sunnudagur, október 09, 2005

Kristbjörg mín


Í dag, 9.október 2005 hefði elskuleg vinkona mín, hún Kristbjörg Oddný orðið þrítug. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það séu rúmlega 6 1/2 ár frá því að hún yfirgaf okkur, einungis 23 að aldri. Yndisleg móðir, vinkona, unnusta og dugnaðarforkur í alla staði sem aldrei barmaði sér, ekki einu sinni þegar hún var í mörgum vinnum og var að sjá fyrir fjölskyldu.

Leiðir okkar lágu fyrst saman á róluvellinum sem er rétt heima hjá Ester frænku (og rétt hjá æskuheimili Kristbjargar), eða svo sagði Kristbjörg alltaf og ekki þýddi að þrátta við hana því hún mundi sko allan andsk.... Hún sagði mér það að við hefðum hist þar þegar ég var tiltölulega nýflutt til Vestmannaeyja (þá 10 ára gömul) og að ég hefði spurt hana hvort við ættum að vera vinkonur!!! Þetta þykir mér alltaf svo skemmtileg saga og óska þess alltaf að muna eftir þessum degi.
Ekki urðum við samt vinkonur upp frá þessu en það var greinilegt að frá okkar fyrstu kynnum var okkur ætluð vinátta og seinna lágu leiðir okkar aftur saman og við urðum bestu vinkonur. Við áttum margt sameiginlegt, það átti sko eftir að koma í ljós, við drukkum ekki, vorum ótrúlega samviskusamar og saklausar og með NÚLL álit á okkur sjálfum :), fíluðum Bryan Adams, Sálina, SSSól og marga aðra!!!

Kristbjörg var ótrúlega góð vinkona og við áttum yndislegar stundir saman, en eins og gengur og gerist þegar vinkonur byrja á föstu þá féllum við því miður í þá gryfju að missa svolítið af hvor annarri. Báðar vorum við ósáttar við það og ég er þeim degi fegnust er við ræddum þau mál í eitt skipti fyrir öll. Eftir það vorum við báðar sáttar og sælar og vinskapur okkar betri og fallegri en nokkru sinni fyrr. En það var of skammt eftir.....kallið hennar kom og eftir sátum við og skildum hvorki í þennan heim né annan. Hvernig getur þetta gerst, að ung kona í blóma lífsins ali barn og sé svo tekin frá því, eldri barni sínu, unnusta, fjölskyldu og vinum á svipstundu???
Enn þann dag í dag reynist mér erfitt að sætta mig við þennan endir, og ég spyr í sífellu hvað henni hafi verið ætlað.

Á afmælisdegi Kristbjargar hafa foreldrar mínir alltaf farið með kerti eða blóm fyrir mína hönd að leiði Kristbjargar, og dagurinn í dag var engin undantekning, ein bleik rós. Í dag loguðu líka mörg kerti við myndina af okkur elskan!!!

Ég vil benda ykkur á síðuna http://www.vinir.is/ en það er heimasíða vinahópsins. Þar er myndasýning sem Sighvatur okkar hefur sett saman auk þess sem hægt er að lesa minningargreinar og annað um okkar ástkæru vinkonu.

Minningin um Kristbjörgu lifir í hjörtum okkar að eilífu.

7 Comments:

At 10:09 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

 
At 7:48 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Falleg grein Íris mín, sammála þér með hversu yndisleg minningin þín er um barnslegt sakleysið þegar þú 10 ára segir við Kristbjörgu hvort þið "eigið að vera vinkonur"...svona einfalt á lífið að vera :)

Megi minningar um góða vinkonu hjálpa þér í gegnum verkefni lífsins.

Þinn vinur,
Sighvatur

 
At 1:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ elskan.
Vá hvað ég táraðist mikið þegar ég var að lesa þessa grein,mikið rosalega sakna ég hennar. Þetta er fallega grein hjá þér. Góðar minningar um elskulega vinkonu hjálpa okkur í gegnum svona erfiða tíma.
Sakna þín alveg rosalega. Elska þig. Þín vinkona Harpa

 
At 5:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Úff, ég man svo vel eftir því þegar ég fékk símhringingu með fréttum um að Kristbjörg væri látin. Finn ennþá stinginn sem stakkst í magann, kuldahrollinn sem rann niður bakið á mér og kökkinn sem ætlaði ekki að fara úr hálsinum á mér. Fyrst hélt ég að ég hefði misskilið e-ð, svo vissi ég hreinlega ekki hvað ég átti að halda - hún af öllum... það passaði bara ekki! Hún var hreystin og heilbrigðin uppmáluð.

Þó að við Kristbjörg hefðum ekki verið nánar vinkonur þá held ég að maður jafni sig eiginlega aldrei á svona atburðum - fyrir utan það hvað þetta var óendanlega sorglegt og óréttlátt, þá var þetta líka ótímabær og óþægileg áminning um það að við erum öll dauðleg þó við séum ung.

Það er gott að sjá hvað hún hefur átt góða vini sem halda fallegri minningu um hana á lofti.
Beta

 
At 12:01 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mikið er þetta falleg síða sem þið haldið úti vinirnir.. Það er greinilegt að vinaböndin ykkar á milli eru sterk.. Mjög falleg minningargreinin um hana Kristbjörgu. Minning hennar lifi.
kveðja
Ragna Jenný

 
At 12:29 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hún var alveg frábær persóna... og ég man hvað ég var lengi að fatta að hún væri dáin, mér fannst þetta bara svo ótrúlegt og hræðilega sorglegt allt saman.
Falleg grein hjá þér Íris.

 
At 3:29 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Yndislega falleg grein um vinkonu þína Íris.
Kv. Ingunn

 

Skrifa ummæli

<< Home