miðvikudagur, júní 29, 2005

Tapað-fundið!!!

Jah....þetta er svo sannarlega lítill heimur.....

...ég er með síðu á barnalandi fyrir hana Grétu mína, og í fyrrasumar fékk ég skilaboð þar frá stelpu sem var einn vetur með mér í skólanum á Hvanneyri og við lékum okkur mikið saman það árið. Síðan flutti hún og ég hef hvorki heyrt frá henni né af henni, hvað þá séð hana síðan þá...og ég er að tala um árið 1982....eða ´83...það er svo langt síðan... sjáiði til!! Hún hafði séð nafnið hennar Grétu á síðu hjá gamalli skólasystur sem er barnsmóðir frænda míns....flókið?? Lítill heimur!!!

Ekki nóg með það....því svo kom einn pabbinn að sækja son sinn í leikskólann og þá var það líka gamall hvanneyringur........og ég hafði ekki heldur séð hann í mörg ár.....tveimur vikum seinna fór ég í húsdýragarðinn og þar hitti ég æskuvinkonu mína, börnin hennar og mömmu....reyndar styttra síðan ég hafði hitt þær en skondin tilviljun samt sem áður!!!!

En þetta er ekki allt!!!!
Þegar ég var yngri átti ég fullt af pennavinum um allan heim....sumum þótti manni skemmtilegra að skrifa en öðrum, og ég eignaðist marga góða vini...en það er með þetta eins og allt annað...maður þarf að hafa tíma til að skrifa, svo þegar maður flytur og líf manns breytist og fyrr en varir hættir maður að skrifa. EN..... í fyrradag var ég að skoða KHI póstinn minn og þar var e-meil frá stelpu sem bjó þá á Ítalíu en býr núna í Vín og við vorum pennavinkonur í kringum 1993-94.
Einhverra hluta vegna slitnaði sambandið og við hættum að skrifast á....nema hvað...að hún var að leita að einhverju á Google....rambaði þar á nafn einhvers gamals vinar og ákvað í framhaldi af því að leita að öðrum gömlum vinum sem hún hafði ekki heyrt frá lengi....þannig að hún sló inn mitt nafn og fann mig þannig....og síðustu daga hafa e-meilin skotist á milli og 10 árum gerð skil í grófum dráttum........óvænt ánægja.....og allt fyrir tilstuðlan Internetsins!!!!!

Já svona er heimurinn nú lítill og minnkar í raun með tilkomu Internetsins!!!

mánudagur, júní 20, 2005

Kvenna-þetta og kvenna-hitt

Einhversstaðar hef ég heyrt að konur séu konum verstar....ætli sé eitthvað til í því???
Ég veit ekki...ég veit það hreinlega ekki!!

Ég hef ekki mikið tekið þátt í svona "kvenna-dögum", hef til dæmis aldrei farið í Kvennahlaupið, né gert neitt þann 19.júní...en í dag varð breyting á!!!
Ég og Gréta fórum með rútu á Þingvelli til að fagna því að í dag eru 90 ár síðan konur fengu kosningarétt. Ég sá þetta auglýst í blöðunum í gær og hugsaði með mér að það gæti nú verið gaman að slá tvær flugur í einu höggi og fara á Þingvelli í góðu veðri og ekki skemmdi nú fyrir að það væru tónlistaratriði og einhver gleði líka.
Reyndar verð ég að játa að ég ætlaði nú varla að nenna þegar ég sá að það var rigning en dóttir mín, þessi elska, sá til þess að ég skellti bara pollagöllunum okkar, vettlingum, húfum og öðrum nauðsynjum í bakpoka og af stað!!!!
Ég er svo ánægð að hún skuli hafa "suðað" í mér að fara því það var virkilega gaman að taka þátt í þessum viðburði, konur á öllum aldri og þónokkrir karlmenn einnig, samankomin til að fagna og til að hvetja alla til umhugsunar og íhugunar á stöðu kvenna í dag....það er jú árið 2005 og enn eru konur að berjast t.d. við launagreiðindur og aðra um að fá sömu laun og karlar. Manni finnst að margt sem við erum þakklát fyrir ætti að vera samt svo sjálfsagður hlutur.

Persónulega upplifði ég margt sérstakt í göngunni niður Almannagjá, mér þykir mjög vænt um gömul íslensk ættjarðarlög og hef mikið dálæti á lögum eins og "Lands míns föður", "Ísland ögrum skorið" og "Eg vil elska mitt land", og þegar ég heyrði þau þarna í Almannagjá í dag, spiluð og sungin, íslenski fáninn flaksandi allsstaðar og ungar konur standandi hátt uppi á klettum, þá varð ég meyr og klökk og ég verð að játa að ég átti nokkuð erfitt með að halda aftur af tárunum...ég var stolt af því að vera kona, en aðallega þakklát fyrir að vera ÍSLENSK kona, ekki t.d. írönsk eða eitthvað þannig, ég er þakklát fyrir að njóta þeirra forréttinda að búa í landi þar sem ég stunda nám, stunda vinnu, velja minn eigin maka, eiga barn, klæðast því sem ég vil...og svo mætti lengi telja.......þannig að þið sjáið að ég átti í mikilli tilfinningalegri flækju þarna í dag :)

Ég er ekki mikill femínisti í mér, hvað sem það svo er???
Ég þoli yfirhöfuð ekki kvennasamkomur, er ekki í saumaklúbbi, fer helst ekki á kvennakvöld (fór í fyrsta sinn á kvennakvöld í vetur og efast um að ég fari aftur), snyrtivörukynningar, tuppeware og þess háttar...mér leiðist þetta allt....umræður um uppskriftir, hannyrðir, og þess háttar fara næstum í taugarnar á mér.....kannski af því að ég vinn á kvennavinnustað og fæ nóg af þessu þar???

Hefði ég kannski ekki átt að vera strákur? Hver veit...kannski er það það sem bíður mín í næsta lífi....ég hef alla vega meira gaman af því að fylgjast með boltanum eða formúlunni en horfa á Opruh og Dr. Phil.....hvað svo sem það þýðir?????

föstudagur, júní 17, 2005

Þakka þér!!!!

Ég nota svolítið oft þessa setningu...Þakka þér! og stundum segi ég nú "ég þakka nú bara fyrir á meðan þetta/ hitt er/ er ekki svona eða svona" (svolítið flókið en þið skiljið hvað ég á við??)

En alla vega....það sem ég vildi sagt hafa er það að maður á að taka sér tíma og þakka í alvöru fyrir það sem maður hefur, heilsu, fjölskyldu, vinnu, vini, mat, yndislegt land, gott og vont veður...það sem drepur mann ekki styrkir mann og eflir...það er á hreinu...það er einhver tilgangur með þessu öllu og stundum tekur það mann bara svolítinn tíma að átta sig á því hver tilgangurinn er.

Undanfarið hef ég verið að átta mig enn frekar á því hvað lífið hefur leikið við mig. Kannski líka í ljósi þess að tveir af mínum æskuvinum úr Vestmannaeyjum hafa misst mæður sínar núna á stuttum tíma. Mamma mín fékk krabbamein árið 1991 og þurfti að fara í aðgerð og geislameðferð og nota síðan hormónaplástur og núna gel...en hún er samt laus við þennan erkióvin og gott betur. Mamma mín var lánsöm og þar með ég og fjölskyldan okkar líka. Ég velti því stundum fyrir mér hvað veldur þessu, af hverju komst sumir í gegnum þetta en aðrir ekki??

Ég þakka alla vega fyrir að mamma mín skuli vera á lífi og nokkuð hraust um leið og ég sendi samúðarkveðjur til æskuvina minna, Laufeyjar og Kjartans á Múla.

sunnudagur, júní 12, 2005

Í fréttum er þetta helst....

...ég get svo svarið það að ég skemmti mér sjaldan eins vel og í kaffitímanum á morgnana þegar ég fletti Fréttablaðinu.....það er mun skárra heldur en þurfa að hlusta á sjónvarps-og útvarpsfréttirnar þar sem varla er fjallað um nokkuð annað en hversu margir létust í sprengjuárás Kallaballa í einhverju landi lengst úti í rassg......æææ....ég er bara hundleið á því að vakna á morgnana og það fyrsta sem maður heyrir ef maður opnar fyrir útvarpið eru svona líka hundleiðinlegar fréttir....ekki skrýtið þó helmingur mannkyns sé á gleðipillum!!!!

Hafiði t.d ekki tekið eftir því að þegar fjallað er um "súlustaði" í fréttunum í sjónvarpinu þá þurfa alltaf að fylgja myndir af hálfallsberum konum að nudda sér upp við súlu!!! Sem foreldri verð ég nú bara að hneykslast á þessu....mér persónulega finnst þetta óþarfi þar sem flest fullorðið fólk getur bara ímyndað sér það sem gerist þarna!!!

Ó nei þá kýs ég nú heldur að sleppa því að opna fyrir útvarpið/sjónvarpið og velja frekar hvaða fréttir ég kæri mig um að sjá.

Eins og til dæmis þessa sem ég fjallaði um hér fyrir nokkru....með manninn sem var tekinn með allt sælgætið!!!

Og svo var það maðurinn sem missti stjórn á skapi sínu þegar kona lagði fyrir innkeyrsluna hjá honum. Hann rauk út, sagði nokkur vel valin orð við konuna, tók hana síðan og skellti henni upp á vélarhlífina á bílnum og RASSSKELLTI hana!!!! Viljiði spá í þetta?? Og svo fannst honum bara skrýtið að þurfa að taka út refsingu fyrir þetta (sem mér finnst reyndar líka, mér finnst undarlegt að hann þurfi að sitja inni þegar menn sem fremja grófari brot en þetta, játa bara og ganga svo út...en það er önnur saga!!)

Eiga börnin frekar að deyja??

Ég á bara ekki eitt aukatekið orð yfir því að henni Lilju, sem sótti um að fá að ættleiða barn, hafi verið hafnað VEGNA þess að hún var of feit!!! Reyndar hefur hún nú unnið hluta málsins en þarf að berjast áfram til að fá það sem hún vill, að ættleiða barn frá Kína.

Er því þannig komið að fólk sem er hraust og heilbrigt, stundar líkamsrækt og er sjaldan frá vinnu (eins og Lilja, miðað við það sem maður les í blöðunum...ég geri mér grein fyrir að það er aldrei öll sagan sögð) fái ekki að ættleiða barn.

Er ekki verið að segja með þessu að æskilegra sé að börnin kúldrist á munaðarleysingjahælum, á götunni eða hreinlega að þau deyji frekar en að feitt fólk fái að ættleiða börn??? HVAÐ ER MÁLIÐ MEÐ ÞESSU???

Er konum undir/yfir kjörþyngd skipað í fóstureyðingu eða hvað?? Er það ekki bara næsta skref....einungis "steríotýpur" mega eignast börn????

Mér finnst þetta svo sorglegt...og ég skil ekki hver er tilgangurinn með þessu.
Það er nefnilega svo undarlegt að hver sem er getur eignast barn og margir gera það án þess að hugsa um það sem því fylgir. Svo er fólk sem hefur allt sem þarf til að annast barn, ást og umhyggju, peninga og allt....en það getur ekki átt börn.....þetta er sorglegt!!!
Þannig að ég segi bara Áfram Lilja!!!

mánudagur, júní 06, 2005

Kettir eru líka fólk!!!

Ja hérna hér.....ég bara verð að segja ykkur þessa geggjuðu sögu....

Þannig er mál með vexti að áður umrædd samstarfskona mín, hún Herdís, á kött...sem kallast Harry. Þegar þau voru nýflutt vestur í bæ týndist Harry í nokkra daga. Herdís setti auglýsingu í sjoppuna og nokkrum dögum seinna kom kona sem býr á horninu með Harry til Herdísar og lét hana vita að hann væri búinn að vera hjá henni í nokkra daga og tilkynnti henni einnig að hún teldi köttinn Harry vera föður sinn endurfæddan, en pabbi konunnar hét Henry og var kallaður Harry!!!!

Nú....Harry á það til að týnast og veit Herdís þá að hann er hjá "dóttur" sinni í heimsókn og í góðu yfirlæti!!!

En eitt skipti var Herdísi allri lokið þegar konan bankaði upp á hjá henni með manninn sinn, sem er útlendingur, og spurði hvort Harry væri heima. Konan sagði svo við manninn sinn "Speak, speak to him, he will answear you back!!!" Og maðurinn byrjar að kalla "kis, kis" og Harry mjálmar eitthvað og konan taldi þar með fullvissað að "pabbi hennar" og tengdasonur hans næðu bara vel saman!!!!!!

Mikið er nú gott að menn og dýr skilja hvert annað!!!!

miðvikudagur, júní 01, 2005

Íslenska náttúran...

...það jafnast ekkert á við íslenska náttúru og íslenska ferska loftið!! Ég skellti mér í göngu með pabba mínum í kvöld...þetta er í annað sinn sem við förum saman hringinn hans....og það var alveg hreint unaðslegt að labba í Fossvoginum og framhjá gróðrastöðinni þar....þvílíkur ilmur af rökum trjám og gróðri,umm,umm,umm!!!!
Síðan þegar við komum að Fossvogskirkjugarði varð ilmurinn enn sterkari því þar var nýbúið að slá og vökva og það var svo mikill gróðurilmur að ég hefði verið til í að anda honum að mér í allt kvöld!!! En mér var ekki til setunnar boðið (enda í heilsubótargöngutúr!!!!) svo ég leit nú bara við á leiðinu hjá henni ömmu minni og svo héldum við förinni áfram. Luktin hennar ömmu er enn brotin, ég þarf að taka hana með mér næst og komast að því hvar er hægt að láta gera við hana.

Ég fékk tölvupóst frá ítölsku fjölskyldunni minni þar sem þau lýsa enn og aftur öfund sinni á ferska loftinu sem við öndum að okkur, hjá þeim er hitinn orðinn alltof mikill, 30-32° inni í miðri borg þar sem rakinn er mikill...og þetta er bara byrjunin!!! Ég er búin að vera að reka á eftir þeim í nokkur ár að koma bara hingað þegar hitinn er sem mestur hjá þeim en þau hafa ekki enn látið verða að því.....skil ekki hvað þau eru þá að kvarta :) nei nei, ég væri annars alveg til í að fá eins og 15° í viðbót hingað...það væri afskaplega fínt....takk fyrir!!!

Auglýsingar.....

...eru misgóðar...ég er ekki áhrifagjörn og rýk ekki af stað til að kaupa hitt og þetta sem ég sé auglýst....langt í frá.....en sumar auglýsingar finnast mér svoooo geggjaðar....eins og t.d Lottó-auglýsingarnar með Jóni Gnarr og svo 10-11 auglýsingarnar með Svavari tískulöggu og Steini Ármanni svo ég nefni dæmi.
Auglýsingar eru ætlaðar til að vekja athygli á einhverju en nú er svo komið að auglýsingar Umferðarstofu hafa verið bannaðar...ég verð að segja að mér fannst ekki gott að horfa á þær þegar þær komu fyrst en svo fór maður að heyra að þessar auglýsingar vöktu upp umræður hér og þar, jákvæðar og neikvæðar og er tilganginum þá ekki náð?? Auk þess sem falleg íslensk tónlist hljómaði undir, Klementínudansinn, og það eitt og sér gerði auglýsinguna áhugaverða og eftirminnilega. Alla vega í mínum huga!!! Mætti þá frekar banna hundleiðinlegar dömubindaauglýsingar, sjampó og háralita-auglýsingar takk fyrir!!!!!!

Það virðist nú vera orðið þannig í þjóðfélaginu okkar að það þarf að ganga gjörsamlega fram af fólki til að fá athygli....ég er ekki með Stöð 2 og hef því aldrei séð hinn umdeilda þátt "Strákarnir" en ég hef heyrt hitt og þetta um þáttinn frá samstarfsfólki og svo frá börnunum í leikskólanum auk þess að hafa stundum horft á þá á Popptíví, og ég er fegin að vera ekki með Stöð 2 og þurfa að sitja með dóttur minni til að útskýra fíflaganginn í strákunum, hvað má og hvað má ekki. Mér sjálfri finnst margt af því sem þeir eru að gera frekar fyndið og allt það en mér finnst þetta ekkii vera barnaefni....já já kalliði mig gamaldags...ég veit ég er það!!!!!
Hvort sem fólk horfir á þetta með börnunum sínum og útskýrir fyrir þeim hvað er að gerast og af hverju þá hefur þetta samt sem áður áhrif á þau...ég fer ekki ofan af því!!!

Mér finnst samt bara undarlegt að sýna megi strákana á þessum tíma en ekki auglýsingar frá Umferðarstofu sem fjalla um blákaldan raunveruleikann!!!!