mánudagur, janúar 30, 2006

Aftur og nýbúin...

...mér finnst svo stutt síðan ég byrjaði að blogga en samt fer að verða komið ár....og mér finnst ótrúlega stutt síðan ég skrifaði um þá ákvörðun mína, Grétu og Óla bróður að skella okkur á sólarströnd og nú erum við enn og aftur búin að panta okkur ferð....og það sem meira er...mamma gamla fær að fljóta með!!!
Skelltum okkur á tveggja vikna ferð til Mallorca og ætlum að vera snemma í því þetta árið því við ætlum út 24.maí og komum heim 7.júní.
Svona lítur staðurinn út:
http://sumarferdir.is/template12.asp?PageID=147&HotelID=87

Ekki leiðinlegt...hótelið og það er bara flott....eflaust ekki eins flott og á Lanzarote...það var bara rugl...en flott engu að síður. Þetta á bara eftir að verða notalegt.....liggja við sundlugina, skella sér ofan í kalt vatnið og kæla sig í hitanum, fá sér geggjað gott að borða og svona....Ummmmm!!

Mig langar náttúrulega alltaf helst til Ítalíu þegar ég fer til útlanda en er að hugsa um að spara mér þá ferð þar til ég útskrifast.....annars vorum við Ingunn nú að rifja upp gamla tíma á Ítalíu og okkur dauðlangar til Rómar í haust...það er aldrei að vita nú þegar launahækkanir ófaglærðra sem og leikskólakennara aukast dag frá degi...hehehehehe......maður er í góðri stöðu beggja megin borðsins....híhíhí

En alla vega þá er kominn ferðahugur í mannskapinn og nú er bara að byrja að telja niður.....híhíhí

P.s. Gréta skemmti sér konunglega í Vestmannaeyjum og ætlaði ekki að vilja koma aftur heim....mamma sagði að hún hefði sagt að hún vildi vera í Vestmannaeyjum þar til í sumar!!!!! Mömmu-egóið í rúst.....heheheh...ég lifði það nú alveg af að vera án hennar heila helgi og hún greinilega líka....spurning um að gera þetta oftar????

föstudagur, janúar 27, 2006

Hversu vonlaus er ég???

Já...það er spurning???

Ég er að fara að vinna allan daginn á morgun og svo stendur kannski til að kíkja eitthvað út með vinnunni auk þess að vera boðin í afmæli annað kvöld og því vantaði mig að "losna" við Grétu mína....svo ég ákvað fyrr í vikunni að senda hana bara til Vestmannaeyja með afa sínum og varð enn ákveðnari þegar ég vissi að Diddi bróðir var líka að fara.

Svo kom smá krísa í gær þar sem Grétu var líka boðið í skírn hér í bænum og hana langaði allt í einu mikið að fara í hana og við mæðgur tvístigum hér í kapp við hvor aðra.
Ég spurði mig: á hún að fara??? Hún spurði: Á ég að fara?? Ég spurði mig: Á hún að fá að vera hjá ömmu og afa hér í bænum frá því í fyrramálið og þar til á sunnudaginn....eða á ég að sleppa því að fara út?? Á hún að ráða? Á ég að ráða? Hvað er til ráða?????????????????????

Svona er ég í hnotskurn....velti einföldum hlutum fram og til baka þar til þeir eru orðnir svo stórir og flóknir að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga...og fæ bara magaverki og hausverk!!!
EN...mér til huggunar....tek ég yfirleitt skynsamar ákvarðanir :) eða er það réttlæting???

Þó varð það úr að hún (já einmitt 5 ára gamalt barnið varð sjálft að taka ákvörðun!!!) ákvað að skella sér til eyja, enda skynsöm ung stúlka...gerði sér grein fyrir að skírnin yrði stutt en hún gæti verið lengi hjá ömmu í Vestmannaeyjum. Svo hún fór héðan um kl 18 og mamman sat eftir með tár í augunum....ekki vön því að vera ein heima HEILA helgi...úff fékk hálfgert kvíðakast.....


Ó já...svona er ég nú illa haldin, einstæð móðir og í fullu starfi sem slík.....24 tíma á sólarhring allt árið um kring!!!!!!!

Nokkrir hafa sagt við mig að ég sé OF mikil mamma. Ég sendi Grétu alltof sjaldan til eyja, hún fer sárasjaldan í pössun...til marks um það var hún orðin 5 ára þegar hún gisti í fyrsta sinn hjá ömmu sinni og afa sem eiga heima hér í þarnæstu götu nánast!!! Og hún var að gista í fyrsta sinn hjá Óla bróður fyrir hálfum mánuði......huhumm
Við erum afar nánar og hún er mjög háð mér....sem gerir okkur stundum erfitt fyrir. Ég vil ekki senda hana neitt sem hún vill ekki fara og því sitjum við oftar en ekki uppi með hvor aðra. Ég nýt þess að eiga hana og umgangast og tel að enginn sé jafnhæfur til að gæta hennar og ÉG :)

Því varð mér hugsað til þess um daginn að þegar ég var í FÍV og líka þegar ég var nýflutt í bæinn og átti hana ekki hafði ég alltaf mjög gaman af því að fara út á lífið og hlusta á góða tónlist, skoða mannlífið og þannig en eftir að ég átti hana hef ég verið 95% mamma og ekki sinnt kannski mínum "þörfum" nægilega. Fékk...já ok... og fæ samsviskubit yfir því að setja hana í pössun til þess að fara út að "djamma"!!!!! Sumir segja að þetta sé nostagíja....og ég segi að ég sé orðin of gömul fyrir svona hugsunarhátt?????
Hvað segir það um mig?? Ég held að hluti af mér hafi horfið þegar hún fæddist, svo ákveðin var ég og er að verða góð mamma. En kannski er þetta einum of?? Eða hvað??
Er eðlilegt að vera með samviskubit yfir því að hafa skroppið út á lífið??
Ein frábær vinkona mín sem er ein með tvö börn hefur notað pabbahelgarnar til að sletta úr klaufunum, eins og ég gerði í "denn" og ekkert alltaf í glasi :) bara að skoða mannlífið...við ræddum þetta um daginn og hún sagðist sko ekki nenna að hanga heima um helgar þegar hún væri barnlaus og því eins gott að nota tímann, fara út, kynnast fullt af frábæru fólki og njóta lífsins!!!
En ekki hvað????

Flækju-mamman kveður í bili...er farin út á lífið :)

mánudagur, janúar 23, 2006

Girnilegt??

Skrapp með pabba í Kolaportið á laugardagsmorguninn þar sem hann var í matarleiðangri....ef mat skal kalla....kallinn kom heim með siginn fisk, hákarl og súran hval...takk fyrir kærlega!!! Svo þið getið ímyndað ykkur lyktina í ísskápnum mínum núna :(

Hákarlinn er ótrúlegt lostæti meðal margra í minni fjölskyldu og við fórum til afa um daginn og hann og pabbi átu upp úr nánast heilli dós af hákarli yfir einum hálfleik í enska boltanum!!

Diddi bróðir er líka sólginn í hákarl en Gréta hristir bara hausinn og hélt að afi hefði bara pissað á gólfið í eldhúsinu þar sem hann stóð og brytjaði hákarlinn og setti í krukku :) svo slæm fannst henni lyktin!!!
Hún vildi ekki einu sinni smakka en ég lét mig hafa það...og viti menn...hann var ekki svo slæmur...en ekki samt þannig að ég vilji endilega háma hann í mig!! Allt í lagi að taka einn og einn bita!!

Það er nú þorrablót í vinnunni í næstu viku og þá fær maður sér að smakka með krökkunum...fyrirmyndin þið vitið :) fæ mér í það minnsta sviðasultu, slátur, flatkökur og hangikjöt, að ógleymdum harðfiskinum (sem er nú bara orðinn hversdagsmatur hér...Böddabitinn frá Godthaab klikkar ekki...mæli með honum!!!)

Samstarfskona mín er einmitt í matvælafræðinámi og hún var einmitt að minna okkur á það um daginn að í eld-gamla daga þá var brauð svona "spari-matur" en harðfiskur var nánast daglegt brauð....í dag hefur þetta aldeilis snúist við þar sem kílóið af harðfiski kostar eitthvað um 4000 kr en brauð er hægt að fá frá 99 krónum!!!

Merkilegt...ekki satt????

mánudagur, janúar 16, 2006

Alvaran tekin við...

Ó jú...þá er jólin búin, jólafríið búið og frekar langt í næsta frí!!

Innilotan búin og nú er að koma sér aftur í gírinn...hætta að glápa á imbann/lesa afþreygingarsögur og snúa sér að lærdómnum...úff...er alltaf svolítið erfitt en þar sem þetta jóla-skólafrí var svo stutt er maður nú enn í góðri æfingu...þetta er helmingi erfiðara á sumrin!!

Þessi önn verður áhugaverð, stutt, strembin en vonandi skemmtileg...hugga mig við að það verður bara eitt próf....annars bara verkefni....gott mál!!

föstudagur, janúar 13, 2006

Það hlaut að koma að því...

...að veturinn kæmi!!!

Vaknaði í morgun, dreif mig á fætur, leit út um gluggann og hugsaði mig tvisvar um...ætti ég að skrópa í skólanum og fara aftur upp í eða vera voða jákvæð og skella mér í flísbuxurnar og gönguskóna og út í bíl???

Sko, ég hef ekkert á móti snjónum sem slíkum, gott að fá hann til að lýsa aðeins upp skammdegið..... EN.... mér finnst bara svo leiðinlegt í umferðinni í byl og ófærð...þótt það sé nú ekki mikið um ófærð hér í Reykjavík. Þá var það nú samt þannig að í morgun var pabbi búinn að skafa af bílnum mínum þegar ég kom út, en það tók mig svona 10 mínútur að komast úr stæðinu, ruggaði bílnum fram og tilbaka og svo þegar ég var að komast út á götuna...átti bara eitt "rugg" eftir kom jeppafjandi á blússandi ferð svo ég varð að bíða og það tók nokkur "rugg" í viðbót. Guð hvað ég þoli illa þetta jeppalið.....ja ókey...það eru kannski ekki allir þannig en alltof margir....

Þakkaði sjálfri mér fyrir það í morgun að hafa látið setja nagladekkin undir milli jóla og nýárs :)

Eftir að ég komst úr stæðinu var leiðin greiðari en sumir morgnar eru samt verri en aðrir, ég þurfti að taka bensín, keyra Grétu vestur í bæ í leikskólann og fara alla leið til baka í Kennó þar sem ég var í innilotu þessa vikuna. Þannig að ég var í heilar 45 mínútur í umferðinni, í færð sem mér þykir síður skemmtileg og kom of seint í skólann og allt :(
já já er í átaki sem kallast "DRULLAÐU ÞÉR FYRR Á LAPPIR MANNESKJA" en það bara gengur ekki nógu vel þar sem mér finnst svo gott að slaka á og glápa á imbann frameftir öllu, fara seint og síðar meir upp í og þurfa þá að lesa nokkrar blaðsíður sem oftar en ekki verða að nokkrum köflum.....er sem sagt búin með allar bækurnar sem ég minntist á um daginn...svo nú taka skólabækurnar við!!!

Eini ljósi punkturinn í morgun var hversu auðvelt það var að fá bílastæði við Kennó þar sem það voru fleiri en ég sem voru seint á ferð.....

fimmtudagur, janúar 12, 2006

ÉG get, ÉG kann...

...ó já....smátt og smátt hef ég verið að komast að því að ég get og kann ýmislegt!!

Minn vandi hefur oft legið í því að hafa ekki næga trú á sjálfri mér og finnast ég ekki kunna þetta og hitt, hafa ekki vit á hinu og þessu og þar fram eftir götunum!!
Það er svolítið fyndið til þess að hugsa þar sem ég vinn við það dagsdaglega að efla og ýta undir sjálfstraust barna í minni umsjá sem og minnar eigin dóttur.

Ég lifði í nokkurn tíma við svokallað "lært hjálparleysi" þar sem ég treysti lítið sem ekkert á sjálfa mig og gerði varla nokkurn hlut sem ég taldi mig ekki geta/kunna, treysti sem sagt alltaf á aðra til að koma mér til hjálpar. Meðvitað og ómeðvitað kom ég ábyrgðinni yfir á aðra og var hlutlaus í mörgum tilfellum.

Mikil breyting hefur orðið á og ég hef svo sannarlega tekið mig á og orðið meðvituð um þetta hjá mér. Núna er ég sko óhrædd við að taka upp hamar og nagla og negla þar sem þess er þörf, ég skipti um perur í flóknum kúpli og skrúfa sundur og saman dót sem við mæðgur eigum....skipti um batterí, set upp ljós, jólaseríur og alles...hehehe...uppgötvaði þetta hjálparleysi og þessa framför hjá mér þegar ég var í heimsókn hjá vinkonu minni og dóttir hennar fékk hlut sem þurfti að hengja upp og vinkona mín sagði við dóttur sína að þær myndu biðja pabba að setja þetta upp þegar hann kæmi, og ég spurði að bragði hvort hún kynni ekki á hamar og nagla!!!!!

Ég hef nefnilega verið í endurskoðun með sjálfa mig undanfarið og veit að það er margt sem ég þarf að efla og þar á meðal sjálfstraustið...það tekur tíma en það kemur.
Mér finnst oft ekkert merkilegt það sem ég er að gera því það eru margir í minni stöðu og margir í verri stöðu en ég EN ég er samt farin að viðurkenna fyrir sjálfri mér að það er samt bara hörku púl að vera í 100 % vinnu, 75% námi, ætla að vera 100% mamma og 75% húsmóðir, auk þess að vera systir, dóttir og vinkona. Þetta er nú bara afar merkilegt og auðvitað á maður að vera stoltur af sjálfum sér þótt það séu margir aðrir í sömu stöðu!!!

Ég hef verið að framkvæma hina ýmsu hluti undanfarið sem ég gerði ekki áður og þótt þeir séu smávægilegir eru þeir margir hverjir stórsigrar fyrir mig.....þannig að ég eflist og styrkist með hverjum mánuði og tel það vera þroskamerki og tek því fagnandi...enda tími til kominn!!!

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Bittersweet...

... er eiginlega orðið sem mér dettur í hug varðandi gærdaginn....það var fyrsti dagur í innilotu. 6.misseri (af 8) að hefjast og fyrsti skóladagurinn, gaman að hitta alla aftur og svona.
Þar sem við tókum prófin svo seint bjóst ég ekki við að einkunnirnar kæmu inn fyrr en í kringum 20.jan svo maður var pollrólegur...þar til fréttir bárust um að einkunn væri komin fyrir Málþroska og málörvun og það hefði orðið mikið um fall....og þegar betur var að gáð var það þannig að 19 náðu og 14 féllu....það er nú ótrúlega hátt hlutfall og fólk augljóslega ekki sátt við þetta. Eitthvað ekki að gera sig þarna!!! Þá kem ég aftur að því að við vorum að lesa efnið í ágúst og september og lítið sem ekkert að vinna úr því....svo kom bara 7 vikna pása frá okt-des þar sem við fórum í vettvangsnám og heilmikil vinna þar auk þess að skila myndmenntarmöppu...og svo komu bara próf og maður var að endurlesa efni síðan snemma um haustið....þetta kalla ég ekki gott skipulag!!!

Ég náði...sem betur fer...og það bara með stæl...miðað við allt....fékk 7,5. Ekki annað hægt en að vera sátt þar sem algengasta einkunninn var 6,0 og hæsta einkunn var 8,5. Svo maður er bara sáttur.....en eins og ég segi er þetta svona "bittersweet" þar sem margir af mínum félögum féllu og það er alltaf fúlt!!

En...tvær einkunnir komnar í hús......8,5 og 7,5 og mjög góð umsögn um verkefni...nú er bara að bíða og sjá hvað gerist í hinum tveimur......dadadadamm.....

mánudagur, janúar 09, 2006

Stíflur

Já....stíflur eru mitt mál þessa dagana...sem er svo sem í lagi þar sem þær eru í rörunum en ekki í mér eða Grétu.....búin með það tímabil og það var erfitt!!!

En semsagt....snemma í haust stíflaðist vaskurinn inni á baði og ég ætlaði bara að skella One Shot...eða hvað sem stíflueyðirinn heitir en pabbi minn var ekki á sama máli, vildi að ég talaði við leigusalana mína (sem búa nú bara á efri hæðinni og eru hreint út sagt dásamlegt fólk) til að vita hvernig rörin og svona væru því pabbi lenti í því heima í eyjum að setja svona stíflueyði í baðið og rörin voru eiginlega ónýt og svo kom þetta eitur og eyðilagði þau endanlega svo það fór allt að leka...sem sagt allt í voða...þannig að ég skaust upp og minntist á þetta við þessar elskur. Það var eins og við manninn mælt, pípari kom daginn eftir og stíflan farin.

Nokkru seinna stíflaðist klósettið, og aftur þurfti ég að skjótast upp og tala við leigusalana mína og aftur var það ekkert mál, píparinn mætti og stíflan losuð.

Svo nú í desember féllust mér hendur þegar vatnið í eldhúsvaskinum var heilt kvöld að leka niður....ég trúði þessu varla, ekki var fjandans vaskurinn stíflaður???? Hvað er þetta?? Og í millitíðinni stíflaðist þvottavélin mín líka!!!!!!

Svo píparinn kom enn eina ferðina, fann ekki stífluna, sótti myndavél en fann stífluna ekki heldur svo það leit út fyrir að hér yrði bara að rífa gólfið í eldhúsinu upp.....þannig að í gær bárum við pabbi allt úr eldhúsinu/eldhússkápunum og nú er búið að rífa skápana undir vaskinum af og gera gat þí gólfið.....svo rotturnar eiga nánast greiða leið...vil helst ekki hugsa um það!!!!!!

Svo er bara að bíða og heyra frá þeim, hvort stíflan sé laus eður ei!!!

Ef ég á að líta á björtu hliðarnar þá segi ég að í þessum tilfellum er gott að vera leigjandi því ég ber engan kostnað af þessum viðgerðum....

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Náttborðið...

...mitt er hlaðið af bókum....það er ekkert sem mér finnst betra í jólafríinu en að liggja uppi í rúmi/sófa, borða nammi og smákökur, drekka jólaöl og lesa!!! Þetta eru draumajólin...og þetta vita mamma mín og pabbi minn og þess vegna fæ ég alltaf bók og Kiwanis nammi frá þeim í jólagjöf...og ég elska það!!

Það varð engin breyting á þessi jólin og Vetrarborgin hans Arnalds fylgdi Kiwanis-namminu í ár, líkt og síðust hva....5 ár eða eitthvað. Ég hafði nú heyrt sittlítið af hverju um bókina en ég tek ekki mark á bókagagnrýni, vil bara lesa bækurnar sjálf og dæma svo. Mér fannst Vetrarborgin mjög góð, betri en Kleifarvatn sem mér fannst ekkert svo spes, ekki nógu spennandi en það fer ekki á milli mála að Bettý er lang lang lang besta bókin sem Arnaldur hefur skrifað.

EN alla vega...um leið og ég var búin í skólanum las ég Friðland eftir Lisu Marklund en hún er framhaldið af bókinni Hulduslóð. Fyrri bókin var mjög spennandi og áhugavert að lesa þá seinni en hún var svolítið langdregin á köflum og svolítið um endurtekningar. Samt sem áður er þetta mögnuð lesning og ótrúleg vegna þess að þetta er sönn saga.

Pabbi valdi svo bókin Heppin handa mér. Það er einnig sönn saga og er höfundurinn að segja frá því þegar henni var nauðgað í undirgöngum....ótrúlega mögnuð saga. Sú bók er eftir sama höfund og bókin Svo fögur bein, sem er ein stórkostlegasta bók sem ég hef lesið (ásamt bókum paolo Coelho, og þá sérstaklega Alkemistinn).

Nú...svo fékk ég bókin Myndin af pabba frá Bjarna frænda og Bjartey og ég er að hugsa um að ráðast á hana núna......eða Villibirta eftir Lisu Marklund....
Ætla að klára aðra hvora um helgina þar sem skólinn byrjar aftur á mánudaginn...þá verður almennum bókalestri frestað þar til um páska!!!

mánudagur, janúar 02, 2006

2006

Gleðilegt nýtt ár elskurnar!!
Áramótin voru svona líka skemmtileg, maturinn hjá Siggu aldeilis MIKILL og sérlega góður og félagsskapurinn ekki af verri endanum...takk fyrir okkur elskan!!!
Veðrið var svo gott, brennan aldeilis fín sem og flugeldasýningin, áramótaskaupið ágætt og við mæðgur bara sáttar og sælar þegar við héldum heim á leið um klukkan 02.00.
Nýársdagur var notalegur, sofið frameftir og við hefðum eflaust ekki klætt okkur ef Andri Ísak væri ekki fæddur á þessum degi og því brunuðum við í Kópavoginn í 2ja ára afmælið hans og það er ekki að spyrja að veitingunum þar alltaf hreint....nammi namm....
Svo var framhald í dag þar sem afi minn, Óli Run, á afmæli í dag. Kallinn bara orðinn 74 ára og svona líka flottur á gervifætinum...ekki að spyrja að kraftinum í honum!! Verð bara að láta geggjaða sögu fylgja með.....Kristborg frænka mín býr í Svíþjóð og hún og hennar eðalmaður komu heim í sumar til að gifta sig og afi komst því miður ekki þar sem hann var á spítala út af fætinum (sem var svo tekinn 3 dögum eftir brúðkaupið ef ég man rétt)...og Anton sonur hennar er 4 ára og þegar þau voru komin aftur til Svíþjóðar þá fór hann að segja krökkunum á leikskólanum sínum að langafi hans á Íslandi væri sjóræningi og værui búinn að skera af sér annan fótinn. Og afi er nú alger húmoristi svo þegar hann heyrði af þessu fór hann og Inga í dótabúð og keyptu sjóræningjadót, lepp, krók og hatt. Afi setti þetta svo á sig, fletti buxunum upp og lét stubbinn lafa niður, og Inga tók mynd. Þetta sendi svo "afi sjóræningi" Antoni með jólakortinu......ég bíð enn eftir að heyra hver viðbrögðin voru.....en þetta kallar maður sko að hafa húmor fyrir sjálfum sér og því sem mætir manni í lífinu!!!