þriðjudagur, júní 27, 2006

Hnykkur....

HUHUMM......ýmsar dylgjur hafa farið af stað í kjölfar "veikinda" minna...hehehe...og hér með staðfesti ég það að við Ingunn vorum EINAR með börnin og engin hamagangur á hóli...þannig að tak mitt er af öðrum ástæðum....hehehehe.....því miður :(

Fór til læknis í dag og get varla annað en brosað út í annað....þetta var ein vandræðalegasta og fyndnasta læknisferð. Hann byrjar auðvitað á að spyrja hvað hann geti gert fyrir mig og ég lýsi þessu fyrir honum og hann spyr hvort ég hafi verið hnykkt...öh..nei bara farið í venjulegt nudd svara ég og þá segir hann mér að setja hendurnar á höfuðið og krækja þeim saman. Hann fer fyrir aftan mig og byrjar að lyfta mér og "hnykkja" og ef þetta er hnykk þá er ég heilaskurðlæknir...huhumm!!! Þetta var ein fyndasta lífsreynsla sem ég hef lent í, þetta var eins og þegar 5 ára barn lyftir 3ja ára barni....og í framhaldi af þessu var ég látin leggjast og ég átti að segja þegar ég þoldi ekki meir...sem ég og gerði....síðan átti ég bara að staulast á fætur og teygja úr mér og hann var alveg steinhissa þegar ég sagði að ég fyndi nú bara meira til en áður en ég kom inn til hans!!!!!!!
Þá skrifaði hann bara upp á sterk bólgueyðandi lyf og mælti með frosnum gelpoka og svo myndi þetta bara lagast!!!!!!!!!!!! Og benti mér á að láta fjarlægja tvo fæðingarbletti af bakinu!!!

Merkilegt nokk...svo ég hringdi nú bara í alvöru hnykkjara og fæ vonandi tíma hjá honum fyrr en síðar og þá skal ég sko segja þeim sem ekki vita hvernig hnykk er í alvörunni!!!! Og ég verð illa svikin ef það er eitthvað í líkingu við þetta "hopp og hoss" sem ég upplifði í morgun!!

Semsagt....tognun í liðum neðst í baki og upp eftir bakinu....voltaren rapid, frosið gel í handklæði við bakið og hreyfa sig svolítið....uh..kannast við lyfið og gelið en hvað er þetta síðastnefnda eiginlega??????????

mánudagur, júní 26, 2006

Tak í bak

Jæja...það var þá aldrei að maður brygði sér af bæ...við Ingunn brugðum okkur á Arnarstapa í bústað með börnin um helgina og höfðum það virkilega gott...þrátt fyrir að veðurspáin væri eitthvað út úr kú....og svo þegar maður kemur heim þá er maður bara lurkum laminn....er með svona líka hrikalegt tak í bakinu að ég gat varla hreyft mig í gær....var samt búin að lofa Grétu að fara í sund og loforð er loforð svo sundferðin stóðst og þegar við vorum á leiðinni heim hélt ég að mér væri allri lokið...bakið bara fast og ég bogin eins og kroppinbakur. Skil ekkert í þessu þar sem við fórum ekki í fjallgöngu, engin átök og ekkert þannig...kannski er þetta hreyfingarleysi....eða legusár???

Íbúfen, upp í rúm, fundin góð stelling, pantaður tími hjá lækni.....,jamm...allt þetta og mamma á leiðinni frá eyjum til að hugsa um stelpuna...og barnabarnið....alveg róleg....er ekki alveg rúmföst en nokkuð mikið bogin og kvalin í bakinu.....læknir á morgun....fróðlegt að heyra hvað hann segir!!

Ekki nóg með þetta....Ingunn með hausverk og flökt fyrir augunum eftir ferðina...hvað er málið?? Er maður orðið svona mikið borgarbarn að maður þolir ekki heilnæma jöklaloftið? Eða er þetta aldurinn...ja er von að maður spyrji!!!!

En hvað um það....vonaði að takið myndi losna þegar dómarinn dæmdi ítölum vítaspyrnu á lokasekúndum leiksins gegn Ástralíu í dag og Totti þrumaði boltanum af öryggi í netið...mikið sem mig langaði að stökkva á fætur...en lét það ógert...vil fara að komast í vinnuna og gera eitthvað af viti...við mæðgur auðvitað í Ítalíu-outfittinu, með derhúfu og svitaband og Gréta með ítalska fánann málaðann á kinnarnar....Forza Italia og tak úr baki takk!!!!

miðvikudagur, júní 21, 2006

21.júní


17.júní 2000 var ég að skúra stofuna heima hjá mér með bumbuna út í loftið og fór svo með Óla bróður niðri í bæ. Við fundum okkur bílastæði við Seðlabankahúsið og fórum svo niður á bryggju til að sjá víkingaskipið Íslending fara úr höfn. Þegar við komum niður á bryggju hittum við frændfólk okkar og allir voru eitthvað upptrekktir og spurðu hvort við hefðum fundið jarðskjálftann...og við Óli litum bara á hvort annað og hristum hausinn og vissum ekkert um hvað liðið var að tala!!!
Ég var með gsm-símann...til öryggis þar sem ég átti að eiga 4 dögum síðar...og ég var bara með hann í töskunni og heyrði ekkert í honum og þegar ég var á heimleið sá ég bara mörg missed calls....mamma og pabbi, Þórir og fleiri...allir að athuga með ólétta konuna í jarðskjálftanum...ég kippti mér ekkert upp við þetta þar sem ég fann hann ekki en þegar ég svo sá myndirnar í fréttunum...og þá sérstaklega myndirnar frá Vestmannaeyjum, þá skildi ég allan æsinginn.

Ég var samt svolítið spæld að hafa ekki fundið fyrir jarðskjálftanum sjálf. En að kvöldi 20.júní og fram eftir miðnætti.....semsagt til 21.júní....lá ég uppi í sófa og var að horfa á Nátthrafna á Skjáeinum....alveg verkjalaus og grunlaus!!! Klukkan var minnir mig að verða 01.oo þegar allt byrjar að nötra og titra í Eskihlíðinni...seinni jarðskjáftinn fór ekki framhjá minni...ó nei!! Mamma og pabbi hringdu meira að segja og allir pínu spenntir eitthvað.

Um 2 leytið fer ég svo bara að sofa en vakna svo um 4.20 og er svona líka illt í maganum....ljósmóðirin sem ég hafði verið með var búin að vera í þessum bransa í milljón ár og hún var alltaf búin að segja að ég myndi eiga 21.júní því þá væru sumarsólstöður...ég var sett þennan dag..miðað við allt...sónar líka!!!
Jæja...mín byrjar að rölta um og svona...ætlaði varla að trúa því að þetta væri að gerast, bara á réttum tíma og svona. Við fórum upp á spítala um kl. 9 og svo tók við bara allskonar æfingar og svona...finna sér stellingar, fara í bað, rembast, prófa smá glaðloft og svona...mikið gaman.....eitthvað lét stelpan mín á sér standa og ljósmóðirin var alltaf að segja að hún sæi í dökkan loðinn kollinn og þá sagði ég henni bara að rífa barnið út á hárinu...hehehe...og svo þegar ljósmæðurnar voru orðnar tvær yfir mér (vegna vaktaskipta) og eitthvað að pískra lét ég í mér heyra og vildi fá að vita hvað þær væru að tala um...þær sögðust þá verða að fá hjálp ef stelpan færi ekki að koma og ég hélt nú ekki....og rembdist og kom stelpunni minni í heiminn kl 16.15. Falleg, heilbrigð, svarthærð stúlka, 16 merkur og 54 cm...mikið sem ég varð glöð og hamingjusöm. Hún var strax nefnd Gréta Dögg (eftir foreldrum sínum) og það var löngu ákveðið.

Gréta Dögg var og er yndislegt barn. Sem ungabarn þurfti lítið að hafa fyrir henni, hún var vær og góð, ekkert mál að taka brjóst og hætta á því...notaði aldrei snuð og var fljót að læra að sofa út á morgnana!!
Hún er svolítið sérstakur karakter, hún er ekki allra og hefur aldrei verið. Hún gerði mannamun á ungaaldri og gerir enn. Hún er frekar fullorðin enda kannski ekki von þar sem hún umgengst mikið af fullorðnu fólki. Hún er líka svolítill besservisser enda fylgir það þessum aldri. Hún er með skap og getur verið hrokafull þegar þannig liggur á henni. Hún er dálítið óörugg með sig...eins og hún sé hrædd við að gera mistök...(kannski með fullkomnunaráráttu eins og mamman??) Hún er mikill spaugari og veit ekkert skemmtilegra en að hrekkja og grínast í ákveðnum aðilum....hún er fljót að svara fyrir sig og á jafnan frábær tilsvör!!

Hún var bara 3ja ára þegar hún las fyrsta orðið, OSTUR, í Krónunni í Vestmanneyjum og síðan þá hefur hún haft óbilandi áhuga á stöfunum og nú kann hún þá alla..les og skrifar eins og herforingi, litla og stóra stafi og svo eru það tölustafirnir sem heilla núna. Hún les allt frá skemmtilegu smábarnabókunum til Páls Vilhjálmssonar og fer létt með það.

Gréta hefur gætt líf mitt svo mikilli gleði og ég nýt þess að vera mamma hennar, hún er allt mitt líf og við erum miklar og nánar vinkonur. Að mínu mati er hún besta barn í heimi og ég er heppnasta mamma í heimi!!!

Elsku MúsíKrúsí Gréta mín...til hamingju með 6 ára afmælið þitt!!! Ég elska þig milljón trilljón billjón silljón endalaust!!!

Þín mamma!

mánudagur, júní 19, 2006

Námskeiðsdagur

Í maí var námskeiðsdagur hjá okkur í vinnunni og voru þetta þrír vinnustaðir saman og því slatti af fólki sem ég þekki ekkert. Námskeiðið fjallaði um samstarf, starfsanda og fleira í þeim dúr.
Mér þótti þetta afar áhugavert frá byrjun og fyrirlesarinn hélt athygli minni allan tímann. Ég tel að á síðastliðnu ári hafi ég breyst töluvert innan í mér...andlega...þótt kannski aðrir geri sér ekki grein fyrir því og því finnst mér ég móttækilegri fyrir svona löguðu og tel mig vera að nýta mér þetta...ég tek til mín það sem ég tel líkt mér og líka það hvernig ég vil vera.
Fyrirlesarinn var alltaf að tala um að maður breytti sjálfum sér mjög lítið...ég er ekki alveg sammála því....því mér finnst ég hafa verið að taka stöðugum breytingum sl. ár. Ég hef verið að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður og hluti sem ég hélt ég myndi aldrei gera.

En á námskeiðinu var fjallað um vinnupersónuleika, viðfangsefni þeirra og mismunandi hlutverk. Það er 8-9 mismunandi hlutverk á vinnustað og maður finnur sig í svona 2-3 af þeim (skv. þessum fyrirlestri). Hópurinn hefur þörf fyrir mismunandi hlutverk og jafnvægi í samsetningunni er mikilvægt. Alla vega.....mitt hlutverk var augljóst frá byrjun...og allmargir af mínum samstarfsmönnum litu til mín þegar fjallað var um þetta hlutverk.....það kallast FÍNPÚSSARI og það sem hann gerir er m.a

  • Sér um erftirfylgni, er nákvæmur
  • Áhersla á smáatriði og skyldur
  • Fylgist með gæðum og frágangi
  • Skipuleggur og gleymir engu
  • Hrifinn af reglum og mynstri

En gallarnir eru

  • Of mikið af smáatriðum og missir yfirsýn
  • Hefur áhyggjur af lítilvægum atriðum
  • Á það til að hafa of miklar áhyggjur!!!


Ok...og svo það sem er sagt um Fínpússarann er þetta:

Fínpússarinn nærist á áhættu sem leiðir til fullkomnunaráráttu og áherslu á smáatriði. Hann hefur stöðugar áhyggjur af öllu sem gæti farið úrskeiðis. Hann er hrifinn af reglum og ákveðnum mynstrum og athugar í sífellu hvort allt gangi vel og hvort verkefnum sé skilað á réttum tíma. Hann er mjög gagnrýninn, hefur náið eftirlit og fylgist með gæðum. Hans ytri sjálfsagi og ró eru villandi því hann drekkur í sig alla streituna sem fylgir starfinu, stundum á kostnað heilsunnar. Fínpússarinn getur haft niðurdrepandi áhrif á hópmeðlimi vegna stöðugs nöldurs!!!

Það verður fróðlegt að sjá hvort þeir sem þekkja mig vel kannast við eitthvað af þessu í fari mínu....ég kannast nefnilega við heilmargt sjálf!!

Svo ég uppljóstri nú ýmsu um mína geðveiki þá þoli ég ekki þegar skúffur eru ekki alveg lokaðar, hlutir eru skakkir, bækur ekki jafnar í hillum..og svona mætti lengi telja!!!

Já...en ég tel það gott að vera meðvitaður um hvernig maður er og hvað maður er að gera sjálfum sér og öðrum!!

Námskeiðinu lauk svo með því að við áttum að vera 5 saman í hópi, af sama vinnustað og helst af sömu deild og svo áttum við að hrósa...og ég get svarið það...það sem það var ljúft en erfitt samt líka að hrósa og taka við hrósi....en ég uppgötvaði allavega hvað ég að frábæra samstarsfélaga og hvað það er skrýtið að vera með fólki 8-9 tíma á dag, 5 daga vikunnar og hafa svo engin samskipti við þetta fólk utan vinnunnar en bera samt sem áður svona sterkar og djúpar tilfinningar til þeirra.....það kom mér mest á óvart!!

mánudagur, júní 12, 2006

Boltinn...

...byrjaði sko að rúlla fyrir alvöru hjá mér í dag....sko í HM...við Gréta fórum í Ítalíu-bolina okkar, ég setti á mig nýju Ítalíu derhúfuna mína og Gréta fór meira að segja með Ítalíu úlnliðssvitabandið mitt í leikskólann....og svo fórum við til afa og Ingu í mat og horfðum á leikinn. Ítalía-Ghana fyrir ykkur sem fylgist ekkert með boltanum og Ítalía vann 2-0. Ég hafði reyndar spáð 3-1 og hefði ekkert verið sorgmædd þótt Ghana hefði skorað eitt mark, þeir voru sprækari en maður átti von á, verð ég að segja. Mér fannst líka ítalir spila skemmtilegan bolta, sækja mikið og ekki liggja bara á sínu svo þetta var bara þrælfjörugur leikur...og auðvitað ekkert leiðinlegt að horfa á rennandi sveitta heita ítali...ó sei sei nei!!!

Gaman að fylgjast með ítölsku fjölmiðlunum í kjölfarið, þeir eru svooooo miklir ættjarðarsinnar og hrikalega gaman að skoða myndirnar hér http://www.corriere.it/Speciali/Extra/2006/Germania2006/

Annars eru nú ekki fallegar fréttir úr fótboltaheiminum á Ítalíu..Juventus í svaka rannsókn þar sem þeir eru grunaðir um að hafa haft rangt við með mútum (hvað eru nokkur stykki Fiat milli framkvæmdastjóra Juve og framkvæmdastjóra ítalska knattspyrnusambandsins!!). Þar sem ég lá á sundlaugarbakkanum á Mallorca las ég ítalskt slúður og þar las ég grein um þetta mál...og þar kemur einmitt fram að grunur leikur á að Juve, Milan, Fiorentina og Lazio hafi öll haft rangt við í leikjum sínum, dómarar hafi verið þeim of hliðhollir og nokkur dómarapör hafi hreinlega hjálpað þessum stórliðum að vinna stóra titla....hvað segir þetta um fótboltann?? Að það eru peningarnir sem skipta mestu máli....græðgin er að fara með þetta fólk...enda sjá hvað þessir kappar eru með í laun og peningarnir sem fara í að kaupa menn til að elta tuðru út um allan völl...hvað er það??
Og á Ítalíu voru leikmenn eins og landsliðsmarkmaðurinn þeirra, Buffon, og fleiri leikmenn að veðja um úrslit leikja og að leggja allt að hálfa milljón evra undir....svo maður spyr sig...vita leikmenn af því fyrirfram að þeir koma til með að vinna leikinn?? Kallar maður það að vinna fyrir laununum sínum?? Ef þetta eyðileggur ekki fyrir fótboltanum þá veit ég ekki hvað það er...það er bara gaman að bullunum miðað við þetta!!!

Ef liðin verða fundin sek fyrir þetta verðum þeim gert að fara í serie C1 sem er bara glatað og þá held ég að fari að halla undan fæti í ítalska boltanum....huhumm!!

Það sem mér fannst áhugavert í greininni var umræðan um hversu sárt þetta er fyrir stuðningsmenn liðanna, það eru þeir sem gera leikinn að því sem hann er, án þeirra væri lítið gaman að æða út á völlinn og spila, ef enginn væri að hvetja. Í greininni segir að " nú velta milljónir stuðningsmanna því fyrir sér með gremju og sorg hvort liðið sem þeir styðja af öllu hjarta hafi í raun og veru unnið titilinn á drengilegan hátt eður ei. Og aðrir stuðningsmenn hugsa með hryllingi til þess að þeirra lið hafi ekki unnið neinn stóran titil eða sé jafnvel komið í Serie B vegna ódrengilegrar framkomu ýmissa aðila".

Mínir vinir á Ítalíu segja alla vega að þeim þyki nóg komið og það sé ekkert gaman að fylgjast með boltanum lengur, þetta snúist allt um peninga og ekki lengur um þá ástríðu að spila...og ítalir eru mjööööög ástríðufullir!!!

En FORZA ITALIA segi ég nú bara og vona að mínir menn, Totti stuttklippti, og Del Piero snoðaði taki riðilinn með stæl og sjáum svo til hvað setur....

Tek á móti hamingjuóskum í commentum...líka af því ÍBV vann KR 2-0 í eyjum...verður gaman að sjá hvað Teitur segir í blöðunum á morgun, nóg vældi hann í dag...gleði gleði...eintóm gleði í boltanum í dag!!!

Mamma og Pabbi

Ég furða mig stundum á því af hverju mamma og pabbi eru gift!!

Ég meina það...mamma er búin að vera með mér, Grétu og Óla á Mallorca í 2 vikur og hafði bæði gott og gaman af því (vona ég) en pabbi getur ekki hugsað sér að fara svona á sólarströnd...hann vill frekar fara til Grænlands, Færeyja eða bara yfir Sprengisand í staðinn....það er svo sem ekkert að því, hann hefur Svan bróður sinn til að fara með sér í þannig ferðir og mamma hefur okkur til að liggja í sólbaði með.

En það er líka margt annað, mamma er mikil páska-og jólaskreytingakona og það sem hún á af skrauti....je minn eini...hún spilar jólatónlist og skrifar jólakort og svona en pabbi fær alltaf skrýtna flensu fyrir jólin, hann þolir illa allt þetta umstang og hefur lítið sem ekkert gaman af þessu (nema kannski eftir að Gréta fæddist).

Eins er það með fermingarveislur og þess háttar, mamma fer í þetta með glöðu geði en pabbi lætur ekki sjá sig í þeim...við rétt komum honum í okkar fermingar og ekki með svo góðu..hann dauðöfundaði Bjarna frænda (sem var þá 5 ára minnir mig) í minni fermingu því hann sofnaði í kirkjunni, fór úr sparifötunum um leið og hann kom heim og fékk samloku í veislunni!!!

Það sem er kannski samt fyndnast við þetta er að mamma er enn að reyna að kenna gömlum hundi að sitja, eftir 30 ára hjónaband...er hún enn að reyna að fá hann í veislur og boð og þess háttar, vitandi það að honum þykir ekkert leiðinlegra...og það sem er best við þetta er að hún pirrar sig ennþá á því þegar hann segist ekki fara fet....og ég spyr mig sífellt hvort hún haldi virkilega að hann breytist úr þessu?????

Þegar við komum að utan var pabbi í vinnu og við fórum fyrst með töskurnar hennar mömmu heim til hans og hún byrjaði að "tauta" um að vonandi hafi pabbi farið í klippingu á meðan við vorum ekki heima...hehehe....og svo segist hún alltaf ætla að LÁTA hann gera hitt og þetta...það getur alveg drepið mig...."ég ætla sko að láta hann pabba þinn fara og kaupa sér gallabuxur", "ég ætla sko að láta hann pabba þinn fara í Krónuna og kaupa sér..."

Sem betur fer erum við ólík öllsömul...en stundum finnst mér svo fyndið hvað mamma og pabbi eru ólík, þau eru samt sem áður bæði svolítið sérstök og ætli það sé ekki þess vegna sem þau umbera hvort annað...hehehe..og kannski ennþá frekar núna þar sem þau eru í fjarbúð og hittast sjaldnar...pabbi fer heim um helgar og gerir það sem mamma "lætur" hann gera.

Samt sem áður og þrátt fyrir það eru þau mamma mín og pabbi og ég kann ágætlega við þau :)

Ég fór á fyrirlestur í vetur þar sem talað var um að þótt reynt væri að hafa jafnræði á heimilinu þá væri það alltaf annar aðilinn sem réði aðeins meira og dæmið sem hann tók var frekar fyndið...hann þóttist vera að finna stað á vegg fyrir málverk sem var nýbúið að kaupa á heimilið og hann stóð við vegginn og þóttist vera að finna málverkinu stað og spurði svo hvort við héldum að það væri maðurinn eða konan sem héldi á málverkinu og hvort það væri maðurinn eða konan sem stæði svolítið frá og skipaði hinum að hækka/lækka, fara aðeins ofar/neðar, meira til vinstri/hægri....hvað haldið þið???

föstudagur, júní 09, 2006

Heimkoma og HM

Jæja þá er sælan búin í bili....ferðin var ótrúlega vel heppnuð í alla staði og mikið er maður búinn að hafa það gott....ekki þurft að hafa fyrir neinu...borðað úti öll kvöld, búið um og þrifið alla daga...maður þurfti bara að hafa fyrir því að bera á sig sólarvörn, after-sun, ákveða í hvað maður ætlaði að fara og hvert átti að fara að borða...ótrúlega erfitt og maður bara á dagvinnutaxta á meðan...isssss....hehehehe....en nú er þessu lokið og maður kominn heim á klakann....Frón klikkaði ekki og tók á móti okkur með sunnan-sudda...Brrrrrr...alveg HREINT yndislegt.

En við skoðuðum nú smá á Mallorca, fórum 2x til Alcudia og skoðuðum annars vegar höfnina og hins vegar gamla bæinn. Svo fórum við til Palma og skoðuðum þar svolítið og skelltum okkur svo í Marineland sem er sædýragarður og sáum við þar höfrungasýningu og sæljón sýndu listir sínar og það var meiriháttar gaman. Svo fórum við líka með hópi íslendinga í Hydropark sem er rennibrautagarður og mín lét sig hafa það að fara eina bunu...hef aldrei treyst mér í það fyrr..hehehe.

En nú er sem sagt bara að halda áfram að taka upp úr kössum...það gerist víst ekki að sjálfu sér....koma myndum á veggina, finna sér gardínur, og halda áfram að reyna að koma sér fyrir...allt tekur þetta sinn tíma...en allt tekur þetta líka enda!!!
Það er bara gaman að koma sér fyrir og svona...fara yfir ALLT draslið sem maður hefur sankað að sér og sem fylgir því að eiga EITT barn....je minn fyrir þeim sem eiga fleiri!!!

Svo er það bara HM...finnst nú sorglegt að RUV skuli ekki vera með það....eins og mér finnst gaman að fylgjast með boltanum og öllu þessu í kringum þessa keppni þá hreinlega get ég ekki hugsað mér að borga 12.000 fyrir Sýn bara til að fylgjast með þessu :(
Svo ég sagði afa og Ingu að við mæðgur yrðum kannski eins og gráir kettir hjá þeim þennan mánuð...alla vega þegar Ítalía er að keppa og svo væri gaman að sjá leiki með Englendingum, Þjóðverjum og nokkrum öðrum.....þetta er bara gaman.

Forza Italia!!!!