Gærdagurinn var svona "bitter-sweet" dagur, ég keyrði ítölsku fjölskylduna mína á Keflavíkurflugvöll í svarta þoku og á heimleiðinni var ég ein í svartaþoku á Reykjanesbrautinni með tárin í augunum (á svona líka bágt með að kveðja) og með tónlistina í botni. Söknuðurinn var mikill þrátt fyrir vissuna um að hittast á ný á þessu ári meira að segja.
Fyrir 13 árum fór ég sem au-pair til þeirra og við náðum strax vel saman. Vináttan hefur haldist og styrkist í hvert sinn sem við hittumst. Þau eru alveg frábær og mér líður svo vel með þeim, þau eru opin og einlæg og segja nákvæmlega það sem þeim finnst. Þau eru svo dugleg að hrósa mér og benda mér á þá kosti sem ég hef að bera auk þess að fá mig til að líta jákvæðari augum á allt það góða sem ég hef í lífi mínu. Eftir þessar tvær vikur kann ég miklu betur að meta það sem ég hef og ætla að reyna að halda áfram að vera jákvæð og þakka fyrir það sem ég hef.
Þau bentu strax á það...sem ég þó vissi... að ég er umkringd af fólki sem gerir allt fyrir mig mamma og pabbi lánuðu mér bílinn sinn, til að lána ítölunum hann, í 2 vikur auk þess að snúast í kringum okkur og elda ofan í okkur í eyjum, Diddi bróðir lánaði okkur bílinn (til vara), Óli bróðir lánaði mér sængur og bauð okkur öllum út að borða og í ísbíltúr á eftir, Birgitta lánaði mér kælibox, Ester og Einar lánuðu okkur húsið sitt í eyjum þar sem þau voru hjá Kristborgu frænku í Svíþjóð og Þórey gaf okkur kjúkling og rauðvín. Gréta mín var best allra barna og lánaði ítölunum allt sem þau báðu um (gameboy, dvd, i-podinn, dót og hvaðeina).
Þúsund þakkir öllsömul fyrir hjálpina!!!!
Þessar 2 vikur sem fjölskyldan mín var hér var mikið ferðast og margt brallað. Við byrjuðum á að fara til Vestmannaeyja daginn eftir að þau komu til landsins og eyddum þar 3 dögum. Pabbi keyrði okkur um eyjuna á lítilli rútu, við röltum um bæinn og kíktum í búðir en hátindur ferðarinnar fyrir þau var að komast í íslenskt frystihús og sjá hvernig við vinnum fiskinn (ég var svo mikið búin að tala um frystihúsin og vinnuna þar þegar ég var hjá þeim). Mamma tók á móti okkur í Godthaab og leiddi þau í allan sannleika um fiskiframleiðslu Íslands auk þess að sýna þeim hvern einasta fermeter í frystihúsinu. Þá versluðum við bæði saltfisk og hinn margrómaða harðfisk (Böddabita) sem sló rækileg í gegn á Ítalíu.
Mamma og pabbi elduðu mat sem féll ítölunum misvel, kjötsúpan sló í gegn en lundinn ekki, hangikjötið sló í gegn en sviðakjammarnir ekki, nýjar kartöflur slóu í gegn en rúgbrauð ekki!!!
Nú...þegar við vorum svo aftur komin á fast land skoðuðum við Reykjavík city; Laugaveginn, Hallgrímskirkju + turninn, leikskólann minn, Fjölskyldu-og húsdýragarðinn, Grasagarðinn og Kaffi Flóru (þar sem heimsins besta kjúklingasalat fæst).
Auðvitað fórum við svo Gullna hringinn (Þinvellir, Geysir, Gullfoss og Kerið) með viðkomu í Eden, fórum að Garðskagavita, Álfubrúnni, Reykjanesvita og enduðum í Bláá Lóninu, skuppum svo í Jökulsárlón og gistum eina nótt í sumarbústað á Hörgslandi, tókum léttan hring um Nesjavelli og kíktum svo í Borgarfjörðinn og á Hvanneyri þar sem margar frábærar minningar rifjuðust upp.
Veðrið var bara aldeilis ágætt og þau voru mest ánægð að fá einn góðan og einn slæman dag í Eyjum því þá fannst þeim þau skilja lífið þar og fólkið mun betur. Margir sólardagar voru, nokkrir vindasamir og örfáir skýjaðir dagar, svo þegar á heildina er litið var þetta bara aldeilis ágætt!!
Mörg comment hafa fallið um land og þjóð og munu þau kannski birtast hér á allra næstu dögum...hehehe...
En semsagt...við mæðgur erum bara tvær í kotinu og lífið að fara í fastar skorður...byrja að vinna á morgun og skólinn hjá Grétu byrjar eftir 10 daga!!