sunnudagur, nóvember 04, 2007

Ítalía III.hluti - Cremona

Cremona er ítalski heimabærinn minn. Lítill, rólegur bær á ítalskan mælikvarða. 120.000 íbúar og er bærinn nokkuð alþjóðlegur og þá einkum vegna þess að þar er fiðluskóli, liutaio, þar sem fólk kemur víðs vegar að úr heiminum til að læra að smíða fiðlur. Antonio Stradivari sem talinn er hafa verið einn fremsti fiðlusmiður heims fæddist og bjó í Cremona og er skólinn nefndur eftir honum. Myndin hér að ofan er af Il duomo, dómkirkjunni í Cremona. Þetta er einn af mínum uppáhaldsstöðum því þarna á dómkirkjutorginu eyddi ég talsverðum tíma þegar ég var í Cremona fyrir 13 árum!!Þetta var aðalsamkomustaður barnapíanna og þarna kynntist ég fullt af fólki, aðallega ömmum þó!!!
Mér þykir mjög vænt um þennan stað og það sem mér finnst einna best er að kirkjan er nánast alltaf opin og maður getur komið og farið eins og manni sýnist. Mér leið alltaf vel þarna inni, þvílíkt sem hún er falleg og íkonin og málverkin og allt inni í henni er svo fallegt. Það fer um mig svo undarleg tilfinning þegar ég kem þarna inn, ótrúleg ró og friður.


Ég fór sem au-pair til Ítalíu í fyrsta sinn í maí 1994 og var bara í 3 1/2 mánuð því ég þorði ekki að vera lengur þar sem ég kunni ekki stakt orð og vissi ekkert hvernig þetta yrði allt saman. Þessi stelpa er ástæðan fyrir því að ég fór til Ítalíu. Hún var bara 18 daga þegar ég kom til þeirra í fyrsta skiptið. Mamman var mjög óörugg og pabbinn mikið að heiman. Ég hafði verið í vist frá því ég var 10 ára, búin að taka Barnfóstrunámskeið Rauða Krossins og þóttist nú kunna heilmikið á börn sem reyndist svo bara vera meira en satt. Ég stóð mig eins og hetja vægast sagt, gekk um gólf með blessað barnið langt fram á nótt og flautaði vestmannaeyjalög fyrir hana þegar hún var með magakveisu, gaf henni kamillute í pela, nuddaði á henni magann, lék við hana og svæfði hana. Brottfararstundin var því erfið fyrir alla. Þessi dvöl hefði verið mjög erfið ef ég og mamman, Grazia, hefðum ekki náð svona vel saman. Við vorum strax miklar vinkonur og eyddum heilu kvöldunum að kjafta. Hún var mjög forvitin um Ísland og líf mitt þar og ég sagði henni frá frystihúsinu, lífinu í Vestmannaeyjum, fjölskyldunni minni og mörgu öðru. Hún kenndi mér ítölsk orð og setningar og skammaði mig fyrir að fara út með blautt hárið...það gerir það enginn á Ítalíu!!!!!!!! Við höldum mjög góðu sambandi og þegar ég var hjá þeim núna vorum við að tala um fyrir hvor aðra værum við systirin sem við áttum aldrei!!!!!

Á sumrin er mikið af ungu ítölsku fólki sem ferðast og því gafst mér ekki tækifæri til að kynnast mikið af ungu fólki og því náði ég ekki að læra ítölskuna svo vel. Því ákvað ég að fara heim eftir þessa 3 mánuði, klára stúdentinn og fara aftur, sem ég og gerði. Í ágúst 1995 fór ég aftur til Cremona, til sömu fjölskyldunnar og var þá í 1 ár. Þau voru þá búin að finna skóla í Cremona þar sem var ítölskunám fyrir útlendinga og bærinn borgaði það allt. Þannig að ég fór í skóla 3x í viku og lærði heilan helling í ítölsku og kynntist fullt af skemmtilegu fólki.

Núna hefur þessi gaur bæst í hópinn!! Raul er jafngamall Grétu minni, 7 ára og er þokkalega líflegur og hress. Þakka fyrir að það var ekki hann sem ég var að passa, efast um að ég hefði þá farið aftur..hehehe... Hann er skemmtilegur karakter, frábær eftirherma og mikill húmoristi.

Í Cremona fékk ég bestu og stærstu pizzu sem ég hef smakkað!!! Pizza með prosciutto crudo og mozzarella....Mmmmmmmmmmmmmmm....

...og það er svo fyndið að þar sem pizzastaðurinn er var einu sinni prjónabúð þar sem Marie vinkona mín vann og við eyddum talsverðum tíma þar hér einu sinni!! Það var því skemmtilegt flashback að sitja þarna og borða pizzu og drekka rauðvín í desert í stað þess að vera að skoða garn!!!!!

Il Torazzo er eitt af því sem Cremona er þekkt fyrir. Turninn er 112 metrar og það eru 502 tröppur upp í topp!!! Trúið mér, ég hef farið þetta 3x, fór í þriðja skiptið núna með vini mínum sem hefur búið í Cremona í 7 ár en aldrei farið upp!!!!
Við skelltum okkur því upp en því miður var svolítið mistur yfir borginni og útsýnið því ekki eins og best verður á kosið. En samt sem áður var þetta þess virði og gaman að sjá niður á torgið fyrir neðan og aftan á dómkirkjuna og eins að sjá öll húsþökin.

Ég eyddi núna 4 dögum í Cremona með fjölskyldunni minni og gömlum vini mínum. Það var mjög gaman og hefur bærinn minn lítið breyst, nokkur ný hverfi risið og nokkrar nýjar búðir komnar. Ég fór alein í miðbæinn einn eftirmiðdag, eins og ég gerði svo oft hér í denn, og leið bara mjög vel. Ég kíkti í gömlu búðirnar mínar, bókabúðir, hljómplötuverslanir og Coin Casa sem er búð með vörur fyrir heimilið, uppáhaldsbúðin mín.
Svo fór ég með að sækja börnin í skólann, fór með Raul í klippingu og upplifði svolítið þeirra daglega líf sem var virkilega skemmtilegt.
Næst verður Gréta mín að fá að koma með og það líður ekki á löngu þar til ég sný aftur...það er á hreinu!!!





0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home