Það má með sanni segja að við mæðgur höfum verið í túristaleik um helgina, eða kannski túristagæd leik alla vega. Þannig er mál með vexti að við eigum ítalskan vin sem heitir Marco og hann kom til okkar í fyrra og með honum hinir ítölsku vinir okkar, Cristina, Stefano og Ambra.
Marco á norska kærustu sem heitir Jorunn en hún komst því miður ekki með þeim til okkar í fyrra svo þau, Marco og Jorunn, brugðu á það ráð að skreppa hingað til okkar um helgina!!!!!!
Og það var bara gaman :)
Við Gréta vorum mættar á Keflavíkurflugvöll kl.9 í gærmorgun að sækja þau og við brunuðum svo öll hingað heim, fengum okkur brunch, skiptum um föt, settum nýju myndavélina mína í töskuna og brunuðum svo af stað á Þingvelli. Þar var mikil sól en líka mikill vindur!!!!
Þingvellir eru í miklu uppáhaldi hjá mér, mér finnst gasalega fallegt þar og svo er bara svo mikil saga þar. Við eyddum talsverðum tíma í gær í að labba um Þingvelli og skoða og spjalla og ég elska að fá ítali í heimsókn og geta spjallað ítölsku...virkileg þörf fyrir það..hehehe....
Við skelltum okkur svo líka að Geysi og sáum þann merka hver gjósa allnokkru sinnum og mikið gasalega svakalega ofsalega er gaman að vera þar innan um Kínverja, Japani, Spánverja, Ítali, Frakka, Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir þegar hverinn gýs....það er ómetanlegt og íslenska hjartað slær aukaslag af þjóðarstolti þegar ferðamennirnir stynja og hrópa og vá-a og klappa og hreinlega bresta í grát yfir þessum ógnarkrafti og fegurð íslenskrar náttúru, já þetta er stórmerkileg jörð.
Og svo var það Gullfoss....stór og kraftmikill og sérlega fallegur og Kerið í bakaleiðinni :)
Í dag gerðum við okkur dagamun og skelltum okkur í Bláa Lónið...sem reyndar var Grænt í dag...sá það meira að segja í Fréttunum að þörungarnir hafa það svo gott að vatnið skipti hreinlega bara um lit...en hvort sem það er Blátt eða Grænt er það svona líka endurnærandi og húðin eftir náttúrulega maskann er svo mjúk og endurnærð. Eini gallinn við Bláa Lónið er að ég verð alltaf svo gasalega svöng þar, er varla komin ofan í Lónið þegar ég finn fyrir svona líka svakalegu hungri...en það reddast alltaf....SS pylsa, Kók og Nizza þegar upp úr var komið....ja...hefði kannski verið betra að segja Skyr, salat og hollt snakk....en neibbb....svo gott var það ekki!!!
Úr Lóninu lá leiðin á Keflavíkuflugvöll því Marco og Jorunn fóru aftur í dag :( stutt stopp en miklu afrekað....elska að fá svona gesti, þau eru svo opin og einlæg og finnst allt svo frábært sem er gert fyrir þau, sama hversu lítið og sjálfsagt það er.
Þannig eru sannir og einlægir vinir og það gerir manni ekkert nema gott að umgangast svona fólk....ohhhhhhh.......þarf endilega að komst til þeirra til Trieste......vediamo in futuro......og það magnaðasta er að bestu 2 vikurnar veðurfarslega séð í fyrrasumar voru þessar 2 þegar þessir ítölsku vinir okkar voru hér og gærdagurinn og dagurinn í dag voru ekki sem verstir...er því búin að biðja Marco að koma sem oftast því svo virðist vera sem góða veðrið fylgi honum...þannig að ef þið vitið um lausa stöðu hjá Icelandair/IcelandExpress eða öðru íslensku flugfélagi get ég fengið Marco til að vera um kyrrt og Ísland verður besta sólarlandaeyjan í heiminum...hvað segiði um það??????????
Maður má alltaf láta sig dreyma....ekki satt???
Hafið það gott og hugsið vel um vini ykkar...íslenska og erlenda!!!