Jákvætt viðhorf
Það er engu logið þegar sagt er að viðhorfið skipti máli. Ef maður mætir á stað og er með neikvætt viðhorf þá er maður fljótur að sjá það neikvæða en missir af því jákvæða. Ég fór á fyrirlestur um daginn þar sem var sagt frá tveimur afleysingarkennurum sem áttu að vera með bekk í viku. Annar kennarinn fékk þær upplýsingar að bekkurinn væri afar erfiður og það yrði bara að taka vel á þeim og vera strangur við þau því þau skildu bara ekkert annað, þau væru svo óþekk og gætu bara varla lært nokkurn skapaðan hlut. Kennarinn fór með allar þessar upplýsingar inn í bekkinn og gekk náttúrulega ekkert svakalega vel.
Hinn kennarinn fékk hins vega allt aðrar upplýsingar, honum var tjáð að bekkurinn væri bara mjög góður og gaman að kenna honum og þau væru bara til í allt. Hann fór fullur af jákvæðni og bjartsýni í bekkinn og kennslan gekk eins og í sögu.
Ég var í aðferðarfræði fyrir jólin og var fyrirfram búin að ákveða að þetta væri eitthvað sem ég gæti ekki lært, sama hvað ég myndi reyna, auk þess sem ég hafði heyrt frá skólasystrum mínum að þetta væri svo leiðinlegt og erfitt. Ég fékk 5 í stærðfræði alla mína framhaldsskólagöngu og var bara ákaflega glöð með það, þar sem algebran vafðist mikið fyrir mér og ég viðurkenni það að ég nennti hreinlega ekki að læra þetta þar sem ég vissi að ég myndi aldrei í lífinu þurfa að nota þetta. Ég hef greinilega ekki þroskað tilfinningagreind mína mikið því þegar ég byrjaði í aðferðarfræðinni var ég stödd á nákvæmlega þessum stað og ég ýtti lesefninu alltaf frá mér og sagði við sjálfa mig að það þýddi ekkert fyrir mig að vera eyða alltof miklum tíma í þetta......svona skemmir neikvætt viðhorf fyrir manni, því þegar ég svo fór að lesa fyrir prófið þá var margt þarna sem var áhugavert og alls ekki erfitt þótt annað hafi ekki verið mér að skapi. Verkefnin sem ég vann voru vel gerð og ég fékk meira að segja 9 fyrir eitt verkefni sem ég kláraði á 20 mínútum, rétt áður en ég skellti mér í flug til Tallinn :)
Núna er ég að vinna að þróunarverkefni í skólanum sem og lokaverkefni og ég er full af allskonar hugmyndum og nýti mér allt sem ég finn og sé og skemmti mér konunglega við þetta. Það hefur sjaldan verið jafn gaman að grúska í heimildum og kanna hluti eins og núna. Þar spila nokkrir þættir inn í og þeir eru m.a.
- Jákvætt viðhorf
- Ég, ásamt stelpunum sem eru með mér í þróunar-og lokaverkefninu, völdum sjálfar viðfangsefni og höfum mikinn áhuga á því sem við erum að gera því þetta er OKKAR hugmynd.
- Ég sé fyrir endann á náminu :)
- Mikið minna álag námslega séð núna en fyrir jól.
Ég fékk ekki nema 6,5 í lokaeinkunn í aðferðarfræðinni og verð að játa að ég bjóst ekki við þeirri einkunn, bjóst við að falla eða þá rétt ná að skríða í fimmuna....svo EF ég hefði verið jákvæð og tekið þetta fastari tökum og sagt: Ég get, ég skal, ég mun.....þá hefði ég eflaust getað gert betur.
Jákvætt viðhorf er það sem maður á að tileinka sér, nóg er af neikvæðninni í samfélaginu og bara heiminum öllum. Finnum það jákvæða og notum það :)
3 Comments:
Mjög góður pistill og það er alveg rétt hjá þér að jákvætt viðhorf gefur manni betra start og leiðir til betri árangurs.
Það er búið að vera sérstaklega gaman að lesa pistlana þína undanfarið.. Þú ert svo jákvæð og bjartsýn og það leikur greinilega við þig lífið..:) Gangi þér áfram svona vel Íris Dögg.
kv. Ragna Jenný
Takk takk Ragna Jenný...ég las pistil hjá þér um daginn um bókina "Lífsgleði njóttu" og hann vakti mig til umhugsunar og ég mundi svo skyndilega eftir því að ég átti þessa bók, fann hana og er að lesa hana fyrir svefninn og meira að segja strika undir með rauðum lit!!! Meðal annars vegna þess er ég svona bjartsýn og jákvæð þessa dagana. Vona að það fari að birta til hjá þér líka :)
Hakuna matata eins og Tímon og Púmba segja...
Ætlaði einmitt að segja það sama og Ragna Jenný... það er svo bjart yfir blogginu þínu að það er unun að lesa það.
Ég segi nú bara eins og konan á borðinu við hliðina á Meg Ryan í When Harry met Sally: I´ll have what she´s having :)
Kv. Beta
Skrifa ummæli
<< Home