laugardagur, september 08, 2007

Barnaland

Nokkrum sinnum hefur maður heyrt fréttir af því að foreldrar hafi þurft að kalla til lögreglu þar sem unglingar fengu brjálæðiskast og rústuðu heimilinu af því foreldrarnir ýmist sögðu upp internetinu eða meinuðu börnunum aðgangi að tölvu.
Dóttir mín er 7 ára og er bara ansi fær á tölvu þannig lagað. Mikið hefur verið rætt um að foreldrar fylgist með tölvunotkun barna sinna og unglinga þar sem mikið er af ósóma á netinu.

Þá kem ég að því sem liggur mér á hjarta...

Þannig er mál með vexti að við höfum verið með heimasíðu fyrir Grétu á barnalandi og henni hefur alltaf þótt gaman að skoða síðuna sína, skipta um bakgrunn, velja myndir, lesa kveðjur í gestabókinni og annað. Þá hefur hún einnig gaman af því að skoða heimasíður vina og vandamanna á barnalandi. Síðan hennar var alltaf opin en í vor ákváðum við að setja lykilorð, maður veit jú aldrei hvað fólki dettur í hug!!

Sjálf fer ég bara inn á barnaland til að uppfæra síðuna hennar Grétu, ég skoða aldrei barnalandssíðuna (spjall, umræður, auglýsingar eða annað) en oft hefur maður heyrt sögur af því sem fram fer þar og ég verð að játa að ég lét undan forvitninni um daginn þar sem ég hafði heyrt þessar sögur og hefur fólk sem tengist mér orðið fyrir barðinu á gjammandi kjaftakellingum þar og það var ekki fallegt. Þannig að ég ákvað að kanna sjálf hvað væri til í þessu og renndi yfir nokkra spjallþræði og átti ekki til orð.

Nú ætla ég ekki að vera bara neikvæð og leiðinleg, það er vissulega frábært að svona spjall sé til þar sem sumt af því sem var verið að spyrja um eða ræða var gott og gáfulegt (spurningar eins og hvernig á að þykkja sósu? hvaða pollagallar eru bestir fyrir leikskólabörn? og annað í þeim dúr) EN margt þarna var gjörsamlega óviðeigandi fyrir síðu sem kallast BARNALAND og ætla ég ekki að útlista það hér þar sem dóttir mín getur líka lesið mitt blogg!!!! Þið verðið bara að fara sjálf þar inn!!!!
Mér þykir bara alls ekki við hæfi að umræða eins og fyrirfinnst á barnalandi sé þar og opin öllum, skárri væri að hafa lykilorð til að komast inn í umræðuna og lesa það sem þar er skrifað og skrifa þann ósóma sem þar er skrifaður.

Ef barnið mitt er ekki "óhult" á síðu sem heitir BARNALAND þá er nú netheimurinn orðinn ansi slakur.

Því hef ég í mótmælaskyni ákveðið að flytja heimasíðuna hennar Grétu af barnalandi yfir á 123.is. Ný síða er í vinnslu og þegar hún er komin af stað læt ég vini og vandamenn vita af slóðinni og lykilorði!!

1 Comments:

At 10:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Líst vel á þig sys.. þar sem ég er mjög forvitin á ég það til að kíkja á þetta spjall og finnst það MJÖG ógeðslegt!! hef sko oft hugsað um að flytja síðuna hans Heiðars en sökum einskærrar leti hef ég ekki nennt því.. ætti kannski að taka þig mér til fyrirmyndar :) Annars langaði mig bara að segja HÆ :) kiss kiss HB sys

 

Skrifa ummæli

<< Home