðbundin...með jafnaðargeð og tek afar lítinn þátt í lífsgæðakapphlaupinu, ég á það sem mig vantar og er ekki að keppast um að eiga flatskjá, uppþvottavél og þurrkara, matvinnsluvél, heimabíó og húsgögn fyrir fleiri hundruð þúsund krónur....til þess eins að þurfa að vinna eins og skepna fyrir því....nei takk...þá vil ég frekar eyða tíma og peningum í að vera með dóttur minni!!! Hvernig fer þetta lið í Innlit-Útlit að þessu??
Ég hef lítinn skilning og litla samúð með þeim sem tala um hvað hraðinn í þjóðfélaginu sé mikill...þetta er lífstíll sem fólk skapar sér!!! Fólk tekur ákvarðanir um að eignast börn og þau þurfa tíma...það er eitt sem víst er!!!

Æ best ég hætti hér áður en fer að færast hiti í leikinn.....

Hitinn...

...talandi um hita....mikið svakalega er veðrið búið að vera gott...ég talaði við fólkið mitt á Ítalíu um daginn og þar var 13 stiga hiti en 14 stiga hiti í Reykjavík...segiði svo að við höfum það ekki gott!!!
Við Gréta fengum mikið af léttum klæðnaði frá bræðrunum þegar þeir komu frá Ameríkunni...svo við erum tilbúnar fyrir sumar og sól.......Mmmmmmmmmmmm!!!!!

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Hor og slef...

...spennandi fyrirsögn eða hvað?? En það er nú orðið mitt aðalsmerki...HOR...fyrir ca. 10 árum vorum við Harpa vinkona mín í Kringlunni þar sem ég bað hana að koma með mér í apótek og þá segir Harpa þessi orð: Íris, það er tvennt sem minnir mig á þig, varasalvi (í bláu dósunum...sem ég var orðin háð á tímabili) og HOR!!!! Skemmtileg orð t.d í minningagrein, hvað finnst ykkur??

En þannig er mál með vexti að í fjölda ára hef ég þjáðst af krónísku kvefi og ósjaldan fylgir þessu mikil stífla í nefi og kinnholum ásamt miklu slími og hósta...skemmtilegt? Ó nei...þetta er frekar þreytandi til lengdar og nú er nóg komið!!! Ég er búin að fara til lungnasérfræðings, fá astmalyf, fara til Háls-nef og eyrnalæknis sem lét mig fá steratöflur í massavís...sem ég gleypti þar til leið yfir mig!!! Ofnæmispróf....rykmaurafrí rúmdýna....astmasæng.....nefnið það og ég hef reynt það!!
Það sem virkar einna helst er gamla góða Vicks!! Að bera það á bringu og bak, troða því í nefið og undir, á kinnbeinin og svona...virkar best fyrir mig!!!!
Ég fæ nefnilega stundum millirifjagigt....af áreynslu við að hósta... og hver nennir þessu endalaust??? Þannig að nú er það hómópatinn...ég á tíma á miðvikudaginn...bíð spennt eftir því að heyra hvað hún hefur að segja um ástand mitt!!!

Dóttir mín...

...er náttúrulega bara yndisleg!!! Á meðan ég hef verið hálf ofan í WC-skálinni að kasta upp slími hefur hún verið í hjúkrunarkonu-hlutverkinu!! Hún vildi endilega að ég færi á undan sér uppí rúm svo hún gæti breytt ofan á mig....ææææææ.....músí-krúsí....og svo vildi hún endilega færa mér vatn...það væri svo gott þar sem það væri glært (hvaðan sem sú speki kemur)!!!! Svo sagði hún mér bara að vekja sig ef ég vildi meira vatn, það væri sko í góðu lagi!!!
Mikið er maður ríkur....gerir maður sér nægilega grein fyrir því dagsdaglega?????


Bræður mínir...

...enn sannast máltækið "ber er hver að baki nema sér bróður eigi" í mínu tilfelli BRÆÐUR....þeir komu semsagt heim frá New York með þvílíkt af gjöfum....Gréta þarf ekki ný föt í bráð og ég verð náttúrulega mesta Nike-skvísan á ströndinni í ágúst......nema hvað :) (kem að þessu seinna!!) Takk elskurnar...þið eruð bestu bræður í heimi....knús og kossar!!!!

Jæja...Survivor er að byrja......má ekki missa af því!!!!!

sunnudagur, apríl 24, 2005

Furðufréttir!!

Góðmenninn...

...sá í fréttunum í gær konu sem tók það að sér að gefa tveimur tígrisdýra-ungum brjóst þar sem þeir voru teknir frá mömmunni því hún át einn ungann!!! Ungunum gekk illa að drekka úr pela og því bauðst þessi annars ágæta kona til að gefa þeim brjóst þar sem hún átti barn fyrir 7 mánuðum og átti nóg af mjólk fyrir alla!!! Hvar værum við án þessa góða fólks???

Illmenninn...

..eru því miður líka til...menn fyrir norðan fara með ungan mann lengst úr í rassg...láta hann afklæðast og skjóta hann svo með loftbyssu...hér á litla landinu okkar..hvað er að gerast hér eiginlega?? En jæja, svo játa mennirnir, sem eru jafnframt á skilorði, og þá mega þeir bara fara...já hérna hér...ég segi nú ekki annað!!! Finnst ykkur þetta hægt?? Brjóta bara af sér, játa það og þá er málið dautt...(eða svo gott sem).
Sem betur fer þekki ég engann sem er svo illa innrættur, né nokkurn sem þarf að eiga samskipti/viðskipti við svona fólk (vona ég)...Hvert stefnir þetta allt saman?

Furðumenninn...

...eru til dæmis þau sem ég sá í fréttunum í kvöld......5 ára barn í skóla í Flórída fær æðiskast og lögreglan er kölluð til og hún handjárnaði barnið!! Og það tók alveg þrjá stóra og stæðilega lögreglumenn til!!!! Hvað haldiði að myndi gerast ef þetta yrði gert hér???

Já það er margt skrýtið í kýrhausnum!!!!!

föstudagur, apríl 22, 2005

Gamlir dagar...

...lét loksins verða af því að fara með dóttur mína á Þjóðminjasafnið í dag...mikið afskaplega var það gaman. Þetta er afar fallegt safn og mikilvægt fyrir litla Ísland að varðveita söguna vel. Á safninu var mikið um leikföng síðan í gamla daga og það sem vakti mesta lukku hjá Grétu minni var sviðakjammi...pabbi var nefnilega með svið um daginn og hreinsaði beinið vel og gaf Grétu og sagði henni að svona hefðu leikföngin hans verið. Hún keypti líka tvo miða á hlutaveltu og fékk fjöður sem var penni og víkinga-armband. Það er svo margt sniðugt þarna og ekkert mál að fara með börnin, það er söguhorn þar sem Kristbjörg Kjeld segir þjóðsögur (Búkollu, Gilitrutt, Fóu feykirófu og fleiri). Svo mega börnin prófa víkingahjálm, sverð, skjöld, máta föt og fleira.
Síðan var færiband sem á voru hlutir frá 1900 -2000, mjög sniðug uppsetning!!
Hvet ykkur eindregið til að kíkja á Þjóðminjasafnið!!!

Sumarið er tíminn...

...þegar maður getur verið léttklæddur, þarf ekki að skafa og leyfir sér að vera ögn kærulaus. Spillir barninu sínu með ísbíltúrum, leyfir því að vaka þar til sólin sest...til að sjá bleikan og fallegan himininn...fer í sund, í göngutúra/hlaupahjóla og svona skemmtilegt!!! Ohhhh hvað ég hlakka til!!! Það eina sem ég hlakka ekkert sérstaklega til er að þurfa að kljást við geitungana og hunangsflugu-hlunkana sem by-the-way eru mættir!! Sá tvær í dag og váts.......!!!!! En þá er bara að nota djús-trikkið og tómataplöntur í alla glugga...takk fyrir!!!

Sem betur fer er að koma sumar...þá léttist líka lundin....og ekki verra að vita af utanlandsferð í lok sumar....rúsínan í pylsuendanum!!!!

Gleðilegt sumar :)

sunnudagur, apríl 17, 2005

Léttara hjal.....

...því síðustu pistlar mínir hafa verið nokkuð þungir!!!

Allt í drasli hvað???

Ég er frekar ánægð með mig í dag.....búin að "sjæna" heimilið mitt nokkuð vel...mér blöskraði nefnilega um daginn þegar dóttir mín spurði hvort við ættum ekki bara að fá "Allt í drasli"-liðið heim til okkar til að gera fínt!!!!! Ég hélt nú ekki, ég gæti þetta alveg sjálf...bara spurning um að koma sér í það....en það er nú bara einu sinni þannig að ég er að vinna 100% vinnu, kem svo heim og þá þarf að þvo og elda og ganga frá hinu og þessu, sinna barninu og svo læra og þar af leiðandi verður eitthvað að sitja á hakanum....og ekki vil ég að það sé dóttir mín sem situr þar!!! Reyndar verð ég að taka það fram að Þórir er duglegur að hafa Grétu svo ég geti lært í friði og hafi ekki samviskubit yfir að geta ekki sinnt henni 100% og pabbi er ansi liðtækur í eldhúsinu!!
En semsagt...í dag ákvað ég að taka mér tak og fínpússaði allt...nema stofuna... því Gréta mín var í svo skemmtilegum leik þar...skúraði og gekk frá fötum, setti í þvottavél og soddan...svo "Allt í drasli" veriði bara velkomin!!!! Heheheh......

Ameríkufararnir...

...bræður mínir ásamt fríðu föruneyti fóru til New York í gær....verður án efa geggjað stuð. Diddi bróðir og Hlynur félagi hans voru búnir að panta sér miða á tvo körfuboltaleiki...enda sjálfir miklir körfuboltasnillingar...og Óli ætlaði að sjá Lion King einhversstaðar!!! Svo verður náttúrulega borðaður góður matur....Öfundsjúk.....neeeei, nei.....ekkert mikið :)

Talandi um Óla...hann þekkir náttúrulega heilan helling af fólki og pæliði í því...hann er að fara í FRÍ í viku og fólk var að koma með þvílíku listana og biðja hann að kaupa hitt og þetta...HVAÐ ER AÐ?? Það er eins og það fáist bara ekki neitt á landinu (þótt það kosti reyndar aðeins meira)....þetta er sko kaupæðaDELLA af verstu gerð...maðurinn vinnur eins og brjálæðingur og ætlar í FRÍ og endar svo á því að taka lista og hluti til að kaupa og skipta í Ameríku....Óli minn þú ert alltof greiðvikinn elskan!!!!

Ég sendi hann ekki með neinn lista...það eina sem hann MÁTTI gera var að finna búning fyrir Grétu því hún ætlar að hafa grímubúningapartý þegar hún verður 5 ára!! En ef ég þekki bróður minn rétt þá verður nú eitthvað meira í pokahorninu þegar hann kemur...og eflaust hjá Didda líka...enda eru þeir með eindæmum frábærir bræður.....ég gæti ekki hugsað mér betri bræður...!!!!!!

Læt þetta verða lokaorðin í dag....lifið heil!!!!!

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Jay Leno...

...er að mörgu leyti svakalega skemmtilegur og fyndinn en undanfarið hef ég fengið óbeit á honum...eða öllu heldur því hvernig hann gerir grín að Michael Jackson málinu...ekki það að ég styðji Michael Jackson, heldur finnst mér það sem hann er ásakaður um ekki neitt grín :(
Brandararnir eru ekki við hæfi því Jay Leno gerir grín að því sem fullt af fólki og þar á meðal BÖRN hafa upplifað í raun og veru og finnst ekkert fyndið.
Það er ekkert fyndið við kynferðisafbrot og allra síst gagnvart börnum. Á undanförnum dögum hefur þetta verið mikið í umræðunni og ég undrast það alltaf hversu hátt hlutfallið er hérlendis, hversu mörg börn hafa upplifað þetta og hversu hörmulegt það hlýtur að vera.

Sá myndina "Lilja-4-ever" fyrir nokkrum mánuðum...Ó guð...hvað hún var sorgleg og það sorglegasta var að hún var sönn og þetta er að gerast allt í kringum okkur virðist vera.

Mér finnast systurnar sem standa að baki samtakanna Blátt áfram eiga heiður skilinn og þær eru að kynna þessi málefni vel og vandlega og vita alveg um hvað þær eru að tala. Þær sendu bæklinga inn á heimili þar sem foreldrum er leiðbeint um hvernig ræða megi þetta málefni við börnin sín....sannarlega þörf á því...frábært framtak hjá þeim!!

Opna þarf umræðuna og það sem ég vil sjá gerast er að þessir aumingjans menn sem fara svona með börnin sín, frændsystkini, barnabörn eða önnur börn ættu að fá lífstíðardóm...ég meina það.
Ég er meðfylgjandi því að fangar fái betrun, tækifæri til að mennta sig innan veggja fangelsisins og bæta sig því hér virðast dómar ekki vera svo langir og þessir menn koma aftur út í samfélagið. EN þessa menn, sem leggja líf ungra barna í rúst, má alveg bara loka inni og pynta endalaust mín vegna. Auðvitað eru þetta veikir einstaklingar og hafa oft sjálfir mátt þola það sem þeir láta aðra þola...en það er sama. Hvað er hægt að gera???

Ég er hlynnt því að mál þeirra fyrnist aldrei...ekki gróa sár barnanna..af hverju ættu þeir þá ekki að gjalda fyrir gjörðir sínar...ég skil ekki að þingmenn styðji ekki þetta frumvarp???

En jæja...ætlaði ekki að valda neinni depurð hér en þetta eru nú staðreyndir lífsins.....reyni að finna meira upplífgandi efni á næstunni.......

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Vistvernd...

...er ákaflega spennandi og gott fyrir alla að gera sér grein fyrir því hvað er gott og hvað er vont fyrir umhverfið. En það er dálítið erfitt að ætla að vera vistvænn og flokka ruslið sitt og svona þegar maður býr í lítilli íbúð og er ekki með geymslu og svona...eða hvað?? Er það kannski bara frábær afsökun??

Ég safna til dæmi alltaf dósum, gler-og plastflöskum og svona og fer með það í endurvinnsluna...ein stutt saga um það...ég fór með fullt af dósum og flöskum í desember og þar á meðal var ein ólífuolíuflaska. Maðurinn í endurvinnslunni hellti úr pokanum og sá flöskuna, skrifaði fjöldann á blað og sagði mér svo að ólífuolíuflaskan væri ekki talin með. "Allt í lagi" svaraði ég og hélt að ég mætti samt koma með svona flösku þangað, ég fengi bara engar krónur fyrir hana.
Svo ég, í sakleysi mínu, fer í næstu ferð með flöskur og dósir og tel þetta allt samviskusamlega og þegar maðurinn sturtar úr pokanum segir hann að hann telji bara 4 því ólífuolíuflaskan góða teljist ekki með. Ég þóttist svaka klár og sagðist nú vita það, mér hafi verið tjáð það síðast, en þá segir hann að ég verði að fara með svona flöskur í Sorpu, þeir hjá endurvinnslunni verði að borga sjálfir fyrir svona flöskur sem koma til þeirra. Ég var mjög kurteis (eins og mín er von og vísa) og sagði að það væri nú allt í lagi að segja almenningi það (og ætlaði þá að forðast að gera þessi mistök aftur næst) og þá hreytti hann því bara í mig að þeir væru alltaf að segja okkur þetta en við færum bara ekkert eftir því!!! Já takk fyrir það...sagði ég nú bara!!!
Í kvöld var ég svo að telja dósir og gler og var alvarlega að spá í að læða einni ólífuolíuflösku með.....en ákvað að sleppa því í þetta sinn!!

Ég safna semsagt dósum, og safna líka alltaf öllum blöðum sem koma inn um lúguna og fer svo með það í blaðagám...ég hendi þeim þó stöku sinnum í tunnuna því það er svo óhemju mikill pappír sem kemur inn um lúguna að það er ekki eðlilegt...ég þyrfti helst að fara annan hvern dag í gáminn ef ég ætlaði ekki að hafa poka með blöðum út um allt heimilið....að ég tali nú ekki um mjólkurfernurnar, hef aldrei lagt í að safna þeim!!!
Ég má hins vegar eiga það að ég spara rafmagnið...ég hef ekki logandi ljós í herbergi sem ég er ekki að nota, ég hef alltaf vanið mig á að slökkva á eftir mér!!! Ég reyni líka að stilla hitanum á ofnunum í hóf og svona.
Rafhlöður set ég í kassa og fer svo með á bensínstöð!! Ég hendi ekki rusli á víðavangi og hvað þá tyggjói (sem tekur 50 ár að leysast upp!!).

Í vinnunni höfum við reynt margoft að vera vistvænar...okkur gengur vel að spara pappírinn þegar við tökum okkur til, förum með fernur í fernugáminn, og lengi vel vorum við með úrgangskassa...hentum þar afgangsmat (við mismikla hrifningu starfsmanna reyndar) og bjuggum til mold!!! Því miður hefur það ekki gengið sem skyldi :(

Mín skoðun er sú að til þess að fleiri verði virkir þurfi að auðvelda fólki þessa flokkun, fá fleiri ruslatunnur við heimilin, (jafnvel eina fyrir blöð og fernur) eða hafa þetta allt á einum stað. Mér finnst fullmikið að fara í endurvinnsluna með það sem má fara þangað, blöð og fernur í gáma sem eru oftast við bensínstöðvar og svo ólífuolíuflöskur í Sorpu!!!!! Af hverju er ekki bara ein allsherjar endurvinnslustöð þar sem má fara með þetta allt saman???

Já...þær eru margar vangavelturnar í lífinu....

Góða nótt!!!!

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Imbinn...

...getur nú fengið mann til að velta ýmsu fyrir sér...t.d í kvöld var ég að horfa á CSI....þar var atriði þar sem nýja gellan segist aldrei borða úti því....kokkarnir tali saman yfir matnum í eldhúsinu...þjónarnir endurtaka pantanir yfir borðunum og svo mætti áfram telja....mikið af DNA-sýnum á einum diski eins og það var orðað...ég hef ekki beint pælt í þessu svona...
Hún talaði líka um að hún borðaði aldrei afmæliskökur....þar sem allir væru búnir að blása á kertin!! Mér finnst þetta nú frekar mikill tepruskapur.....nánast eins og Michael Jackson-syndrome....en fær mann kannski til að hugsa....eða ekki!!!

Raunveruleikaþættirnir í sjónvarpinu

...allt er gott í hófi, ég horfi mikið á sjónvarp og glápi á Survivor, America´s Next Top Model, og svona EN... The Swan....hvað er það????? Ég sá hluta af þætti og hugsaði þá með mér: Nei Íris, hingað og ekki lengra...hér setur þú mörkin!!!!"
Mér finnst þetta ekki í lagi ...hversu lágt leggst fólk... þarna er verið að hafa fólk að fífli finnst mér...ég sá í einum þættinum sálfræðing sem sagðist ekki viss um að konan myndi komast í lokakeppnina því hún væri svo reið og þyrfti að vinna úr margra ára bældri reiði....svo eru konurnar þarna í 3 mánuði og sjá hvorki sjálfa sig né fjölskylduna í þann tíma, en eru fylltar af hinum og þessum efnum á hinum og þessum stöðum... svo er fitan soguð af þeim, tennurnar lagaðar, nefið lagað, pokar hér og þar fjarlægðir og svona mætti lengi telja...en mér er spurn...hvernig fjarlægja þeir margra ára bælda reiði á 3 mánuðum??? Er það sogað út með fitunni eða...??
Þetta er nú meira bullið....en sem betur fer er ON og OFF takki á sjónvarpinu/fjarstýringunni og manni er í sjálfvald sett hvað maður horfir á!!!! Ég hef sem betur fer nokkurn sjálfsaga og beiti honum á mig þegar svona vitleysa herjar á mann....

Mér finnst samt fyndið hvað fólk talar mikið um sjónvarpið og áhrif þess en gerir samt ekkert í því, ég meina fólk þarf ekkert að glápa á sjónvarpið, það má slökkva á því og grípa í spil eða annað..og það gerist ekkert hræðilegt þótt sjónvarpið sé OFF.... það er einna helst að maður er ekki viðræðuhæfur í kaffistofunni í morgunsárið en so be it!!!!

En jæja....best að fara að OFFa á mínum imba og fara í háttinn....Góða nótt!!!

mánudagur, apríl 11, 2005

Orð kvöldsins

Blessuð börnin...hvað þau eru nú yndisleg...ég hef farið með Grétu í sunnudagaskólann síðan um vorið 2003, þá var hún að verða 3ja ára. Mér datt ekki í hug að fara með hana fyrr, þótt hún hafi verið mjög góð og stillt og ekki átt í neinum vandræðum með að sitja kyrr...mér finnst það heldur ekki aðalmálið...mér fannst hún líka verða að hafa einhvern skilning á því sem var að gerast og hafa áhuga á því að taka þátt.

En alla vega...mér finnst t.d að maður eigi að fara í betri fötin þegar maður fer í kirkju og við mæðgur höfum alltaf "puntað" okkur áður en við förum í sunnudagaskólann. Mér finnst líka að foreldrar verði að taka þátt með börnunum sínum, sérstaklega þeim sem yngri eru og hafa ekki alveg sama úthald og þau eldri. Margir foreldrar sitja bara og leyfa börnunum sínum að hlaupa fram og til baka í kirkjunni á meðan presturinn er að tala, predika eða hvað það er sem hann er nú að gera. Eins í sunnudagaskólanum sjálfum, þótt stjórnendur skólans nánast segi foreldrum að taka börnin sín í fangið og fá smá ró á liðið þegar verið er að biðja, þá tekur fólk það ekkert til sín, og sumir setjast ekki einu sinni með börnunum sínum!! Ég er ekki að segja að börnin eigi bara að sitja og þegja, þau fá mikið að hreyfa sig því það er mikið um hreyfilög og þau eru hvött til að standa og taka þátt.

Kirkjan er friðarstaður og ef foreldrar eru að koma þangað til að kenna börnunum sínum bænir og fallega söngva og fleira þá verður það að leiðbeina börnunum, ekki leyfa þeim að hlaupa út um allt og trufla aðra. Þó verður að segjast eins og er að sögurnar og umfjöllunarefnið í sunnudagaskólanum er oft nokkuð þungt, jafnvel þótt búið sé að "sníða" það að börnunum, svo skiljanlega hafa börn um 2ja ára aldurinn ekki þolinmæði til að sitja allan tímann...en má kannski þá ekki bara bíða með að fara með barnið í sunnudagaskólann þar til það hefur aldur og þroska?? Ég fór allavega ekki með mína fyrr en ég taldi að hún hefði ánægju af því og fattaði hvað var um að vera...hún hefur verið til fyrirmyndar (þótt ég segi sjálf frá) og ég tel að það sé líka vegna þess að til að byrja með sat ég með henni á gólfinu innan um hin börnin og hjálpaði henni að einbeita sér að lögunum og hreyfingunum...og að hlusta. Kannski hagar hún sér alltaf svona vel vegna þess að við þekkjum engan í sunnudagaskólanum og því hefur hún engan til að kjánast með!!!!

Hún er samt dálítið fyndin, hún er svo mikið að fylgjast með því sem gerist í kringum hana að hún má stundum ekki vera að því að syngja með...og þegar ég spyr hana af hverju hún hafi ekki sungið með fer hún í vörn og segist hafa verið að því Í HLjÓÐI!!!!!!

En alla vega...lifið í ljósinu.....heheheh....og kennið börnunum ykkar góða siði...meðal annars að haga sér í kirkjunni :)

Góða nótt!!!

sunnudagur, apríl 10, 2005

Allt að gerast...

...páfinn dáinn, Megas orðinn sextugur, Finnsi vinur minn þrítugur í dag og Kalli prins loksins búinn að giftast henni Camillu sinni!!
Svona er lífið...þolinmæði þrautir vinnur allar og það sést...maður á líka að eltast við það sem maður vill...eins og Kalli, hann var ekkert að hætta við brúðkaup sitt þótt mamma hans ætlaði ekki að mæta í brúðkaupið...heheh... en svo þegar hún mætti var hún bara líka í hvítu...en það er ekki hefði fyrir því...alla vega hjá hefðarfólkinu...að aðrar konur en brúðurin séu í hvítu!!!! En talandi um Englandsdrottningu dettur mér í hug...

Gamla fólkið okkar...

...það er alveg hrikalegt að lesa blöðin þessa dagana og sjá og heyra hvernig farið er með gamla fólkið okkar, það er bitið, vannært, féflétt og ég veit ekki hvað og hvað!! Hvað er eiginlega á seyði? Ef ekki væri fyrir þessa eldri borgara og framlag þeirra til samfélagsins hvar værum við þá í dag?? Þetta fólk vann hörðum höndum að því að byggja upp landið okkar....sem NOTA BENE ...ráðamenn þjóðarinnar eru að selja og skemma smátt og smátt...(smá útúrdúr)!!! Það skortir alla virðingu fyrir þessu ágæta fólki!!

Ég og gamla fólkið

Þegar ég les þessar fréttir og frásagnir þá verður mér oft hugsað til þess að þegar ég var 12 eða 13 ára og þá fór ég að hugsa um hvað það væri sorglegt fyrir fólk að vera á elliheimili og eiga enga að, engin börn, barnabörn eða barnabarnabörn sem kæmu í heimsókn. Þá datt mér í hug að þegar ég yrði "stór" þá myndi ég vilja fara að heimsækja svona gamalt fólk og stytta því stundir, spila við það og svona. En svo er það nú þannig að maður er ekki nægilega framtakssamur og gerir ekkert í hlutunum...svo var það fyrir nokkrum árum að ég rakst á auglýsingu þar sem auglýst var eftir fólki sem vildi gera nákvæmlega þetta...heimsækja eldri borgara og þá rifjaðist þetta allt upp fyrir mér!!! Kannski á ég eftir að láta verða af þessu einn góðan verðurdag.

Ég hef gaman af því að hlusta á eldra fólk og heyra hvernig hlutirnir voru í gamla daga...enda er ég oft á tíðum mjög gamaldags...og þegar ég var á Ítalíu 1994 þá var ég mikið innan um eldra fólk og Grazia (konan sem ég var hjá) sagði einu sinni við mig að henni fyndist svo gaman að sjá hversu mikla virðingu ég bæri fyrir eldra fólki...það þótti mér vænt um. Og hún átti frænku sem var rúmlega sextug og hafði gifst seint og aldrei eignast börn og með okkur tókst mikil og góð vinátta og héldum við áfram bréfaskriftum eftir að ég kom heim aftur. Í einu bréfi sagði hún mér að ef hún hefði eignast barn hefði hún viljað eignast dóttur eins og mig!!! Þetta þótti mér svo vænt um, hún var svo yndisleg kona, en nú er hún látin.

En jæja...ég er fegin að þessi umræða opnast og það þarf eitthvað að gera í málum eldri borgara, hugsið ykkur hvað bíður manns, að þurfa að flytja á elliheimili og geta ekki haft alla hlutina sína hjá sér, þurfa að treysta á ættingja til að láta þvo af sér og þurfa jafnvel að deila herbergi með einhverjum öðrum...hvað á það að fyrirstilla??

Ég gæti nú haldið áfram með mínar skoðanir á þessu máli en læt hér staðar numið!!

Góðar stundir!!!

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Ó nei Ó nei

...það var eins og ég hélt...ekki er vorið nú alveg komið til landsins...þurfum væntanlega að bíða í nokkrar vikur...eins gott að maður hefur varann á sér, við mæðgur fórum í sumarbústað í Úthlíð um helgina og mamman hafði nú vit á að taka pollagalla, kuldagalla og allt þar á milli með í ferðina!! Eins gott....því við vorum varla komnar inn í bústaðinn með farangurinn þegar byrjaði að snjóa...og það snjóaði alla nóttina og nánast allan laugardaginn...mismikið reyndar... en nóg til þess að stelpurnar gátu gert tvo snjókalla sem voru um 170 cm á hæð hvor!!!

En ég fann mikilvægi þess að fara í afslöppunarferð og hlaða batteríin...ég á náttúrulega 50% í yndislegri dóttur sem er svooo mikið dúllubeibí og kelirófa og þægilegt að fara með hana í svona ferðir...hún var svooo dugleg að leika sér við stelpurnar og allt gekk ótrúlega vel!! Ég gerði nánast ekki neitt nema hangsa, leggja kapal, spila við stelpurnar, teikna með þeim, borða nammi og svona...nauðsynleg hleðsla fyrir lokatörnina í skólanum!!
Seinni part laugardags var veðrið svo fallegt, snjór yfir öllu, sól og heiður himinn....mikið eigum við fallegt og hreint land...að njóta þess að vera í sveitinni, anda að sér fersku lofti og njóta þess í botn að vera í kyrrðinni...nóg er af ókyrrðinni í höfuðborginni :)

Jæja...læt þetta duga áður en ég fæ svefngalsa og fer að blaðra einhverja vitleysu....
Góða nótt.....Zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

föstudagur, apríl 01, 2005

Vorið góða grænt og hlýtt.....

...ætli það sé nú að koma?? Vorið á ég við...eða ætli það verði eitt "hret " enn, fannst eins og það væri í kortunum???
Maður er orðinn svo léttur í lund... á starfsmannafundi í gær var m.a verið að ræða um "opið hús" á sumardaginn fyrsta....21.apríl....og eftir það verður öllu skipulögðu starfi hætt....þannig að það er kominn fiðringur í liðið!!! Allir farnir að hlakka til að geta verið meira úti að leika, og farið bara í úlpu og skó...og svo bara í skó!!!! Ohhhhh.....hvað ég hlakka til!!!

Við ræddum líka sumarleyfi barna og starfsfólks....allt að koma í ljós í þeim efnum....ég fæ mitt frí á þeim tíma sem mér hentar...þarf reyndar að taka það í tveimur hollum en....maður er nú að fara til útlanda í sólina...svo það er í góðu lagi!!! (kem betur að því ferðalagi síðar.....)

Skólinn...

... gengur bara nokkuð vel...nú fer að sjá fyrir endann á þessarri önn...."bara" þrjú verkefni eftir og þá hefur maður lokið 2.ári (ef allt fer vel!!) ...svona líður tíminn hratt...mér finnst ég nýbyrjuð í skólanum en er nú hálfnuð!!! Annars finn ég það mest hvað tíminn líður hratt þegar ég horfi á Grétu, hún er að verða 5 ára....farin að lesa og skrifa og svara manni fullum hálsi....hu-humm!!! Næsta vetur fer hún svo í skóla...vil helst ekki tala um það :(

Já svona er lífið þessa dagana...á morgun erum við mæðgur að fara í bústað með Birgittu sem vinnur með mér og dætrum hennar, Anítu og Agnesi (en hún er á sama leikskóla og Gréta!!!) Það verður mikið gaman, mikið fjör!!

En þangað til næst...lifið heil!!!