9.okt 2006
Í dag hefði Kristbjörg mín orðið 31 árs ef hún væri enn hjá okkur.
Á þessum degi loga enn fleiri kerti en vanalega við myndina af okkur í glugganum hjá mér, og mamma fór, eins og alla aðra afmælisdagana síðan Kristbjörg dó, í kirkjugarðinn fyrir mig.
Mér finnst svo stutt síðan við vorum öll saman vinirnir í kirkjugarðinum að leggja haustkrans á leiðið, þegar hún hefði orðið þrítug, og ég bloggaði um það.
Hér er ég aftur komin, aftur kominn október og lífið gengur sinn vanagang. Ég verð samt að segja að það líður varla sá dagur sem ég ekki hugsa um hana, og þegar við komum saman 2-3 úr vinahópnum verður okkur tíðrætt um hana, svo yndisleg var hún og eftirminnileg.
Sem betur fer er ekki hægt að taka minningar frá manni því þá væri líf mitt svo tómlegt.
Það er svo ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og þegar fólk nöldrar yfir aldrinum og hvað það er nú að verða gamalt segi ég alltaf að maður eigi að þakka fyrir hvern afmælisdag sem maður á því maður er þá á lífi og meðal sinna nánustu.
Blessuð sé minning elsku Kristbjargar minnar.
2 Comments:
Vorum einmitt að tala um Kristbjörgu og afmælisdag hennar í gær. Þá segir Gabríel; mamma var ég ekki 3 mánaða þegar hún dó? Hann er nefnir stundum hvað hann sé ánægður með það að hún hafi náð að halda nokkrum sinnum á honum áður en hún lést (það er nokkuð sérstakt þar sem við bjuggum í bænum og hún í Eyjum og GS er 3 mán. þegar hún deyr).
Mér fannst ég finna svo sterkt fyrir henni á torginu í Köben og að lagið hennar hafi verið spilað akkúrat þarna er engin tilviljun held ég.
Vildi að ég gæti kíkt að leiðinu hennar en það hjálpar til að hugsa til hve yndislegt það var þegar við kíktum þangað í sumar. Fengum æðislegt veður, sól og blíðu sem varð til þess að við kíktum á leiðin hjá flestum ættingjum okkar í leiðinni.
Blessuð sé minning þín Kristbjörg okkar.
Fallegur pistill hjá þér Íris Dögg.
Vinahópurinn ykkar er alveg sérstakur og þetta var mikill missir fyrir ykkur sem og allan árganginn. Fékk mann til þess að hugsa sinn gang og eins og þú segir að þakka fyrir hvern afmælisdag sem bætist í safnið og þær stundir sem maður hefur með fjölskyldunni.
Skrifa ummæli
<< Home