fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Vetrarfrí

Gréta er í vetrarfríi í dag og á morgun og þetta er í fjórða sinn sem hún er í vetrarfríi frá því hún byrjaði í skóla. Ég er hlynnt því að börnin fái smá hvíld frá skólanum EN mér finnst að það þurfi að vera betur úthugsað til að börnin fái það frí sem er verið að veita þeim og geti verið með sínum nánustu.
Gréta hefur alltaf þurft að vakna og fara með mér í vinnuna og vissulega er ég heppin að því leyti að það er ekkert vandamál fyrir mig að fá að hafa hana með mér þar og henni þykir það gaman. Það eru hins vegar ekki allir í þeirri stöðu og þetta er ekki heldur frí fyrir hana. Það er ekki heldur frí að þurfa að vekja hana og koma henni í pössun.
Mér hefur alltaf þótt fúlt að leyfa henni ekki að njóta þess að vera í fríi og geta ekki verið með henni en í dag ákvað ég að taka mér frí í vinnunni og leyfa henni að njóta þess að vera í fríi og vera með mér.
Við höfðum það mjög notalegt og skemmtilegt, sváfum til kl.10, fengum okkur te og beyglu í morgunmat og skriðum svo upp í sófa að horfa á Bólu. Gréta mín naut þess svakalega að kúra með múttu og þegar við vorum hálfnaðar með spóluna tók hún utan um mig og sagðist elska svona daga!!!!!!!
Ég ákvað að gera bara það sem hún vildi og það sem henni þætti skemmtilegt í dag, og skipulagði smá óvissuferð fyrir okkur. Við fórum fyrst í Perluna því okkur hefur lengi langað á Sögusafnið þar og skelltum okkur því þangað, en fórum hratt í gegn því Gréta varð skíthrædd á fyrsta stoppi svo við kíktum þá bara aðeins á stóra skómarkaðinn og Gréta fékk að velja milli skópars og bakpoka og valdi bakpokann að lokum...bleikan og fínan!!!
Nú síðan lá leiðin í keilu og hún var himinlifandi með það. Við tókum einn leik í keilu og tvo í þythokkí og skemmtum okkur konunglega. Hún fékk síðan þrjár tilraunir til að veiða sér bangsa en þær mistókust allar. Þaðan lá svo leiðin í Hafnarfjörð þar sem við kíktum á Didda bróður og nýja vinnustaðinn hans.
Gréta fór svo til pabba síns og fór með honum á Selfoss þar sem hún ætlar að vera hjá honum og Birnu í nótt og njóta þess að vera með pabba sínum í vetrarfríi á morgun :)
Ég gleðst yfir því að hún fái loks almennilegt vetrarfrí og mér finnst hreinlega að það eigi bara að vera í lögum að maður fái vetrarfrí með börnunum sínum, allavega þar til þau eru orðin nógu stór til að vera ein heima...og þó...þá þarfnast þau manns kannski enn meira???????

1 Comments:

At 10:27 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Algjörlega sammála þér með þessi frí. Nauðsynlegt að foreldrar geti tekið þessa frídaga með börnum sínum. Sú er venjan á hinum norðurlöndunum og dagarnir vissulega fleiri. Þetta er hefð þar sem allir vita af og virða og reyndar eru allir skólar í vetrarfríi á sama tíma. Tekur kannski nokkur ár hjá okkur að gera þetta að venju.

Bestu kveðjur og gott að þið gátuð notið dagsins

Jórunn Einars

 

Skrifa ummæli

<< Home