laugardagur, desember 29, 2007

Leti og lestrarhátið

Ég get svarið það, ég hef toppað sjálfa mig í leti um jólin. Ég hreinlega hélt að ég gæti ekki legið svona mikið fyrr en ég væri komin undir græna torfu en...annað kom á daginn. Og mikið svakalega finnst mér þetta gott...það skelfir mig samt!!!

Allavega....við Gréta komum mömmu aldeilis á óvart á 22.des þegar við flugum til eyja en hún hélt að við værum í Herjólfi. Vélin átti að fara frá Rvk kl.16.45 en fór svo ekki fyrr en 19.30 og þá var næstum hætt við flugið vegna snjókomu í eyjum. Plottið okkar var næstum að fara út um þúfur og ég alltaf að hringja í pabba og mamma alltaf að spurja hann hver væri alltaf að hringja. Óli bróðir hringdi svo í mömmu úr Þorlákshöfn og sagði að við værum öll komin þangað og um borð í Herjólf...hehehehe. Svo laumaðist pabbi út og sótti okkur á flugvöllinn og ég get svarið það að ég hélt að mamma fengi áfall þegar við birtumst hér á Vestmannabrautinni. Hún vissi ekkert hvað var að gerast og hélt fyrst að Gréta væri Birta en sá mig svo og var bara orð-og sviplaus í svona 15.sek og hrópaði svo bara HVAÐ ER AÐ GERAST HÉRNA??? hehehehe....en gladdist svo auðvitað óendanlega þegar hún var búin að ná sér og átta sig á því að þetta værum við!!!!!

Nú...síðan var bara verið að gera og græja og undirbúa jólin og áttum við bara yndislegt aðfangadagskvöld og maður þakkar fyrir að geta verið í faðmi fjölskyldunnar og notið jólanna saman. Að vera við hestaheilsu og geta notið lífsins áhyggjulaust er eitthvað sem maður lærir að ganga ekki að sem gefnum hlut.

Bókalistinn minn fyrir árið 2008 er að styttast þar sem ég er þegar búin með 2 bækur af honum, og árið 2008 ekki enn komið!!! Eflaust bætast aðrar bækur við á nýja árinu!!!
Ég fékk náttúrlega nokkrar bækur í jólagjöf, allt bækur sem voru á listanum mínum góða en það voru:
  • Harðskafi e. Arnald Indriðason
  • Nornin frá Portobello e. Paolo Coelho
  • Í öðru landi e. Eddu Andrésdóttur
  • Þúsund bjartar sólir e. Khalid Hosseini

En ég byrjaði á að lesa bók sem Óli fékk í afmælisgjöf og það var bókin ASKA eftir Yrsu Sigurðardóttur. Hún var þrælfín og skemmtilegt að lesa hana þar sem hún gerist hér í Vestmannaeyjum. Nú og svo er ég búin með Harðskafa eftur Arnald og leist mér mjög vel á hana. Hún er aðeins öðruvísi en hinar bækurnar hans, maður fær að vita meira um Erlend og svona....spennó.

Svo ég hvet ykkur til að velja ykkur eina bók og byrja að lesa!!!!

föstudagur, desember 21, 2007

Jólin eru að koma



KÆRU BLOGGVINIR!


GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.

TAKK FYRIR SKEMMTILEG BLOGG OG GÓÐ KOMMENT Á ÁRINU SEM ER AÐ LÍÐA!!
HLAKKA TIL AÐ "LESA" YKKUR ÁFRAM Á KOMANDI ÁRI!!


JÓLAKVEÐJA,

ÍRIS DÖGG


laugardagur, desember 15, 2007

Menningarleg á aðventunni líka

Við mæðgur erum heldur betur búnar að vera menningarlegar í desember. Við fórum á jólaball Seðlabankans 9.desember og dönsuðum þar í kringum jólatréð, gæddum okkur á góðum veitingum og svo komu Skoppa og Skrítla og auðvitað tveir jólasveinar.

Nú, við fórum líka á jólaball flugfélagsins Geirfugls þar sem tveir jólasveinar komu í flugvél á jólaballið, það var ótrúlega gaman líka.

Þá fórum við út að borða með Óla á föstudaginn fyrir viku þar sem hann kom okkur heldur betur á óvart, hann var búinn að kaupa sér 2 miða á Jólagesti Björgvins Halldórssonar en svo var honum boðið í afmæli svo hann vildi endilega að við Gréta myndum skella okkur....sem við og gerðum með glöðu geði. Það var mjög gaman og frábærir gestir með honum. Fallegir og skemmtilegir tónleikar.

Við fórum líka út að borða með Óla í gær og skelltum okkur svo öll þrjú á tónleika í Hallgrímskirkju en þar voru 3 kvennakórar saman komnir og fluttu okkur falleg jólalög héðan og þaðan. Afskaplega hátíðlegt og fallegt.

Ég fór á jólahlaðborð FS á Hótel Loftleiðum síðustu helgi og að því loknu skellti ég mér í bíó með Birgittu og Óla bróður. Við fórum að sjá myndina um Edith Piaf og mikið svakalega er hún góð, þvílíkt líf sem hún hefur átt (já já Herdís ég veit að allar þessar stjörnur hafa átt ömurlegt líf og það er nóg að sjá eina svona mynd...hehehehhehe). Leikkonan sem leikur Edith fer á kostum og það er svo sannarlega satt sem stendur á kynningarblaði myndarinnar að þarna sé að sjá eina stórkostlegustu umbreytingu sem sést hefur í kvikmyndahúsum. En ég verð að játa að Brynhildur var óáðfinnanleg sem Edith í sýningunni um Edith Piaf í þjóðleikhúsinu. Mér fannst sú sýning svo stórkostleg að ég hefði getað farið á allar sýningarnar!!!!

Nú í dag röltum við mæðgur svo Laugaveginn, sendum pakkana til Ítalíu, keyptum nokkrar jólagjafir og fórum svo á Segafredo og fengum okkur heitt súkkulaði og ítalskt brauð og kökur....mæli eindregið með þeim stað!!!!

Á morgun er svo ferðinni heitið til Keflavíkur að skoða jólaljós, hitta ótrúlega skemmtilegt fólk og borða góðan mat, ekki slæmir tímar þetta.

laugardagur, desember 08, 2007

Algjör snilld og svoooo rétt og satt....

Gréta var lasin um daginn og við lágum uppi í rúmi og lásum bók þar sem meðal annars má finna þessa snilld:

Stundum er erfitt að fá Sollu til að sofa. Einu sinni heyrði Varði af því, að hægt væri að láta hænur sofna með því að láta einhvern hlut fara í hringi fyrir augunum á þeim. Þá verða þær alveg ringlaðar og sofna. Þetta prófuðu þeir á Sollu. Þeir settu nagla í stuttan bandspotta og sveifluðu honum fyrir framan Sollu. Solla varð að vísu alveg rugluð en hún hresstist bara. Þegar þeir voru að reyna þetta, kom Aðalbjörg á loftinu. Hvað eruð þið að gera við barnið? spurði Aðalbjörg hissa. Við erum bara að reyna að svæfa hana, sagði Varði og hélt áfram að sveifla naglanum. Það sem þessum börnum dettur í hug, sagði Aðalbjörg hneyksluð. Þetta verð ég að segja henni mömmu þinni. Svo fór hún með Sollu upp til sín. Og það var prýðilegt. En þessi síðasta athugasemd Aðalbjargar varð þeim heilmikið umræðuefni. Alltaf er þetta svona, sagði Palli. Fullorðna fólkinu finnst allt svo vitlaust, sem okkur dettur í hug. Já, alltaf, sagði Varði. Kaupir mamma þín eitthvert blað? spurði Palli. Ha? Já, já við kaupum eitthvert blað, sagði Varði og fannst þetta greinilega undarleg spurning. Komdu með það, sagði Palli ákveðinn. Þá skal ég sýna þér hvað sumum öðrum dettur í hug. Varði sótti blaðið. Palli tók blaðið og leit yfir það. Sjáðu nú til, sagði hann. Það er sko sitt af hverju sem öðrum dettur í hug. Svo byrjaði hann að lesa. Rauðum Fiat stolið við hús við Laugateig. Heldurðu að krakkar hafi gert það? Nei. Varði hristi höfuðið. Sjónvarpstæki stolið úr íbúð við Barmahlíð. Heldurðu að krakki hafi gert það? Varði skildi þetta ekki alveg ennþá. Nei, sagði hann. Krakki loftar ekki einu sinni sjónvarpi, sagði hann hróðugur. Nei aldeilis ekki, sagði Palli. Svo las hann áfram: Þrír menn hengdir í Libýu, það er eitthvert land, sagði hann. Heldurðu að krakkar hafi hengt þá? Ha? Nei, það var Varði viss um. Í þessu kom Aðalbjörg aftur með Sollu, sem var glaðvakandi. Þrjátíu og sex ára gamall maður hálshöggvinn á Indlandi, las Palli. Ósköp eru að heyra þetta, sagði Aðalbjörg. Hvað ertu að segja barn? Ný sprengja komin fram, las Palli. Ný sprengja komin fram, las Palli. Sprengja þessi eyðir öllu lífi í ákveðinni fjarlægð, en lætur mannvirki óskemmd, las Palli. Hvað ertu að lesa þennan óþverra! sagði Aðalbjörg. Börn eiga ekki að lesa svona lagað. Við erum bara að lesa um allt það, sem fullorðna fólkinu dettur í hug, Aðalbjörg mín, sagði Palli. Fullorðna fólkinu? Ég skil ekkert hvað þú ert að segja Palli minn, sagði Aðalbjörg. Þú sagðir áðan, að börnum dytt alls konar vitleysa í hug, eða eitthvað svoleiðis sagðirðu þegar við vorum að nota hænuaðferðina á Sollu, sagði Palli til útskýringar. Hænuaðferðina! hrópaði Aðalbjörg. Ég hef nú aldrei heyrt annað eins. Aðalbjörg, sagði Palli. Hefurðu nokkurn tímann hugsað um hvað fullorðna fólkinu dettur margt vitlaust í hug? Og hræðilegt? Aðalbjörg horfði á Palla. Lestu bara blöðin, sagði Palli.

Þið megið geta úr hvaða bók þetta er, hver er svona mikill snillingur!!

En þegar ég var að lesa þetta datt mér svo margt í hug. Mér datt í hug umræðan um bleiku og bláu fötin á fæðingardeildinni. Það er verið að tala um að við séum að stimpla börnin um leið og þau fæðast. Málið er að við erum öll ólík, ef við værum öll sett í hvítt væri þá ekki verið að reyna að steypa okkur öll í sama mót, að allir ættu að vera eins???? Hefur eitthvað barn hlotið skaða af því? Ég var með Grétu á fæðingardeildinni í innan við sólarhring, ekki hlaut hún neinn skaða af því að vera í bleikum galla rétt á meðan.

Umræðan um Barbie, að ef stelpur leika sér með Barbie fái þær anorexíu og vilji verða eins og hún í vextinum. Ég lék mér með Barbie og er ekkert skemmd eftir það, það liggur annað að baki, það eru vandamál fyrir. Ég er reyndar sammála því að Barbie er ekki beint besta fyrirmynd

Stubbarnir áttu að vera "hættulegir" þar sem einn af þeim er með merki samkynhneigðra á höfðinu. Er eitthvað barn sem veit það? Kom sú athugasemd frá barni?

Því spyr ég...kemur þetta frá börnunum eða fullorðna fólkinu?????
Svei mér þá ef það er ekki bara satt sem segir í laginu...ÞETTA FULLORÐNA FÓLK ER SVO SKRÝTIÐ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

þriðjudagur, desember 04, 2007

Jóla jóla!!

Við mæðgur vorum heima í dag þar sem ég þurfti að sækja Grétu í skólann í gær þar sem hún var með hálsbólgu, hausverk og bara ískalt. Við drifum okkur bara heim og hún upp í sófa að horfa á mynd og hafa það huggulegt.
Í dag var hún örlítið hressari og við notuðum tímann vel, hlustuðum á jólageisladiskana okkar og bökuðum piparkökur.
Gréta verður með vinahóp á fimmtudaginn en þá koma 3 bekkjarfélagar hennar heim til okkar og við gerum eitthvað skemmtilegt. Vonandi komast allir og við getum gert eitthvað gaman saman!!!

Ég er nánast að verða búin með 700 bls. ítölsku spennusöguna...ekkert smá spennandi...fjöldamorðingi gengur laus í Montecarlo og fláir andlitið af fórnarlömbum sínum til að finna rétt andlit á bróður sinn sem brann inni. Morðinginn gróf hann upp úr kirkjugarðinum og fór með hann á leynistað og er að reyna að finna nýtt andlit á hann....ú la la...þeir sem eru spenntir verða bara að bíða eftir bókinni í íslenskri þýðingu minni....muahhhhhhhhhh......

Annars eru ótrúlega margir geisladiskar líka sem mig langar í...væri sátt við bækur, geisladiska og dvd diska í jólagjöf!!!!!!
Lá í flensu um daginn og horfði á 7 dvd myndir nánast í röð....misgóðar reyndar!!!
Horfði á Dances with wolves sem er alltaf góð, Elizabethtown sem var svolítið öðruvísi en samt sæt, Along came Polly sem var svona bara la la, Desperate measure sem var bara ágætis spennumynd, My love, my life (minnir mig) sem er voða falleg saga, Must love dogs ágætismynd svo sem, og svo horfðum við Gréta saman á High School Musical sem Gréta bara elskar!!!
Ekki beint allt myndir sem voru á verð-að-sjá-listanum en þegar maður er veikur og liggur í rúminu allan daginn þá horfir maður næstum á hvað sem er....eða svona þannig....nenni ekki að horfa á Leiðarljós...sama hversu veik ég er eða hversu mikið mér leiðist...það er alveg á hreinu!!!!!

Langar að sjá Jesse James myndina...kannski maður skelli sér í bíó fyrir jól?????????

sunnudagur, desember 02, 2007

Bókalistinn minn fyrir árið 2008

Jæja, þá er ég svoleiðis búin að liggja yfir Bókatíðindum 2007 og merkja við þær bækur sem mig langar til að lesa. Sumar langar mig að eiga en aðrar ætla ég bara að taka á bókasafninu.
Bækur sem ég ætla pottþétt að lesa á árinu 2008 eru eftirfarandi (ekkert endilega í þessari röð samt):
  • Aska e. Yrsu Sigurðardóttur
  • Dauði trúðsins e. Árna Þórarinsson
  • Englar dauðans e. Þráinn Bertelsson
  • Harðskafi e. Arnald Indriðason
  • Kalt er annars blóð e. Þórunni Erlu Valdimarsdóttur
  • Land þagnarinnar e. Ara Trausta Guðmundsson
  • Ógn e. Þórarinn Gunnarsson
  • Ósagt e. Eyvind Karlsson
  • Rimlar hugans e. Einar Már Guðmundsson
  • Saga af bláu sumri e. Þórdísi Björnsdóttur
  • Sautjándinn e. Lóu Pind Aldísardóttur
  • Sandárbókin e. Gyrði Elíasson
  • Tímavillt e. Berglindi Gunnarsdóttur
  • Hefurðu séð huldufólk? e. Unni Jökulsdóttur
  • Stalíngrad e. Antony Beevor
  • Þriðji hver e. Adam Wishart
  • Þú ert það sem þú hugsar e. Guðjón Bergmann
  • Hjartað sem slær í brjósti mér er ekki mitt e. Aline Feuvrier-Boulang
  • Í öðru landi e. Eddu Andrésdóttur
  • Hvítt á svörtu e. Ruben Gallego
  • Snert hörpu mína-Avidaga Davíðs Stefánssonar e. Friðrik G. Olgeirsson
  • Um langan veg e. Ishmael Beah
  • Þegar ljósið slokknar e. Clare Dickens
  • Alexis Sorbas e. Nikos Kazantzakis
  • Hermaður gerir við grammófón e. Sasá Stanisic
  • Hótel Borg e. Nicola Lecca
  • Hundshaus e. Morten Ramsland
  • Hver er Lou Sciortino? e. Ottavio Cappellani
  • Í landi karlmanna e. Hisham Matar
  • Krabbagangur e. Gunter Grass
  • Kæri Gabríel e. Halfdan Freihow
  • Nítján mínútur e. Jodi Picoult
  • Nornin í Portobello e. Paolo Coelho
  • Skyggður Máni e. Alice Sebold
  • Þúsund bjartar sólir e. Khaled Hosseini

og margar margar aðrar...þetta eru bara 35 bækur, 3 bækur á mánuði!!!!! En á náttborðinu eru líka Frú Bovary, Á ég að gæta systur minnar og Leitin að tilgangi lífsins auk þess sem ég er að klára tæplega 700 bls bók á ítölsku og keypti mér líka nokkrar aðrar í Ítalíu í haust!!!!!!!!!!!!!