laugardagur, september 29, 2007

Brandarar

Af því ég er hér í miðjum flutningum, að pakka á fullu og henda og flokka og ég veit ekki hvað og hvað og hef engan tíma til að láta mér detta eitthvað sniðugt í hug ákvað ég að senda þessa brandara ekki áfram í tölvupósti heldur smella þeim hérna inn......þakka þeim sem fann upp COPY-PASTE ,alger snilli!!!!
Góða skemmtun!!


Prestur nokkur var í sumarfríi á Spáni. Á útimarkaði rakst hann á einkar vel gerðar styttur af guðspjallamönnunum fjórum. Hann keypti stytturnar og gaf kirkjunni sinni þegar hann kom heim. Þar var þeim komið fyrir á sérstöku borði. Á því var pappaskilti með áletruninni "Guðspjallamennirnir Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes". Skömmu síðar var brotist inn í kirkjuna og einni styttunni stolið. Ekki lét prestur það slá sig út af laginu. Hann bjó til nýtt skilti á borðið hjá styttunum sem eftir voru og stóð nú á því: "Vitringarnir þrír, Kaspar, Melkjör og Baltasar". Enn lét kirkjuþjófurinn til sín taka og stal styttu. Presti datt ekki í hug að játa sig sigraðan fyrir þessum misyndismanni og enda þótt styttunum hefði fækkað um helming skrifaði hann á skiltið við þær: "Postularnir Pétur og Páll". Þjófurinn var ekki síður staðfastur en klerkur og í þriðja skiptið fór hann inn í kirkjuna í leyfisleysi. Þá lét hann sér ekki nægja að stela öðrum postulanum heldur fékk hann útrás fyrir skemmdarfýsn sína á styttunni sem hann skildi eftir, braut m. a. af henni hausinn og hafði á brott með sér. En prestur dó ekki ráðalaus. Nú stóð á skiltinu á styttuborðinu: "Jóhannes skírari daginn eftir að hann var hálshöggvinn"
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Einn daginn fékk maðurinn minn skyndilega þá köllun að fara að sinna heimilisstörfunum og í einhverju bjartsýniskasti ákvað hann að þvo stuttermabolinn sinn. Hann var varla kominn inn í þvottahús þegar hann kallaði á mig "Á hvaða stillingu set ég þvottavélina elskan?" Það fer eftir því hvað stendur á bolnum" kallaði ég til baka. "Húsasmiðjan" gargaði hann...
Og svo segja þeir að ljóskur séu heimskar.....
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Flugvél flaug í gegnum talsvert óveður. Ókyrrðin var mikil og ekki skánaði ástandið þegar eldingu laust niður í annan vænginn. Ein kona tapaði sér alveg. Hún stóð upp fremst í vélinni og öskraði "Ég er of ung til að deyja!!". Síðan kallaði hún "ef ég á að deyja núna þá vil ég að síðustu mínútur mínar í þessu jarðlífi verði minnisverðar. Er einhver hér í flugvélinni sem getur látið mér líða eins og sannri konu?" Það sló á þögn í vélinni og fólkið starði á örvæntingarfullu konuna fremst í vélinni. Þá stóð karlmaður frá Texas upp aftarlega í vélinni.Hann var myndarlegur, hávaxinn, vel vaxinn. Hann gekk rólega fram ganginn og byrjaði að hneppa frá sér skyrtunni, einni tölu í einu. Enginn annar hreyfði sig. Hann fór úr skyrtunni og hnyklaði brjóstvöðvana. Hún tók andköf...Þá sagði hann..."Straujaðu þessa og færðu mér bjór"
---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

mánudagur, september 24, 2007

Upprifjun

Stelpan bara byrjuð að pakka...ekki seinna að vænna...flytjum líkast til á mánudag!!
Pökkunin gengur ekki alveg nógu hratt fyrir sig þar sem ég er alltaf að finna eitthvað gamalt dót og þarf að skoða það svona aðeins... þannig að það tefur!!

Var til dæmis að skoða möppur með teikningunum hennar Grétu en ég setti flestar teikningarnar hennar frá yngri árum í plast og svo í möppu. Það er svo gaman að fletta þessu núna og sjá þróunina, og líka frá því hún byrjaði að skrifa...maður minn!!!!

Ýmsar myndir poppa líka upp ásamt bæklingum og öðru. Las meira að segja yfir fæðingarskýrsluna mína, þ.e. síðan ég átti Grétu hehe...ekki síðan ég fæddist!!!! Ótrúlegt hvað þetta rifjast allt upp fyrir manni þegar maður les þetta..hehehe. Fletti í gegnum mína Dagbók barnsins og las það sem mamma hafði skrifað, hehehee..mikið svakalega var ég gott og fallegt barn!!

Las líka minningargreinar um Kristbjörgu mína, ömmu Boggu og Simba frænda svona af því ég var að fara yfir skúffuna þar sem ég geymi þetta. Jamm ég er gasalega skrýtin!!!

Það er ótrúlega gaman að því að líta aðeins yfir farinn veg, það hjálpar mér að sjá hver ég var hver ég er orðin og hver ég vil vera. Ég hef breyst að mörgu leyti síðastliðin ár og sumar breytingarnar kann ég vel við, annars sakna ég. En eins og maðurinn sagði You can´t have it all!!!!

Farin að pakka....ciao!!

laugardagur, september 15, 2007

Flytja...enn og aftur!!!

Ég flutti hingað í Hraunteiginn fyrir 17 mánuðum síðan en bjóst við að vera hér bara í 1 ár. Þegar leigusamningurinn rann út stóð mér til boða að vera hér þar til 1.október og síðan annaðhvort kaupa íbúðina, þar sem það á að fara að selja hana, eða flytja eitthvað annað.
Okkur líður svakalega vel hér, staðsetningin er frábær, nágrannarnir meiriháttar, mikið af börnum í hverfinu og ótrúlega mikill og fallegur gróður hér. Stutt í skólann, ræktina, til Ingunnar, til pabba og þetta er bara ótrúlega þægilega miðsvæðis.

Að flytja er ekki kannski það skemmtilegasta sem maður gerir en þó er margt jákvætt við það. Meðal annars það að maður hefur tækifæri til að fara í gegnum draslið sem maður nær einhvern veginn alltaf að sanka að sér, maður kynnist ólíkum einstaklingum (nágrannar), maður lærir að meta það sem maður hefur, það sem maður hafði og hvað manni langar að hafa í framtíðinni.

Hver íbúð sem maður býr í hefur sína kosti og galla. Íbúðin sem ég er í er fín, ég myndi gjarnan vilja kaupa hana og sé marga skemmtilega möguleika en hún kostar of mikið fyrir mig auk þess sem hún þarfnast nokkurra endurbóta fyrr en seinna. Og þar sem ég er ekki til í að drepa mig á því að kaupa mér íbúð eins og fasteignaverð er í dag verð ég bara að halda áfram að leigja og reyna að safna!!!!!

Íbúðin sem ég er búin að fá hins vegar er nýtekin í gegn, með upphituðu gólfi, gaseldavél (sem hræðir mig þó nokkuð), tveimur svefnherbergjum svo ég get hætt að sofa í "stofunni", parket og flísar, stofa og borðstofa!!!!
Hinsvegar eru engar svalir þar sem hún er á jarðhæð og hún er ekki eins björt og þessi sem ég er í en allt hitt vegur á móti, you can´t have it all!!!!!
Nágrannarnir eru ekki heldur af verstu gerð þar sem pabbi gamli býr í íbúðinni fyrir ofan þá sem við erum að fara að flytja í!!!!!! Já ég er pabbastelpa...hahahaha....

En allavega....ég er himinlifandi yfir að vera komin með aðra íbúð...var farin að örvænta svolítið en nú er ég bara góð!!!
Svo....best að hætta þessu babli og skella sér í geymsluna að ná í kassa.....og fara að fara að pakka...eina ferðina enn!!!!!

laugardagur, september 08, 2007

Barnaland

Nokkrum sinnum hefur maður heyrt fréttir af því að foreldrar hafi þurft að kalla til lögreglu þar sem unglingar fengu brjálæðiskast og rústuðu heimilinu af því foreldrarnir ýmist sögðu upp internetinu eða meinuðu börnunum aðgangi að tölvu.
Dóttir mín er 7 ára og er bara ansi fær á tölvu þannig lagað. Mikið hefur verið rætt um að foreldrar fylgist með tölvunotkun barna sinna og unglinga þar sem mikið er af ósóma á netinu.

Þá kem ég að því sem liggur mér á hjarta...

Þannig er mál með vexti að við höfum verið með heimasíðu fyrir Grétu á barnalandi og henni hefur alltaf þótt gaman að skoða síðuna sína, skipta um bakgrunn, velja myndir, lesa kveðjur í gestabókinni og annað. Þá hefur hún einnig gaman af því að skoða heimasíður vina og vandamanna á barnalandi. Síðan hennar var alltaf opin en í vor ákváðum við að setja lykilorð, maður veit jú aldrei hvað fólki dettur í hug!!

Sjálf fer ég bara inn á barnaland til að uppfæra síðuna hennar Grétu, ég skoða aldrei barnalandssíðuna (spjall, umræður, auglýsingar eða annað) en oft hefur maður heyrt sögur af því sem fram fer þar og ég verð að játa að ég lét undan forvitninni um daginn þar sem ég hafði heyrt þessar sögur og hefur fólk sem tengist mér orðið fyrir barðinu á gjammandi kjaftakellingum þar og það var ekki fallegt. Þannig að ég ákvað að kanna sjálf hvað væri til í þessu og renndi yfir nokkra spjallþræði og átti ekki til orð.

Nú ætla ég ekki að vera bara neikvæð og leiðinleg, það er vissulega frábært að svona spjall sé til þar sem sumt af því sem var verið að spyrja um eða ræða var gott og gáfulegt (spurningar eins og hvernig á að þykkja sósu? hvaða pollagallar eru bestir fyrir leikskólabörn? og annað í þeim dúr) EN margt þarna var gjörsamlega óviðeigandi fyrir síðu sem kallast BARNALAND og ætla ég ekki að útlista það hér þar sem dóttir mín getur líka lesið mitt blogg!!!! Þið verðið bara að fara sjálf þar inn!!!!
Mér þykir bara alls ekki við hæfi að umræða eins og fyrirfinnst á barnalandi sé þar og opin öllum, skárri væri að hafa lykilorð til að komast inn í umræðuna og lesa það sem þar er skrifað og skrifa þann ósóma sem þar er skrifaður.

Ef barnið mitt er ekki "óhult" á síðu sem heitir BARNALAND þá er nú netheimurinn orðinn ansi slakur.

Því hef ég í mótmælaskyni ákveðið að flytja heimasíðuna hennar Grétu af barnalandi yfir á 123.is. Ný síða er í vinnslu og þegar hún er komin af stað læt ég vini og vandamenn vita af slóðinni og lykilorði!!

fimmtudagur, september 06, 2007

Luciano Pavarotti

Þá er hann fallinn frá blessaður kallinn.

Á mínum yngri árum hafði ég lítinn sem engan áhuga á óperu en vissi samt alltaf hver Pavarotti var og hafði oft heyrt á hann minnst og um hann talað. Svo fór ég náttúrulega til Ítalíu og þá var náttúrulega ekki annað hægt en kynna sér svolítið Pavarotti, söng hans og náttúrulega það sem skrifað var um hann í slúðurblöðunum auk þess sem hann var iðulega í sjónvarpinu.

Pavarotti hélt árlega tónleika, Pavarotti & Friends og voru þeir til að safna fé til styrktar börnum sem minna mega sín. Á þessum tónleikum söng hann með hinum og þessum tónlistarmönnum, hann söng með þeim þeirra lög og þeir sungu með honum hans lög. Meðal þeirra voru Spice Girls, Bono, George Michael, The Corrs, Jon Bon Jovi, Tracy Chapman og fleiri og fleiri auk náttúrulega ítalskra tónlistarmanna. Með þessu fór hann óhefðbundnar leiðir og var ófeiminn við það að syngja hvaða tegund tónlistar sem var, rokk, fönk, rapp og popp :)
Auk þess voru barnakórar sem sungu með og ég lýg engu þegar ég segi að ég var með gæsahúð alla tónleikana, kökk og tárin í augunum.

Eftir að ég kom heim eignaðist ég nokkra geisladiska með Pavarotti og einnig með Tenórunum þremur. Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að Pavarotti er einn af fáum karlmönnum sem hefur komið öðrum karlmönnum til að gráta, ég trúi því að háu tónarnir í Nessun Dorma snerti hjörtu allra, kvenna og karla.

Þegar Gréta mín var ungabarn og ég var með hana heima spilaði ég oft Pavarotti fyrir hana og þegar hún var farin að hafa meira vit og farin að velja tónlist vildi hún oft að ég spilaði fyrir hana Pavarotti í staðinn fyrir barnadiskana sem hún átti. Hennar uppáhaldslag var Funiculí, Funiculá og þegar ég spurði hana hvernig Pavarotti syngi söng hún alltaf brot úr þessu lagi.

Það er mikill missir fyrir tónlistarheiminn, já og okkur tónlistaraðdáendur, að sjá á eftir þessum stórfenglega manni og til heiðurs honum og til minningar um hann hef ég sett videóspóluna mína með Pavarotti & Friends síðan 1995 (held ég) í videótækið og hækkað allt í botn!!!

Megi minningin um Pavarotti lifa og hvíli hann í friði.

þriðjudagur, september 04, 2007

Einn klukkutími

Það er ótrúlegt hvað einn klukkutími skiptir oft miklu máli.

Ég er að vinna núna aðra hverja viku frá 8-16 og hina frá 9-17. Þar sem mér finnst ótrúlega gott að sofa þá var ég að spá í að tala við umsjónakennarann hennar Grétu og athuga hvort hún mætti ekki bara mæta kl.9 aðra hverja viku, þá gætum við sofið klukkutíma lengur!!!!!
En þetta er náttúrulega bara grín, ég er ekki svona sjúk...nema bara að hafa dottið þetta í hug!!!!!

Allt hefur þetta sína kosti og galla, mér finnst gott að fara með Grétu í skólann og geta svo farið heim og græjað mig, það gengur mun betur hjá mér milli kl. 8 og 9 en milli kl. 7 og 8, og mér finnst bara vera komið hádegi þegar ég mæti klukkan 9.
En gallinn er hins vegar sá að það er gasalega gott að vera búin að vinna kl.16 og þar liggur helsti munurinn, það er frekar mikill munur að koma heim kl. 16.20 en 17.30 þar sem það er líka talsverður munur á umferðinni.
Svo á maður eftir að fara að versla eða fara í ræktina eða kannski til tannsa eins og ég gerði í gær eftir vinnu og það tók mið 30 mín að komast úr vesturbænum í Hamraborgina!!!!!!!!

Þannig að það munar töluvert um klukkutíma en það fer eftir því hvaða klukkutími það er!!!!