fimmtudagur, september 06, 2007

Luciano Pavarotti

Þá er hann fallinn frá blessaður kallinn.

Á mínum yngri árum hafði ég lítinn sem engan áhuga á óperu en vissi samt alltaf hver Pavarotti var og hafði oft heyrt á hann minnst og um hann talað. Svo fór ég náttúrulega til Ítalíu og þá var náttúrulega ekki annað hægt en kynna sér svolítið Pavarotti, söng hans og náttúrulega það sem skrifað var um hann í slúðurblöðunum auk þess sem hann var iðulega í sjónvarpinu.

Pavarotti hélt árlega tónleika, Pavarotti & Friends og voru þeir til að safna fé til styrktar börnum sem minna mega sín. Á þessum tónleikum söng hann með hinum og þessum tónlistarmönnum, hann söng með þeim þeirra lög og þeir sungu með honum hans lög. Meðal þeirra voru Spice Girls, Bono, George Michael, The Corrs, Jon Bon Jovi, Tracy Chapman og fleiri og fleiri auk náttúrulega ítalskra tónlistarmanna. Með þessu fór hann óhefðbundnar leiðir og var ófeiminn við það að syngja hvaða tegund tónlistar sem var, rokk, fönk, rapp og popp :)
Auk þess voru barnakórar sem sungu með og ég lýg engu þegar ég segi að ég var með gæsahúð alla tónleikana, kökk og tárin í augunum.

Eftir að ég kom heim eignaðist ég nokkra geisladiska með Pavarotti og einnig með Tenórunum þremur. Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að Pavarotti er einn af fáum karlmönnum sem hefur komið öðrum karlmönnum til að gráta, ég trúi því að háu tónarnir í Nessun Dorma snerti hjörtu allra, kvenna og karla.

Þegar Gréta mín var ungabarn og ég var með hana heima spilaði ég oft Pavarotti fyrir hana og þegar hún var farin að hafa meira vit og farin að velja tónlist vildi hún oft að ég spilaði fyrir hana Pavarotti í staðinn fyrir barnadiskana sem hún átti. Hennar uppáhaldslag var Funiculí, Funiculá og þegar ég spurði hana hvernig Pavarotti syngi söng hún alltaf brot úr þessu lagi.

Það er mikill missir fyrir tónlistarheiminn, já og okkur tónlistaraðdáendur, að sjá á eftir þessum stórfenglega manni og til heiðurs honum og til minningar um hann hef ég sett videóspóluna mína með Pavarotti & Friends síðan 1995 (held ég) í videótækið og hækkað allt í botn!!!

Megi minningin um Pavarotti lifa og hvíli hann í friði.

1 Comments:

At 2:21 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Alveg sammála maðurinn var alger snillingur og mikill söknuður af honum. Ég á þó nokkra diska með honum og hef alltaf haldið mikið upp á hann.
Blessuð sé minning hans og diskurinn í tækið honum til heiðurs.

Kv. Køben

 

Skrifa ummæli

<< Home