miðvikudagur, október 11, 2006

Kisan mín hún Píla

Haldiði ekki bara að ég hafi setið yfir skólabókunum í fyrrakvöld og með kveikt á sjónvarpinu og rétt missti af byrjuninni af einhverju atriði í Kastljós en heyri svo að það er verið að tala um að einhver hafi horfið fyrir 5 árum, svo ég fer að leggja við hlustir. Þegar nokkuð er liðið á viðtalið kemur í ljós að þetta var köttur sem fór sínar eigin leiðir og yfirgaf húsbóndann sinn í lengri tíma og fann sér annan stað. Þetta varð til þess að ég fór að hugsa um hana Pílu mína.

Þegar ég var 10 ára heimsótti ég föðursystur mína og var læðan hennar nýbúin að gjóta og mig langaði svo í kettling, og hún sagði að ég mætti velja einn. Ég valdi mér bröndótta læðu sem var bara sæt!!! Ég hringdi í mömmu og pabba úr sveitinni og spurði hvort ég mætti ekki örugglega fá kettling og þau sögðu bæði nei en ég kom samt heim með kettlinginn og það var sem við manninn mælt...þau elskuðu hana næstum meira en mig!!!! Fyrst fékk ég sko að heyra það að ég skyldi sko sjá um köttinn sjálf og þessi vanalega tuð-ræða sem flestir þekkja...en áður en ég vissi af var mamma farin að sjóða fisk oft á dag og pabbi farinn að leika við köttinn og strjúka honum og svona.

Tíminn leið og kötturinn minn, hún Píla, varð hinn mesti myndarköttur, og hafði svona líka sterkan karakter. Hún fylgdi okkur Didda alltaf í skólann, labbaði á eftir okkur og beið svo á sama stað á hverjum morgni og horfði á eftir okkur þangað til við vorum komin að skólanum, þá sneri hún við.

Einu sinni var hringt í mömmu frá Sparisjóðnum og hún vinsamlegast beðin um að koma og sækja köttinn þar sem hann lá á miðju Sparisjóðsgólfinu og sólaði sig!! Hún var líka beðin um að sækja köttinn í Kaupfélagið!!

Hún var svo mjúk og svo þægilegt að kúra hjá henni, hún lá alltaf alveg upp við mann, eftir manni endilöngum og það var ekki hægt að finan fyrir kulda þegar hún var hjá manni. Oftar en ekki lá hún til fóta og þá var mér ekki jafn kalt á fótunum og mér annars er.

Píla varð einu sinni kettlingafull og þá bjó ég um hana í kassa og setti meira að segja uppáhaldsteppið mitt í kassann..en allt kom fyrir ekki. Elva frænka hafði gist hjá mér um nóttina og þegar ég vakna finn ég að það er allt blautt í rúminu og hélt strax að Elva hefði pissað undir...en nei nei þá var það bara Píla mín sem var búin að koma fjórum af fimm kettlingunum sínum í heiminn, í rúminu mínu, á sænginni minni!!!!!!

Hún krafsaði alltaf í hurðina þegar hún vildi komast inn eða út, og stundum þegar það var vont veður opnaði maður hurðina, hún setti loppuna út en sneri svo við, algjör snilli!!!

Það var líka svo fyndið að fylgjast með henni þegar hún var orðin of öldruð (að eigin mati) til að leika sér, maður otaði kannski að henni einhverju dóti og hún lék með það í svona 30 sek, þá var eins og hún skammaðist sín eitthvað fyrir það og hún skreið undir sófa, sem var alltaf frekar fyndið.

En þetta er yndislegasta kisa sem ég hef vitað um og ég held að pabbi fyrirgefi mér það seint að ég skyldi hafa komið með hana heim, gert alla háða henni og látið það svo koma í hans hlut að láta lóga henni (þar sem hún var orðin svo gömul og veik).

3 Comments:

At 9:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Æji snilldar blogg systa ;) Hef ekki huxað til Pílu í langan tíma. Það er rétt að þetta var snilldar köttur, maður elskaði hana nú samt og hataði til skiptis. Gleymi ekki deginum þegar ég skutlaði pabba með hana til dýralæknisins og hvað mig langaði oft til að hætta við og keyra tilbaka en hún var orðin svo gömul og lúin. Varð hún ekki 15 eða 16ára??

 
At 3:37 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég man mjög vel eftir henni Pílu, hún var yndisleg kisa. Ég er mikið meiri hundamanneskja en hún Píla var alveg spes. Mannstu Íris ef að við vorum að stússast eitthvað og Píla kom og lagðist hjá okkur þá sofnaði ég alltaf? Hún var svo mjúk, kúruleg og hafði bara svo rosalega róandi áhrif. Ég hef aldrei kynnst jafn æðislegri kisu.
kv. Sara G

 
At 4:52 e.h., Blogger IrisD said...

Ó já...Píla var sko spes...mig minnir að hún hafi orðið 14 ára, eða kannski meira??

Já Sara mín...ég man þegar Píla kúrði hjá þér og ég las fyrir þig og þú sofnaðir ALLTAF..hehehe

Leitun að öðrum eins ketti!!

 

Skrifa ummæli

<< Home