mánudagur, nóvember 26, 2007

Skólinn eftir jólin

Nú styttist í jólin, upplestrarfrí að fara að skella á og svo próftarnir....kemur mér lítið sem ekkert við þetta árið og ég get ekki sagt að ég sakni þess beint, enda hlakka ég gasalega mikið til að geta átt próflausan desember og hellt mér áhyggjulaust í jólaundirbúningin með Grétu minni, laus við stress og andvökunætur...nema þá að þær tengist því hvað ég á að gefa hverjum í jólagjöf??????

En ég er samt sem áður á leiðinni í nám EFTIR jól...hehehe...þarna var ég skynsöm!!!
Ég er semsé búin að sækja um í Ítölsku í HÍ...þeir ætla að svara mér innan 15 daga...og ég ætla að taka 2 kúrsa eftir áramót og hlakka gasalega mikið til. Ef ég fæ allar einingarnar metnar þá á ég BARA 27,5 einingu eftir í ítölskunni....en vantar náttúrulega aukagreinina en það er aukaatriði!!!!
Ég fór til námsráðgjafa í HÍ í síðustu viku til að athuga hvort ég fengi allar einingarnar mínar metnar, þessar sem ég kláraði 1999-2000 og í framhaldinu þurfti ég að senda póst til skorarformanns og greinarformanns. Ég endaði svo bara á því að tala beint við greinarformanninn þar sem hann kemur til með að kenna þá kúrsa sem ég vil taka og kenndi mér þegar ég var í ítölsku hér um árið...hann var bara glaður að sjá mig og bauð mig velkomna aftur....svo ég hlakka bara til að fara aftur af stað!!!!!!!!!!!!!!

Ætla nú bara samt að byrja rólega því ég er náttúrulega að vinna og þetta nám er meira til að uppfylla minn persónulega draum...en í þetta sinn ætla ég að klára hann líka því þegar ég byrjaði á að láta hann rætast var ekki hægt að taka BA próf í ítölsku svo ég tók bara allar þær einingar sem voru í boði....og svo þarf ég að velja mér aukagrein...en það er nægur tími til þess!!!!!!!

Spennó spennó....hlakka bara svaka mikið til!!!

mánudagur, nóvember 19, 2007

Að gleðjast yfir litlu hlutunum...

...er eitthvað sem maður heyrir sagt svo oft en hvaða litlu hlutir eru þetta?

Heilsan er ekki lítill hluti því án heilsunnar gerir maður býsna fátt, peningar eru ekki heldur lítill hluti því án þeirra væri ég án matar, fatnaðar, heimilis og margs fleira, fjölskyldan er ekki heldur lítill hluti því hún er mér nánast allt og hvað er þá eftir????

litlir hlutir sem eru kannski ekki mikilvægir og maður gæti alveg verið án en finnst samt gott eða gaman að hafa.
Júbb ég gleðst yfir litlum hlutum eins og t.d. fatahenginu sem ég fékk gefins (og geri þeir grín sem vilja hahahaha) og svo BÓKATÍÐINDUM sem komu í dag.....jibbý jeiiiiiiiiiiiiii

laugardagur, nóvember 17, 2007

Ég myndi/gæti aldrei...

Hversu oft segir maður ekki eitthvað svona?
Að maður myndi aldrei gera hitt og þetta eða aldrei geta hitt og þetta??
Og hversu oft segir maður aldrei að segja aldrei?

Ég segi þetta oft en um daginn var ég að velta þessum setningum fyrir mér og mér varð þá ljóst að ég hef oft gert eitthvað sem ég sagðist aldrei ætla að gera eða hélt að ég gæti aldrei gert.
Þrátt fyrir að maður þekki sjálfan sig ansi vel þá kemur maður meira að segja sjálfum sér oft á óvart.

Mér datt þetta í hug þar sem ég lá á skurðarborðinu hjá lækninum á miðvikudaginn og lét taka af mér tvo fæðingarbletti, hef þurft að láta gera það tvisvar sinnum áður og fannst þetta svo sem ekkert mál. Það var allt hvítt og steriliserað og eina hljóðið sem heyrðist var tikkið í sekúnduvísinum. Þá hugsaði ég til þess hvað ég væri heppin að hafa aldrei þurft að liggja á spítala, nema þegar ég átti Grétu og það var bara gaman.

En þar sem ég lá þarna varð mér líka hugsað til afa míns. Fóturinn var tekinn af honum fyrir nokkrum árum og hann hafði mikinn áhuga á að sýna manni þetta allt saman (dauðan fótinn og neglur að detta af og svona) og segja manni frá...því hann var vakandi og fylgdist með þegar fóturinn var tekinn af!!!!!!!!!! Ég gæti það aldrei!!!!!!!!!!! En læknarnir vildu meina að þetta væri sálræn aðferð þar sem hann myndi sættast betur við að missa fótinn ef hann myndi horfa á hann tekinn!!!

Frænka mín fékk meðgöngusykursýki og þurfti að sprauta sig á hverjum degi...eitthvað sem ég held að ég gæti aldrei, sprautað sjálfa mig (en eflaust gæti ég það ef ég þyrfti að gera það).

Eins segi ég oft að ég gæti örugglega aldrei hnoðað mann og blásið í hann þrátt fyrir að vera búin með skyndihjálparnámskeið. En ég held ég gæti heldur ekki staðið hjá og látið mann deyja.

Ég segi líka oft að ef einhver myndi gera barninu mínu eitthvað ógeðfellt myndi ég drepa hann, en ég efast samt um að ég gæti drepið einhvern.

Ég sá líka augnaðgerðina sem Inga Lind (Ísland í dag) fór í, geislana til að þurfa ekki að vera alltaf með gleraugun og mamma vildi endileg að ég færi í svona en ég sagði strax að ég gæti það aldrei...mér fannst þetta svo ógeðfellt eitthvað og óþægilegt!!!

Ég hef semsagt komist að því að margt sem tengist veikindum og spítala er eitthvað sem ég á erfitt með að þola og gæti aldrei...en ef ég nauðsynlega þyrfti myndi ég að sjálfsögðu geta það...eða er þetta kannski allt merki um veikleika?
Ég hef nefnilega dottið í þann pytt (sumir vilja meina að það sé ekki hollt fyrir mig) að lesa mikið af bloggum hjá veikum einstaklingum sem taka veikindum sínum með reisn og blogga um þau af æðruleysi og kenna okkur sem heilbrigð erum að skammast okkar fyrir að taka öllu sem gefnum hlut og vilja eignast allt og geta allt.
Og þar sem ég les þetta reglulega hugsa ég oft um hvernig ég myndi bregðast við í þessum aðstæðum og held að ég viti það en þegar á hólminn er komið held ég að viðbrögðin verði alltaf allt önnur, þrátt fyrir að maður telji sig þekkja sjálfan sig það vel.
Þess vegna borgar sig kannski ekki að vera að dæma um það sem maður myndi og myndi ekki geta eða gera...eða hvað?????????

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Tónlist úr ýmsum áttum

Ég fór í góðra vina hópi á tónleikana með Andrea Bocelli...þvílík sem þeir tókust vel og þau voru ekki síðri söngvararnir sem voru með honum. Ég vissi að hann myndi enda á Con te partiró!!!
Ég veit sko hvað ég syng!!!

Gréta gaf mér svo Under The Desert Sky, dvd og cd með Andrea Bocelli í afmælisgjöf og ég er búin að hlusta á hann nokkrum sinnum og fá gæsahúð, kökk í hálsinn og tár í augun og sér í lagi þegar hann tekur Con te partiró með söngkonunni Heather Headly og jidúddamía hvað hún getur sungið...einstök söngkona þar á ferð.

Ég skellti mér líka á tónlistarmarkaðinn í Perlunni um daginn og keypti mér það
Carpenters -Gold og setti hann strax í tækið og hugsaði til Kristbjargar minnar. Hún elskaði Carpenters og í raun kenndi hún mér að hlusta á þau og ég þakka henni það. Lög eins og Rainy days and mondays, Solitaire, Top of the world og Yesterday once more eru hreint dásamleg.

Ég datt líka niður á frábæran disk með nýja uppáhaldinu mínu, Michael Bublé. Þetta er dvd og cd, Caught in the act og þar fer hann á kostum drengurinn og fær til sín eina af mínum uppáhalds-ítölsku-söngkonum, Laura Pausini og tekst þeim ótrúlega vel upp með lagið You´ll never find another love like mine. Bublé er svo eitthvað að atast út í Josh Groban sem mætir óvænt á svæðið!!!!
Diskurinn er hin besta skemmtun og rúllaði nokkrum sinnum í röð einn sunnudaginn!!!

Þá skellti ég mér aðeins í Kringluna um daginn til að kaupa afmælisgjöf en sá þá að uppáhaldsbarnaplatan mín er loksins komin á geisladisk!!!!!!!! Ég veit ekki hversu oft við pabbi höfum rætt þetta...hvort Píla Pína eigi ekki eftir að koma á cd og jújú...loksins!!
Þetta er falleg saga og tónlistin í henni er stórkostleg....þið sem eigið lítil börn ættuð gjörsamlega að fjárfesta í þessum cd.

Mamma og pabbi gáfu mér svo Síðasta vetrardag með Síðan Skein Sól dvd og cd, stórkostlegt!!!

Næst á dagskrá eru svo tónleikar með Leone Tinganelli í Salnum á sunnudaginn!!!

Mikið er ég glöð með hvað er mikið til að hæfileikaríku tónlistarfólki sem sér mér fyrir allri þessari fallegu tónlist sem framkallar tilfinningar, minningar, tár og bros!!!!!!!!!
Þakka þeim!!!

laugardagur, nóvember 10, 2007

Fatahengið langþráða

Ég hef í mörg ár haft augastað á fatahengi úr Ikea...mér hefur alltaf þótt það flott og sérlega hentugt en þar sem ég hef búið hefur þetta ekki passað eða hentað.

Þegar ég svo skoðaði íbúðina sem ég er í núna sá ég að konan sem var hér var með svona fatahengi svo ég hugaði með mér að nú væri lag, ég færi sko í Ikea og keypti svona þegar ég væri flutt.
Síðan er mér boðið í mat hjá fyrrum nágrannakonu minni og hún var einmitt líka með alveg eins fatahengi og ég minnist á það að mig langi svo í svona og viti menn........Hún sagði að ég mætti bara fá hennar þar sem hún væri að láta smíða nýtt fatahengi fyrir sig!!!

Nágrannakonan góða kom hér í gær með fatahengið og ég var svo kát og sagði að nú hefði draumur minn ræst, mig hefði lengi dreymt um svona fatahengi!! Hún horfði þá á mig vorkunnaraugum og sagði: Íris mín, farðu nú að láta þig dreyma um eitthvað annað og stærra en fatahengi!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Þetta segir kannski meira en mörg orð um hvað ég er jarðbundin og nægjusöm kona....kostur eða galli???????????
Meira um það síðar....

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

07.11.07

Í maí 1954 fæddist Margrét Birna, sem var systir mömmu minnar, en hún lést þann 7.nóvember sama ár.
Þann 7.nóvember 1956 fæðist síðan Ester systir hennar mömmu og þann 7.nóvember 1975 fæðist ég.

Undarlegt ha???

Og í morgun áttu svo Harpa og Jón Gunnar strák, Emil Braga. Tími til kominn að fá strák í hóp föngulegra kvenna sem eiga afmæli í dag!!! Ekki slæm afmælisgjöf það!!! Þúsund þakkir kæru vinir og til hamingju með prinsinn!!!
Við öll, ásamt rússnesku byltingunni, höldum upp á þennan dag!!!

Ég fæddist á föstudegi kl. 18.35 á Selfossi og var 3260 grömm og 51 cm með gasalega mikið og kolsvart hár.
Það fyrsta sem mamma sagði þegar ég kom í heiminn var: Hvort var það?
Stelpa! var svarið og þá spurði mamma hvort allt væri í lagi. Pabbi hins vegar sagði bara: Skelfing ertu eitthvað rauð og grettin greyið mitt!!!!!!!!!!

Núna, 32 árum síðar, er ég orðin gráhærð, farin að skreppa saman en ennþá með unglingabólur!!!!!!!!!!
Ég þakka fyrir hvern afmælisdag sem ég á og þessum degi fagnaði ég með fjölskyldu og vinum!!

Takk fyrir öll sms-in, e-meilin, hringingarnar og afmæliskveðjurnar....þið eruð frábær!!!

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Ítalía - Lokahluti - Parma

Eftir Cremona lá leiðin til Parma þar sem við heimsóttum nokkra vini hennar Ingunnar!!!
Nokkrir þeirra hafa þegar komið til Íslands og verið á þjóðhátíð, smakkað Opal, Tópas, íslenskt brennivín og hákarl með óskemmtilegum afleiðingum.
Þeir vildu því launa henni gestrisnina og ég get svarið það...ég hef sjaldan borðað eins mikið af prosciutto crudo og í þessari ferð...enda er Parmaskinkan frá Parma!!!!!!!!!!!
Þessar elskur voru með þvílíkt hlaðborð fyrir okkur, það var skinka og salami, brauð, spalla cotta (soðin öxl!!!!), hvítvín, rauðvín, desertvín, kaffi og kökur og ég veit ekki hvað og hvað!!!!

Stórt svínslæri hékk uppi við í "hellinum" og við hangandi við hlið þess......ÍSLENSKI FÁNINN!!!

Ég held að þetta sé breiðasta tré sem ég hef séð....


...og stærsta kaffikanna sem ég hef séð!!!
Parma er falleg og hrein borg og við gengum hana þvera og endilanga í leit að geisladiskabúð, bókabúð og í leit að pepperoncino. Allt fannst þetta á endanum!!
Enrico var þokkalega þolinmóður og sýndi okkur allt það helsta, fór meira að segja með okkur í nærfatabúð og sagði okkur hvað honum litist best á fyrir okkur!!!!!!!
Í þessari ferð minni til Ítalíu bættust tvær nýjar borgir í safnið, báðar fallegar og skemmtilegar að heimsækja, eins og Ítalía náttúrulega er öll!!
Hvað ætli ég eigi þá marga staði eftir að heimsækja á Ítalíu???????????

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Ítalía III.hluti - Cremona

Cremona er ítalski heimabærinn minn. Lítill, rólegur bær á ítalskan mælikvarða. 120.000 íbúar og er bærinn nokkuð alþjóðlegur og þá einkum vegna þess að þar er fiðluskóli, liutaio, þar sem fólk kemur víðs vegar að úr heiminum til að læra að smíða fiðlur. Antonio Stradivari sem talinn er hafa verið einn fremsti fiðlusmiður heims fæddist og bjó í Cremona og er skólinn nefndur eftir honum. Myndin hér að ofan er af Il duomo, dómkirkjunni í Cremona. Þetta er einn af mínum uppáhaldsstöðum því þarna á dómkirkjutorginu eyddi ég talsverðum tíma þegar ég var í Cremona fyrir 13 árum!!Þetta var aðalsamkomustaður barnapíanna og þarna kynntist ég fullt af fólki, aðallega ömmum þó!!!
Mér þykir mjög vænt um þennan stað og það sem mér finnst einna best er að kirkjan er nánast alltaf opin og maður getur komið og farið eins og manni sýnist. Mér leið alltaf vel þarna inni, þvílíkt sem hún er falleg og íkonin og málverkin og allt inni í henni er svo fallegt. Það fer um mig svo undarleg tilfinning þegar ég kem þarna inn, ótrúleg ró og friður.


Ég fór sem au-pair til Ítalíu í fyrsta sinn í maí 1994 og var bara í 3 1/2 mánuð því ég þorði ekki að vera lengur þar sem ég kunni ekki stakt orð og vissi ekkert hvernig þetta yrði allt saman. Þessi stelpa er ástæðan fyrir því að ég fór til Ítalíu. Hún var bara 18 daga þegar ég kom til þeirra í fyrsta skiptið. Mamman var mjög óörugg og pabbinn mikið að heiman. Ég hafði verið í vist frá því ég var 10 ára, búin að taka Barnfóstrunámskeið Rauða Krossins og þóttist nú kunna heilmikið á börn sem reyndist svo bara vera meira en satt. Ég stóð mig eins og hetja vægast sagt, gekk um gólf með blessað barnið langt fram á nótt og flautaði vestmannaeyjalög fyrir hana þegar hún var með magakveisu, gaf henni kamillute í pela, nuddaði á henni magann, lék við hana og svæfði hana. Brottfararstundin var því erfið fyrir alla. Þessi dvöl hefði verið mjög erfið ef ég og mamman, Grazia, hefðum ekki náð svona vel saman. Við vorum strax miklar vinkonur og eyddum heilu kvöldunum að kjafta. Hún var mjög forvitin um Ísland og líf mitt þar og ég sagði henni frá frystihúsinu, lífinu í Vestmannaeyjum, fjölskyldunni minni og mörgu öðru. Hún kenndi mér ítölsk orð og setningar og skammaði mig fyrir að fara út með blautt hárið...það gerir það enginn á Ítalíu!!!!!!!! Við höldum mjög góðu sambandi og þegar ég var hjá þeim núna vorum við að tala um fyrir hvor aðra værum við systirin sem við áttum aldrei!!!!!

Á sumrin er mikið af ungu ítölsku fólki sem ferðast og því gafst mér ekki tækifæri til að kynnast mikið af ungu fólki og því náði ég ekki að læra ítölskuna svo vel. Því ákvað ég að fara heim eftir þessa 3 mánuði, klára stúdentinn og fara aftur, sem ég og gerði. Í ágúst 1995 fór ég aftur til Cremona, til sömu fjölskyldunnar og var þá í 1 ár. Þau voru þá búin að finna skóla í Cremona þar sem var ítölskunám fyrir útlendinga og bærinn borgaði það allt. Þannig að ég fór í skóla 3x í viku og lærði heilan helling í ítölsku og kynntist fullt af skemmtilegu fólki.

Núna hefur þessi gaur bæst í hópinn!! Raul er jafngamall Grétu minni, 7 ára og er þokkalega líflegur og hress. Þakka fyrir að það var ekki hann sem ég var að passa, efast um að ég hefði þá farið aftur..hehehe... Hann er skemmtilegur karakter, frábær eftirherma og mikill húmoristi.

Í Cremona fékk ég bestu og stærstu pizzu sem ég hef smakkað!!! Pizza með prosciutto crudo og mozzarella....Mmmmmmmmmmmmmmm....

...og það er svo fyndið að þar sem pizzastaðurinn er var einu sinni prjónabúð þar sem Marie vinkona mín vann og við eyddum talsverðum tíma þar hér einu sinni!! Það var því skemmtilegt flashback að sitja þarna og borða pizzu og drekka rauðvín í desert í stað þess að vera að skoða garn!!!!!

Il Torazzo er eitt af því sem Cremona er þekkt fyrir. Turninn er 112 metrar og það eru 502 tröppur upp í topp!!! Trúið mér, ég hef farið þetta 3x, fór í þriðja skiptið núna með vini mínum sem hefur búið í Cremona í 7 ár en aldrei farið upp!!!!
Við skelltum okkur því upp en því miður var svolítið mistur yfir borginni og útsýnið því ekki eins og best verður á kosið. En samt sem áður var þetta þess virði og gaman að sjá niður á torgið fyrir neðan og aftan á dómkirkjuna og eins að sjá öll húsþökin.

Ég eyddi núna 4 dögum í Cremona með fjölskyldunni minni og gömlum vini mínum. Það var mjög gaman og hefur bærinn minn lítið breyst, nokkur ný hverfi risið og nokkrar nýjar búðir komnar. Ég fór alein í miðbæinn einn eftirmiðdag, eins og ég gerði svo oft hér í denn, og leið bara mjög vel. Ég kíkti í gömlu búðirnar mínar, bókabúðir, hljómplötuverslanir og Coin Casa sem er búð með vörur fyrir heimilið, uppáhaldsbúðin mín.
Svo fór ég með að sækja börnin í skólann, fór með Raul í klippingu og upplifði svolítið þeirra daglega líf sem var virkilega skemmtilegt.
Næst verður Gréta mín að fá að koma með og það líður ekki á löngu þar til ég sný aftur...það er á hreinu!!!