miðvikudagur, september 28, 2005

Lagið í spilaranum....

...þessa dagana er gamalt og gott...."Love of my life" með Queen. Mikið svakalega er það yndislegt lag!!!!

Amma mín heitin var mikill Queen aðdáandi og ég man að þegar ég var að horfa á sjónvarpið og það kom myndband með Queen þá rauk ég alltaf í símann, hringdi í ömmu og sagði henni að horfa á það og svo myndi ég heyra í henni seinna. Og amma naut þess í botn!!!!

Ég gleymi því heldur aldrei þegar við Elva frænka vorum að tala um þessa Queen aðdáun ömmu okkar, sem okkur fannst frekar fyndin þar sem þetta var AMMA okkar og Elva sagði að hún og amma hefðu einu sinni verið að tala um hann Freddie og amma hefði sagt að hann væri svo SEXY....þetta fór nú alveg með okkur, unglingana :)

Mamma og pabbi fengu sér svo DVD spilara um daginn og þá keypti pabbi safndisk með Queen og við spiluðum hann í botni heima hjá þeim. Og þegar þetta lag kom, sátum við mamma með tárin í augunum og gæsahúðina, þvílík áhrif sem þetta lag hefur á okkur!!!!!!
Grétu finnst svo fyndið að ég fái gæsahúð þegar þetta lag heyrist!!!

Það er líka svo magnað að sjá og heyra þetta á tónleikadiskinum, og á umslaginu er fjallað um lögin, sagt frá tilurð þeirra, hver samdi þau og þess háttar. Og þetta lag, Love of my life, er sagt hafa verið mikið tilfinningalag fyrir Freddie og sérstaklega vegna þess að aðdáendur Queen um allan heim syngja hástöfum með, einnig þeir sem tala ekki ensku.
Það sem var merkilegast var samt að myndbandið var tekið upp á einum tónleikum en söngurinn á öðrum en samt var hægt að nota þetta saman!!!

Gréta heldur mest upp á "We will, we will rock you" og syngur og rokkar með :)

Ó já Queen klikkar ekki!!!!

þriðjudagur, september 27, 2005

Sködduð :(

Ég var að hlusta á fréttirnar á meðan ég eldaði matinn og heyrði þá Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segja að Baugsmálið hefði ekki bara skaðað ríkisstjórnina og þá sem tengjast Baugi heldur hafi það skaðað alla þjóðina.....Þar hitti hann nú naglann á höfuðið....maður er að verða stórskaddaður á þessari endalausu vitleysu, maður setur nú mörkin einhversstaðar og nú finnst mér nóg komið!!! Þetta tröllríður öllum fjölmiðlum og er ekki einu sinni spennandi....úff!!!
Maður tekur ekki upp blöðin án þess að Baugsmálið sé þar, fréttatímarnir og dægurmálaþættirnir eru fullir af þessu.....nei þá vil ég heldur fáránlegar fyrirsagnir og fréttir eins og þær sem ég sá í síðustu viku "Epli (Apple) dóttir Gwyneth (Paltrow) farin að tala" og "Sér ekki ennþá hverju dóttirin líkist (Linda P), "Brad (Pitt) vill ættleiða börn Jolie" hehehehe....þetta klikkar aldrei :)

Talandi um pólítíkusa.....Davíð Oddsson sagðist kveðja forsætisráðherrastólinn, ríkisstjórnina og allt heila klabbið með gleði í hjarta, hann kvaðst sæll og glaður og hlakkaði til að komast í Seðlabankann og honum væri alveg sama þótt hann yrði ekki áberandi þar!!!!
Er annað hægt en að vera fullur tilhlökkunar að taka við nýju starfi þar sem laun seðlabankastjóra hafa nýverið hækkað (surprise surprise) auk þess sem eftirlaun Davíðs hafa einnig nýhækkað (surprise surprise..)....hver yrði ekki ánægður með þá stöðu...auk þess að þurfa kannski bara ekki að hafa neitt sérstaklega mikið fyrir laununum....fannst mér á honum!!!!!
Davíð er eflaust klár kall, það verður varla af honum tekið, en þetta finnst manni nú fullgróft...eða hvað????

Af hverju ætli Félag leikskólakennara leiti ekki til Davíðs og fái að vita hver galdurinn er á bak við launahækkanirnar.....??????

sunnudagur, september 25, 2005

Gæludýr....úff....

Jæja...það hlaut að koma að því!!!!

Í fyrrahaust var Gréta mín alltaf að spyrja hvenær hún mætti fá lítinn bróður eða litla systur og gátu þessar óskir hennar ekki komið á óheppilegri tíma þar sem ég og pabbi hennar vorum nýskilin!!

Núna í haust byrjar hún svo að suða um kettling...og ég hváði bara að hún væri skíthrædd við ketti sem hún og er....en hugsaði samt með mér "æ greyið, fær ekki systkin og fær ekkert gæludýr". Síðan kom ég með margar frábærar afsakanir fyrir því af hverju það væri ekkert sniðugt að fá sér kettling EN stelpan er þrjósk þegar hún bítur eitthvað í sig og ég var alveg um það bil að fara að gefa mig, vegna frábærs rökstuðnings hennar, þegar ég fékk þá frábæru hugmynd að hún fengi bara gullfiska!!! Það er enginn hræddur við þá, það er auðvelt að hgusa um þá, auðvelt að skreppa að heiman eina helgi og auðvelt að fá pössun fyrir gullfiska!!
Því varð úr að ég fékk lánaða kúlu, við settum steina, sem Gréta hefur sankað að sér á sinni stuttu ævi, í botninn og skelltum okkur svo í Dýraríkið. Þar sá hún strax fiska sem henni leist vel á......14.000 kall stykkið....ég hélt nú ekki :) svo við færðum okkur niður í 350 kr stykkið og keyptum því tvo...Nemo og Marel. Stelpan er svona líka ánægð með fiskana (og hvað þá mamman) en ég óttast það mest að hún eigi eftir að drepa þá úr offitu því hún vill helst gefa þeim að borða á 10.mín fresti!!!

Við komumst síðan að samkomulagi um það að hún gæti bara fengið kettling þegar hún yrði 10 ára og þá hvein í henni: "Já mamma mundu það þá líka á 10 ára afmælisdaginn minn"!!!

miðvikudagur, september 21, 2005

Haust/vetur

Brrrrr.....held svei mér þá að vetur konungur sé mættur....haglél í dag, Esjan orðin hvít og laufblöðin falla eins og þau fái borgað fyrir það...merkilegt hvað þetta gerist alltaf allt í einu :(

Það gerist annars svo ansi margt á þessum árstíma..... skólarnir fara af stað, umferðin þyngist aftur, sjónvarpsdagskráin batnar, kertaljós loga, flensurnar fara á fullt, hor lekur úr nefi annars hvers manns, ómur nagladekkjanna fer að hljóma, skafan og frostlögurinn fara að koma til sögunnar, kuldagallinn tekinn úr skápnum svo og ullarsokkarnir, ullarvettlingarnir og svona mætti lengi telja!!!!

Allt þetta minnir mann á hversu tíminn er fljótur að líða og að maður verður að nýta hann vel :)

laugardagur, september 17, 2005

KLUKK

Úfff....maður hélt að maður væri laus við keðjubréfa-ruglið þegar sendibréfin duttu upp fyrir en NEI svo er víst ekki......þetta fer bara versnandi...því það er endalaust af allskonar keðjubréfa/lukku/óhappa/peninga/sokka/spennu/tyggjó osfrv. bréfum sem hrynja inn í hvert sinn sem maður opnar tölvuna og nú líka á blogginu...... hvaða hvaða!!!

Eitthvað sem heitir KLUKK...gengur á blogginu og er því miður ekki þannig að maður á að elta einhvern, ó nei, heldur á maður að segja lesendum sínum frá 5 ómerkilegum hlutum um sjálfan sig......þúsund þakkir Beta, fyrir að “klukka” mig (ARG)!!!

Ok.....látum okkur nú sjá....

Eins og áður hefur komið fram, þá leiðast mér keðjubréf :) sérstaklega þar sem hótun er í endann....”ef þú sendir þetta ekki til X margra áttu eftir að þjást og verða óheppin í lífinu það sem eftir er” Skemmtilegt....eða hitt þó heldur!!!

Ég er með exem í eyrunum og klæjar því mjög oft í eyrun (og reyndar hálsinn líka) og geri þá “frábært hljóð” með hálsinum sem fer sjúklega í taugarnar á mínum nánustu!!! Ég er hætt að taka eftir þessu, geri þetta í svefni og í vöku!!! Það versta er að nú er Gréta farin að herma eftir mér og það fer hálfpartinn í taugarnar á mér þegar HÚN gerir þetta J RUGL!!!!

Ég er með fullkomununaráráttu á ýmsum sviðum....t.d. þegar ég skrifa bréf eða pikka á tölvuna og geri stafsetningarvillu á ég það til að stroka ALLT orðið út og byrja upp á nýtt!!!!
Þegar ég borða popp inni í stofu þarf ég alltaf að fara með skálina (og tóma glasið) inn í eldhús um leið og ég er búin úr því!! Eins þegar ég er búin að borða, ég er varla búin að kyngja þegar ég byrja að vaska upp og ganga frá!!!

Ég er ofdekruð, sama hvar ég er og hver það er!!!
Sigga í vinnunni, bauð mér í mat um daginn og bauð mér að velja “Púkalegasta heimilismat” sem mér dytti í hug...ég valdi Svikinn héra með kartöflumús og brúnni sósu!! Sigga er listakokkur (með 4 börn í heimili og mann, semsagt 5 börn..hehehhe) og þegar ég kom til hennar játaði hún það fyrir mér að hún kynni ekki að gera kartöflumús EN þar sem ég er svo ofdekruð rembdist hún eins og rjúpan við staurinn (fékk aðstoð frá vinkonu sinni í sveitinni...í gegnum símann!!!) og úr varð þessi líka ljúffenga kartöflumús!!!

Ég er letiblóð, mér finnst gott að hanga fyrir framan sjónvarpið, glápa á mynd, lesa góða bók og sofa út!!!!!

Úff...hvað maður kemst að mörgu um sjálfan sig við þetta....kannski ekki svo slæm hugmynd eftir allt......alltaf að taka öllu með opnum hug....og jákvæðni!!!!

Hehehhehehe....jæja ég veit nú ekki á hvern ég á að skora.....enginn af mínum vinum bloggar...en kannski nokkrar frænkur....humm....skora því á systurnar Svönu Lilju og Fanney!!

Góða skemmtun!!!

þriðjudagur, september 13, 2005

Líkamsrækt???

Haldið þið að það sé merki um að ég þurfi að fara að styrkja mig ef ég ræð ekki við að halda á steikarpönnunni minni í annarri hendinni á meðan ég helli steiktu grænmeti af henni ofan í skál? DÖH.........
Ég stóð við eldavélina mína, með magann út í loftið, bakið fett og vinstri hendin titraði undan þunga pönnunnar (sem er í alvöru stór og þung)....á meðan ég var að koma grænmetinu í skálina!!! Til að forða mér frá tognun eða öðrum áföllum við heimilisstörfin ákvað ég nú bara að moka grænmetinu í skálina með einhverju áhaldi :)
Því fór ég að hugsa.....hummm.....er það eðlilegt að ráða ekki við steikarpönnuna sína???
Úff...ég held nú ekki....svo það er tvennt í stöðunni....styrkja sig eða hreinlega fá sér minni og léttari pönnu :)

Ég hef nú verið að spá í líkamsrækt undanfarið....veit bara ekki alveg hvað mig langar að gera....er ekki alveg til í að fara í einhverja stöð og hoppa og skoppa en langar samt að gera eitthvað og styrkja mig aðeins.....er alltaf á leiðinni EN....er alltof góð við sjálfa mig held ég.....og svo finnst mér ég líka hafa svo lítinn tíma seinni partinn og vil ekki þurfa að setja Grétu í pössun á meðan ég hristi mig einhversstaðar....EN....samt sem áður...höfum við báðar gott af því og nú er spurning um að velja sér stöð/sport/tíma/ og bla bla bla......þarf að velta þessu fyrir mér aðeins lengur.....

fimmtudagur, september 08, 2005

Afmælisgeðveikin í September!!!

September er mikill afmælis-mánuður í ættinni....Bjarni frændi átti afmæli 6.sept, Eva Kolbrún frænka átti afmæli í gær, mamma á afmæli í dag (til hamingju með það mamma mín), Gréta var skírð á þessum degi árið 2000, Stebbi Run frændi minn á afmæli 10.sept, Ingunn vinkona 11.sept, Gunnsa frænka 12.sept, og pabbi 25.sept...haldiði að það sé!!!!
Sem betur fer eru ekki allir að halda upp á afmælin og því ekki þörf á að kaupa gjafir handa öllum.....annars væri maður á kúpunni :)

Annars var fínn dagur í dag...mamma kom frá Costa Del Sol...hlaðin gjöfum...sem betur fer voru það allt mjög nytsamlegir hlutir...styttur, hárbönd, óróar......heheheheh...

Mamma fór svo heim til Eyja í dag og Bjarni frændi líka, bara allir að fara til Eyja um helgina, Óli að fara á árgangsmót, Diddi að fara með vinnufélögunum, pabbi að fara til mömmu....svo við mæðgur ætlum bara að hafa það svaka gott um helgina, dúllí dúll!!!

föstudagur, september 02, 2005

Brestir

Ég heyrði þessa litlu sönnu sögu í gær og varð að setja hana hér inn...hún er svo krúttlega rómantísk...eins og sagan á blogginu hennar Betu :)

Það voru hjón sem giftu sig í kirkju og allt í lukkunnar velstandi nema að mánuði eftir giftinguna komu þau til prestsins eftir messu og sögðu honum að það væru komnir BRESTIR í hjónabandið. Presturinn varð nú frekar hissa á svipinn og hugsaði með sér hvað hefði farið úrskeiðis í undirbúningnum og hvað honum hefði orðið á. Og þar sem hann hugsaði þetta brostu hjónin til hans og sýndu honum annan giftingahringinn. Þá var kominn BRESTUR í hringinn og því hafði þeim dottið í hug að gantast aðeins í prestinum og orða þetta svona. Þau höfðu látið laga hringinn en vildu ekki setja hann aftur upp nema að presturinn myndi blessa hann aftur.
Svo hjónin fengu bara litla, fallega stund með prestinum í kirkjunni þar sem hann endurtók þann hluta athafnarinnar þegar hringarnir eru settir upp!!!!!

Rómantískt ekki satt :)

fimmtudagur, september 01, 2005

Fætur!!

Á hverjum degi förum við á FÆTUR, það er það sem við gerum þegar við höfum "snooz-að" á vekjaraklukkunni nokkrum sinnum, opnað loks augun og kveikt á lampanum...þá förum við á FÆTUR....og síðan notum við FÆTURNA allan daginn án þess að hugsa neitt sérstaklega um það. Við klæðum okkur í skóna áður en við hlaupum út í bíl, stígum á bensíngjöfina, kúplinguna og bremsuna til skiptist...allt án þess að spá sérstaklega í það.

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum hér og nú er sú að undanfarin ár hefur hann afi minn átt við veikindi að stríða og hefur það helst verið í öðrum fætinum. Hann hefur farið í ófáar aðgerðir, fengið plastæð og fóturinn á honum verið í misgóðu ástandi, eins og gefur að skilja.
Oftar en einu sinni var "gert við" plastæðina og afa sagt að nú yrði þetta í síðasta sinn sem það yrði gert, næst yrði bara að taka fótinn. Síðan leið og beið og það var ömurlegt að horfa upp á afa minn, sem var annars alltaf á ferðinni hingað og þangað, verða að "sófa-afa".
Í vor var hann orðinn svo slæmur að hann komst nánast ekki út úr húsi, var orðinn grár og gugginn af kvölum og pilluboxið fylltist af alls kyns töflum, blóðþynningarlyfjum, verkjalyfjum og fleira. Þetta var ekki sami maður, skiljanlega.

Síðan fyrir rúmum 2 mánuðum var svo komið að tærnar voru bara "dauðar" og fóturinn allur blár og kaldur og því var hann tekinn af rétt neðan við hné. Óneitanlega setti kvíða að manni, afi er orðinn 73 ára og eitthvað yfir 100 kíló...hvernig myndi þetta verða? Hvað tæki svo við? Maður sá fram á langa sjúkrahúslegu og sjúkraþjálfun.

Því finnst mér það með ólíkindum hvað afi minn er brattur í dag. Hann er kominn heim, er á Grensás á daginn frá 10-16 í ströngum æfingum en stendur sig eins og hetja. Hann er farinn að ganga um á gervifæti og er allur að koma til, maður er mest hræddur um að hann fari og geyst!!!
Þess á milli fer hann um í hjólastól og "vippar" sér úr honum í hægindastólinn. Inga, konan hans, reynist honum betri en enginn og er ég svo fegin og þakklátfyrir að þau skyldu hafa fundið hvort annað!!!

Ég hef reynt að vera dugleg að heimsækja afa minn, bæði þegar hann var á Landspítalanum í Fossvogi og á Grensás og svo eftir að hann kom heim og það hefur verðið ótrúlegt að fylgjast með þessu ferli og heyra afa segja frá. Hann var látinn kveljast eins lengi og hægt var því þá er eftirsjáin eftir fætinum ekki jafnmikil (feginleiki yfir því að vera "laus" við kvalirnar). Eins var hann hvattur til að fylgjast með þegar því þegar fóturinn var tekinn því þá er missirinn ekki eins mikill. Síðan er hann að stjúka "stubbaling" eins og stubburinn kallast og það er ótúlegt að sjá hvernig stubbalingur breytist og mótast (hann er með mismunandi þykkar "hulsur" á fætinum á daginn). Manni fannst þetta allt gerast svo hratt til að byrja með en afi er hörkutól!!

Allt þetta fær mann til að meta FÆTUR sínar betur og þakka fyrir það að vera heilbrigður (eins langt og það nú nær...).
Auk þess sem maður þakkar fyrir að eiga svona færa lækna, sjúkraþjálfa og gervilimahönnuði!!! Þökk sé þeim að ég hef endurheimt afa minn :)